Alþýðusamband Íslands (ASÍ) segir að stuðningur stjórnvalda við fyrirtæki eins og Icelandair Group eigi ekki að vera án skilyrða. Félagið hafi þegar fengið mikinn stuðning frá ríkinu, meðal annars í gegnum hlutabótaleiðina, frestun opinberra gjalda, greiðslu launa á uppsagnarfresti starfsfólks.
Neytendasamtök Íslands gera þá kröfu að Icelandair Group endurgreiði þeim farþegum sem félagið hefur enn ekki endurgreitt vegna niðurfelldra fluga áður en ríkisábyrgð er samþykkt.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í umsögnum ASÍ og Neytendasamtakanna um fyrirhugaða ríkisábyrgð upp á 15 milljarða króna á lánum ríkisbankana Íslandsbanka og Landsbankans til Icelandair.
Siðlaust og ólögmætt
Í umsögn ASÍ segir meðal annars að það sé ófrávíkjanleg krafa að íslenskir kjarasamningar ráði réttindum og skyldum hjá Icelandair Group, réttindi launafólks séu virt og að félagið virði leikreglur íslensks vinnumarkaðar.
ASÍ bendir líka á að ríkisstuðningur eigi að vera háður þeim skilyrðum að félög og dótturfélög þeirra hafi hvorki viðveru né stundi viðskipti í gegnum skattaskjól eða lágskattaríki. Slíkt er ekki tiltekið í frumvarpi um veitingu ríkisábyrgðarinnar.
Að lokum segir ASÍ að stjórnvöldum og Alþingi beri að verja hagsmuni ríkisins í hvívetna í gegnum traust veð eða að ríkið eignist hlut í félaginu. „Óvissa ríkir um hvort þetta skilyrði sé uppfyllt líkt og sjá má í umsögn Ríkisendurskoðunar en þar segir að ósennilegt sé að tryggingar geti numið þeim 15 milljörðum sem lánaðir eru.“
Vilja að Icelandair endurgreiði
Neytendasamtök Íslands hafa líka skilað inn umsögn. Þar segjast þau ekki gera athugasemd við frumvarpið sjálf, en telja sig knúin til að benda á að Icelandair Group hafi ekki endurgreitt fjölda farþega sem eiga rétt á slíkri endurgreiðslu samkvæmt Evrópusambandsins reglugerð sem hefur verið leidd inn í íslensk lög. Þau vilja „að tryggt sé áður en ríkissjóður gengst í ábyrgð fyrir Icelandair, geri félagið hreint fyrir sínum dyrum gagnvart almenningi og endurgreiði neytendum lögum samkvæmt.“
Samkvæmt reglugerðinni eiga farþegar aflýstra flugferða rétt á endurgreiðslu innan sjö daga frá aflýsingu flugs. „Til Neytendasamtakanna hafa leitað hundruð farþega, sem hafa ekki fengið endurgreitt niðurfelld flug. Elstu flugferðirnar sem enn á eftir að gera upp eru, eftir bestu vitund starfsfólks samtakanna, frá því snemma í mars. Neytendasamtökin gera þá kröfu að ef samþykkja eigi ríkisábyrgð, verði tryggt að Icelandair standi skil á lögbundnum endurgreiðslum til neytenda sem eiga lögvarinn rétt til þess.“
Í hálfsársuppgjöri Icelandair kemur fram að félagið hafi gefið út inneignir til viðskiptavina sinna fyrir alls 67,2 milljónir dala, rúmlega 9,1 milljarði króna, á fyrri helmingi ársins 2020. Upphæðin sem Icelandair hefur gefið út í inneignir samsvarar um fjórðungi af öllum farþegatekjum Icelandair á öðrum ársfjórðungi í fyrra. Til að setja þessa upphæð í annað samhengi þá var hún um 44 prósent af öllu lausu fé Icelandair í lok júní, sem var 151,2 milljónir dala, um 20,6 milljarðar króna.