Facebook-færslu Donalds Trumps var eytt í gær vegna þess að í myndbandi sem fylgdi færslunni setti Trump fram fullyrðingar um COVID-19 sem áttu ekki við rök að styðjast. Twitter fylgdi í kjölfarið og frysti aðgang sem tengdur er framboði Trumps í komandi forsetakosningum þar til sambærilegri færslu hafði verið eytt af Twitter.
Í myndbandinu sagði Trump að börn væru næstum ónæm fyrir kórónuveirunni og COVID-19 sjúkdómnum sem hún veldur. „Ef horft er til barna þá eru börn næstum, og ég myndi næstum segja algjörlega, en þau eru næstum ónæm fyrir sjúkdómnum,“ sagði Trump og bætti svo við: „Þau hafa sterkara, það er erfitt að trúa því og ég veit ekki hvað ykkur finnst um það, en þau hafa miklu sterkara ónæmiskerfi heldur en við þegar kemur að þessu.“
Orðin lét Trump falla í símaviðtali í sjónvarpsþættinum Fox and Friends en hann er þar tíður gestur. Umræðuefnið var opnun skóla í Bandaríkjunum og taldi hann öruggt að opna skóla í haust vegna ofangreindra röksemda.
Fullyrðingar sem eiga ekki við rök að styðjast
Í frétt BBC er haft eftir talsmanni Facebook að myndbandið innihaldi fullyrðingar sem eigi ekki við rök að styðjast. Fullyrðingar um að tiltekinn hópur fólks sé ónæmur fyrir COVID-19 brjóti skilmála Facebook sem snúi að misvísandi fullyrðingum um kórónuveiruna. Þetta er í fyrsta sinn sem Facebook fjarlægir efni frá forsetanum á grunni þessara skilmála.
Líkt og áður sagði frysti Twitter aðgang sem tengdur er framboði Trumps vegna sama myndbands. Tístið hafi brotið gegn sams konar skilmálum, um dreifingu rangra upplýsinga um COVID-19. Tístinu var síðar eytt.
Ekki í fyrsta sinn
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Trump fer á svig við skilmála samfélagsmiðlanna. Í maí á þessu ári sá Twitter ástæðu til þess að hylja tíst frá forsetanum. Með tístinu braut Trump skilmála Twitter með því að „upphefja ofbeldi“. Tístið er enn á vegg forsetans en yfir því er orðsending frá Twitter sem segir tístið hafa brotið skilmála miðilsins en að því hafi verið leyft að standa því það gæti varðað almannahagsmuni. Smella þarf á sérstakan hnapp til að skoða tístið og fela þar með tilkynninguna.
Skömmu áður hafði Trump sent frá sér tíst þar sem hann hélt því fram að póstkosningar myndu leiða til víðtæks kosningasvindls. Twitter brást við með því að setja tengil á staðreyndir um póstkosningar fyrir neðan tístið. Ef notendur fylgdu tenglinum fengu þeir upplýsingar frá fjölmiðlum og sérfræðingum um að sú væri ekki raunin.