Jacinda Ardern forsætisráðherra Nýja-Sjálands hyggst fresta lokun álvers Rio Tinto á Tiwai Point um þrjú til fimm ár og er tilbúin að veita ríkisstuðning til álfyrirtækisins til að ná fram lægra raforkuverði ef hún nær endurkjöri í næstu þingkosningum í landinu.
Samkvæmt frétt Reuters um málið hefur lokun álversins orðið að bitbeini fyrir komandi kosningar í Nýja-Sjálandi, sem munu fara fram þann 17. október. Rio Tinto hefur áður lýst því yfir að fyrirhugað væri að loka álverinu í Tiwai Point í ágúst á næsta ári vegna hás raforkukostnaðar og erfiðra aðstæðna á álmarkaðnum.
Á blaðamannafundi Verkamannaflokksins, sem Ardern er í forsvari fyrir, tilkynnti hún svo fyrr í dag að hún hygðist sjá til þess að lokuninni yrði frestað.
„Við erum að stefna að því að lengja líf álversins um þrjú til fimm ár,“ sagði Ardern á fundinum, sem fór fram í nágrenni álversins í bænum Inverncargill. „Með því að veita lengri tímaramma fyrir lokun álversins verndum við störf núna og gefum samfélaginu tíma til að meta og skipuleggja áætlun til framtíðar“.
Samkvæmt Ardern myndi ríkisstjórn hennar vinna með Rio Tinto og opinbera raforkusalanum Transpower til þess að ná „sanngjörnu verði“ á næstu árum, svo að áhrif lokunarinnar á almennt raforkuverð verði sem minnst. Í fréttatilkynningu frá Verkamannaflokknum í kjölfar blaðamannafundarins kemur einnig fram að ríkisstjórnin gæti veitt Transpower stuðning til þess að lækka raforkuverð Rio Tinto.
Stórkaupandi á orkumarkaði
Rio Tinto er stórkaupandi á orkumarkaði Nýja-Sjálands og nemur árleg notkun álversins um fimm þúsund gígavattstundum, sem eru tólf prósent af allri orkunotkun landsins. Um þúsund manns vinna í álverinu, en samkvæmt umfjöllun Reuters um málið skapar starfsemi þess um 1600 afleidd störf til viðbótar í kjördæminu.
Að sögn Kellie Parker, starfandi forstjóra Rio Tinto á Kyrrahafssvæðinu, er álfyrirtækið opið fyrir samræður við nýsjálensk stjórnvöld ef þær gætu leitt til „sanngjarnari verðs“ fyrir álverið.
Kunnuglegt stef
Rio Tinto er móðurfélag ÍSAL sem rekur álverið í Straumsvík. Í febrúar síðastliðnum tilkynnti álfyrirtækið að það íhugaði lokun álversins vegna hás raforkuverðs og krefjandi markaðsaðstæðna. Í júlí hótaði Rio Tinto einnig því að loka álverinu í Straumsvík vegna „samkeppnishamlandi háttsemi“ Landsvirkjunar, sem selur þeim orkuna hér á landi. Mánuði seinna sótti álfyrirtækið svo um nýtt starfsleyfi fyrir álverið.
Um 400 manns starfa hjá álverinu í Straumsvík, en samkvæmt Samtökum iðnaðarins eru um 800 störf til viðbótar háð starfsemi fyrirtækisins á óbeinan hátt. Orkunotkun ÍSAL nam tæplega þrjú þúsund gígavattstundum í fyrra, en það jafngildir um 15 prósentum af heildarraforkunotkun Íslands árið 2019.
Hörður Árnason forstjóri Landsvirkjunar hefur sagt að fleiri þættir en raforkuverð hafi áhrif á stöðu álveranna og vill meina að núvernadi raforkusamningur þeirra við Rio Tinto sé sanngjarn. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir iðnaðarráðherra hafa bæði sagst ekki ætla að skipta sér að verðlagningu Landsvirkjunar, þar sem það væri fyrirtæki á samkeppnismarkaði með sjálfstæða stjórn.
Líkt og Kjarninn hefur áður fjallað um eru hótanir Rio Tinto um að loka álverinu í Straumsvík ekki nýjar af nálinni, en verkfalli var aflýst þar árið 2015 eftir að talsmenn álversins sögðu það vera óvíst hvort álverið hæfi aftur starfsemi sína ef starfsmenn þess legðu tímabundið niður störf.
Samkvæmt Reuters hefur Rio Tinto einnig hótað lokun álversins á Nýja-Sjálandi oft á síðustu árum, samhliða því að fyrirtækið krefjist aukins stuðnings frá hinu opinbera. Jacinda Ardern bætti þó við á blaðamannafundinum í morgun að engra frekari opinberra niðurgreiðslna sé að vænta til álfyrirtækisins, er frá er talinn fyrirhugaður samningur um lægra raforkuverð.
Keppinauturinn sama sinnis
Samkvæmt niðurstöðum skoðanakannana hefur flokkur Ardern verið í öruggri forystu síðustu mánuðina. Helsti keppinautur þess er Þjóðarflokkur Nýsjálendinga með Judith Collins í fararbroddi. Collins virðist þó vera nokkuð samstíga Ardern í málum sem varða álverið og lofar einnig að efna til samningaviðræðna við Rio Tinto nái hún kjöri.