Ester Rut Unnsteinsdóttir, spendýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, færir okkur góðar fréttir af refunum í friðlandinu á Hornströndum. Í fyrrasumar var útlitið dökkt. Eitthvað var á seyði meðal refanna – óðul voru færri en venjulega, got sjaldgæfari og yrðlingar fáséðari en áður.
En í vettvangsferð vetrarins, þrátt fyrir vonskuveður, var útlitið bjartara. Kannski var það einmitt vegna veðursins því brimskaflar sem mynduðust í storminum skoluðu reiðarinnar býsn af sjávarfangi á land svo refirnir urðu saddir og glaðir.
Það var því ekki laust við að Ester, sem leiddi sumarleiðangurinn á svæðið að venju, væri full eftirvæntingar að sjá hvernig lágfótan hefði náð að fóta sig þetta sumarið.
Rúmlega tveggja vikna leiðangur Esterar og fjögurra annarra, þeirra Ingva Stígssonar, Birte Technau, Anni Malinen og Lucía Raba Tortosa hófst þann 23. júní.
Vegna COVID-faraldursins komust ekki aðrir sem gert hafði verið ráð fyrir í ferðina en að jafnaði eru sex aðstoðarmenn í sumarleiðöngrunum sem sjá um að vakta þrjú greni og skrá atferli refa og ferðamanna. Þessi fjögur eru búsett á Íslandi og gátu því að sögn Esterar tekið að sér þetta mikilvæga verkefni með litlum fyrirvara.
Farið var á þrjátíu þekkt greni og „útibú“ eða kot út frá nokkrum þeirra í Hælavík, Rekavík bak Höfn, Hornvík og Látravík. Einnig fengust ítarlegar upplýsingar um refi i Hlöðuvík. Alls voru skráðar upplýsingar af 37 grenjum af um 30 þekktum óðulum. Af þeim reyndust níu í ábúð og sáust í þeim 40 yrðlingar eða að meðaltali 4,4 á hverju greni.
Tvö greni voru vöktuð í 12 tíma í senn í fimm daga og allt atferli manna og dýra skráð og tímasett. Önnur greni voru heimsótt í nokkur skipti í mislangan tíma.
Ný dýr áberandi
Ester segir að flest grendýrin sem sáust hafi verið „ný“ en að minnsta kosti tvö þeirra voru þekkt frá fyrri árum. Ein þeirra er hvít læða, dóttir læðu sem fylgst var með árin 2014-2018 áður en hún hvarf.
„Þessi hvíta læða hefur fært sig milli dala í Hornbjargi en heldur sig við sömu kröfur og áður en hún tekur yfir tvö greni sem hún notar bæði og ganga yrðlingar hennar á milli, um það bil 600 metra,“ útskýrir Ester. „Á gamla óðalinu hennar er nú par sem sást til í mars þegar það bar steinbít alla leið frá fjöru og upp á bjarg. Verður að segjast að það þrekvirki sýnir hversu hörð dýrin eru af sér og hversu mikið þau leggja á sig til að koma sér og sínum fyrir á góðum stað. Hvíta læðan sást líka í mars og hefur haldið sig á sömu slóðum en steggurinn hennar virðist nýr og er þá sá þriðji sem hún eignast afkvæmi með frá því hún hóf búskap.“
Fæðuleifar við greni voru ekki áberandi og segir Ester það
benda til þess að yrðlingar séu enn ungir og að fæða sé borin inn. „Reyndist
það raunin því flestir yrðlingar voru smáir og þó nokkur munur var á elstu og
yngstu yrðlingunum sem sáust. Einnig voru læður gjarnan inni í grenjunum en það
gera þær helst þegar þeir eru enn litlir. Sumir yrðlinganna voru þó farnir að
þvælast verulega langt frá greninu.“
Ester greinir svo frá því að eitt parið hafi staðið í flutningum, mögulega vegna truflunar og voru yrðlingar þeirra afar smáir. „Einn þeirra var í nær þrjár klukkustundir einn á þvælingi og skældi mikið en var ekki sinnt af foreldrum, líklega vegna nærveru fólks,“ útskýrir hún. Sá sem var að vakta grenið var staddur í um 100 metra fjarlægð og tók á endanum ákvörðun um að færa yrðlinginn á nýja grenið. „Sá stutti skalf, en ekki er ljóst hvort það var af ótta eða kulda. En hann tók síðan að éta lítinn fisk sem fannst við grenið og lagði sig eftir það. Tveimur dögum síðar sást hann að leik við gotsystkini sín og virtist við hestaheilsu.“
Ester ítrekar að ekki sé þó mælt með að fólk bjargi
yrðlingum sem það finnur á víðavangi heldur ætti það að halda sig fjarri þeim
og leyfa foreldrum að ljúka við flutninga og koma afkvæmum sínum í skjól.
„Flutningar sem þessir eru oft af völdum truflunar og því skal gefa dýrunum
svigrúm til að leita skjóls á nýjum stað ef þau telja sig þurfa þess.“
En að gleðifréttunum:
Refirnir í Hornvík og nágrenni virðast hafa komið vel undan vetri og er ábúð og tímgun með besta móti, eða 40 prósent, segir í samantekt úr leiðangrinum. Ekki hefur verið eins hátt hlutfall grenja í austanverðri Hornvík frá árinu 2015. Enn hefur stofninn þó ekki náð sér frá því sem var fyrir hrunið árið 2014.
Eitt af því sem kemur Ester á óvart er hversu fá hvít dýr virðast þrífast á svæðinu og afföll hvítra yrðlinga virðist mun hærra en þeirra mórauðu. Ester segir að þetta þurfi að skoða betur út frá þeim gögnum sem safnað hefur verið á undanförnum tveimur áratugum. Ljóst sé að miðað við þann fjölda hvítra dýra sem sjást sem yrðlingar ættu að vera fleiri hvít fullorðin dýr en raun ber vitni.
En sumarið er ekki úti. Það er ekki fyrr en lok þess sem í ljós mun koma hvernig yrðlingunum sem Ester og félagar skráðu á dögunum mun reiða af. Hún segir fæðuskilyrði séu betri núna en á síðasta ári og flest óðulin hafa stækkað svo meiri möguleikar eru fyrir foreldrana að afla fæðu en áður þegar þrengra var um dýrin. „Árið 2020 virðist ekki líta út fyrir að verða slæmt fyrir refina á Hornströndum,“ segir Ester.
Í fyrra benti Ester á að svo virtist sem ljósmyndarar með stórar aðdráttarlinsur hefðu haft einhver áhrif á refina. Þeir hafi hreinlega lagt á flótta undan þeim. En í upphafi sumars voru mun færri ferðamenn á Hornströndum en á undanförnum árum. Og ferðamennirnir sem lögðu þangað leið sína voru ekki þangað komnir til að liggja við greni og mynda. „Það gæti alveg skipt máli.“