„Sú kæra sem borist hefur frá Umhverfisstofnun til embættis héraðssaksóknara vegna meintra brota Eimskips á lögum um meðhöndlun úrgangs rímar augljóslega ekki vel við áherslur okkar um samfélagslega ábyrgð í fjárfestingum. Við lítum það mál að sjálfsögðu mjög alvarlegum augum. Í okkar huga snýst málið ekki eingöngu um siðferðisleg sjónarmið í alþjóðlegum viðskiptum heldur hlítingu við lög og reglur sem er algjört grundvallaratriði við mat á stjórnarháttum.“
Þetta segir Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs, í svari við fyrirspurn Kjarnans, en Birta er fimmti stærsti eigandi Eimskips með 6,1 prósent eignarhlut í félaginu. Tilefni fyrirspurnarinnar var umfjöllun fréttaskýringaþáttarins Kveiks á fimmtudag þar sem greint var frá endurvinnslu tveggja skipa, Laxfoss og Goðafoss, í skipaniðurrifsstöð í Indlandi sem uppfyllir ekki evrópskar reglur um endurvinnslu skipa.
Skipin tvö voru seld í desember í fyrra til fyrirtækis sem heitir GMS, og sérhæfir sig í að vera milliliður sem kaupir skip til að setja þau í niðurrif í Asíu þar sem kröfur um aðbúnað starfsmanna og umhverfisáhrif niðurrifsins eru mun lakari en í Evrópu. Þar eru skip oft rifin í flæðarmálinu og ýmis spilliefni látin flæða út í umhverfið. Þá vinna starfsmenn þar við svo erfiðar aðstæður að þær hafa verið kallaðar mannréttindabrot.
Laxfoss og Goðafoss voru flutt í skipakirkjugarðinn í Alang á Indlandi í maí síðastliðnum. Í þætti Kveiks kom fram að ein af ástæðum fyrir því að þetta þætti eftirsóknarvert væri sú að í Asíu sé greitt fjórum sinnum meira fyrir skip á leið í niðurrif en í Evrópu. Að minnsta kosti 137 starfsmenn í Alang hafa látist við störf síðastliðinn áratug, samkvæmt því sem kom fram í Kveik.
Lífeyrissjóðir eiga meira en helming
Framferði Eimskip hefur þegar verið kært til embætti héraðssaksóknara af Umhverfisstofnun. Eimskip sendi frá sér tilkynningu til Kauphallar Íslands á föstudag þar sem félagið hafnaði því að hafa brotið lög.
Stærsti eigandi Eimskips er Samherji Holding, annar helmingur Samherjasamstæðunnar sem heldur utan um erlenda starfsemi hennar og eignarhlutinn í Eimskip, með 27,06 prósent hlut. Stjórnarformaður Eimskips er Baldvin Þorsteinsson, sonur Þorsteins Más Baldvinssonar forstjóra Samherja.
Stjórn Eimskips þarf að upplýsa um málið
Birta hefur einnig sett sér slíka stefnu. Sjóðurinn er meðal annars aðili að reglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (Principles for Responsible Investment). Þær eiga að vera leiðbeinandi fyrir stofnanafjárfesta um allan heim og fela í sér að þátttakendur skuldbinda sig til að taka tillit til umhverfislegra og félagslegra þátta við fjárfestingar sínar, auk þess sem lögð er áhersla á góða stjórnarhætti fyrirtækja sem fjárfest er í. Samkvæmt því sem fram kemur á heimasíðu Birtu þykja reglurnar því falla „almennt vel að hlutverki og eðli lífeyrissjóða enda hafa þeir þýðingarmiklu samfélagslegu hlutverki að gegna og almenningur gerir kröfu um að þeir axli samfélagslega ábyrgð.“
Í svari framkvæmdastjóra Birtu við fyrirspurn Kjarnans segir að sjóðurinn hafi ekki þær rannsóknarheimildir sem þarf til að komast að niðurstöðu í málinu. „Á meðan svona mál eru í rannsókn er nálgun okkar gagnvart skráðum fyrirtækjum, jafnræði hluthafa í upplýsingagjöf. Við gerum þannig ráð fyrir að félagið muni upplýsa markaðinn um málið og fylgja því jafnræðissjónarmiði eftir því sem málinu vindur fram. Þótt Birta teljist til stærri hluthafa í Eimskipum höfum við ekki greiðari aðgang að upplýsingum en aðrir hluthafar. Það er því hlutverk stjórnar Eimskipa að upplýsa um málið og verði ekki orðið við því þarf augljóslega að grípa til harðari aðgerða sem við höfum á þessu stigi ekki lagt mat á. Það mat mun byggja á framvindu málsins á næstu dögum og vikum.“