„Að mati Rio Tinto verður verðlagning orkunnar að vera gagnsæ, sanngjörn og alþjóðlega samkeppnishæf. Við teljum að það sé viðeigandi að trúnaði verði aflétt af öllum samningum Landsvirkjunar við álver þannig að gagnsæi ríki og hægt sé að bera saman verð.“
Þannig hljóðar skriflegt svar upplýngafulltrúa ÍSAL, Bjarna Más Gylfasonar, við fyrirspurn Kjarnans um hvort Rio Tinto hyggist aflétta trúnaði á raforkusamningi við Landsvirkjun líkt og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar hefur lagt til.
Rio Tinto tilkynnti í gær að félagið hefði lagt fram formlega kvörtun til Samkeppniseftirlitsins vegna „misnotkunar Landsvirkjunar á yfirburðastöðu fyrirtækisins gagnvart ÍSAL,“ eins og það var orðað í tilkynningu. Fer félagið fram á það að stofnunin taki á „samkeppnishamlandi háttsemi Landsvirkjunar með mismunandi verðlagningu og langtímaorkusamningum, svo álver ÍSAL og önnur íslensk framleiðsla og fyrirtæki geti keppt á alþjóðavettvangi“.
Í tilkynningunni kom svo fram að ef Landsvirkjun mun ekki láta „af skaðlegri háttsemi sinni“ hefði ÍSAL ekki annan kost en að íhuga að segja upp orkusamningi sínum við Landsvirkjun og „virkja áætlun um lokun álversins“.
Gildandi raforkusamningur Landsvirkjunar og álversins í Straumsvík var gerður í júní 2010. Hann gildir til ársins 2036 og um er að ræða fyrsta samninginn sem Landsvirkjun gerði við álframleiðanda hérlendis þar sem að tenging við álverð var afnumin. Með því færðist markaðsáhættan af þróun á álmarkaði frá seljandanum yfir á kaupandann.
Forstjóri Landsvirkjunar sagði í samtali við Vísi í gær að tilkynning Rio Tinto hefði komið sér á óvart. Hann hefði staðið í þeirri trú að viðræður stæðu enn yfir um endurskoðun raforkusamningsins. Hörður sagði að félagið hefði ekki svarað tilboði sem lagt var fram vegna erfiðrar stöðu á álmörkuðum. Þá sagði hann að Rio Tinto hefði ekki viljað aflétta trúnaði á orkusamningnum, líkt og Hörður lagði skriflega til við félagið snemma á þessu ári, og því væri erfitt að tjá sig um efnisatriði hans.
Sambærilegir samningar ekki í boði
Kjarninn sendi upplýsingafulltrúa ÍSAL fyrirspurn um hvort til stæði að aflétta þessum trúnaði og ef það stæði ekki til, hver ástæðan fyrir því væri. Svarið var eins og fyrr segir það að félagið teldi viðeigandi að trúnaði yrði aflétt af öllum samningum Landvirkjunar við álverin.
Nú þrýstir félagið á endurskoðun hans og vill lægra raforkuverð. Hörður sagði í samtali við Vísi í gær að því væri ekki að neita að sumir eldri samningar, t.d.við Alcoa, séu hagstæðari en þeir sem Rio Tinto hefur búið við. Þeir hafi hins vegar verið gerðir fyrir um tveimur áratugum. Sambærilegir samningar séu einfaldlega ekki í boði í dag.