Hátt í áttatíu prósent landsmanna segjast fara að öllu eða mestu leyti eftir þeim tilmælum sem koma frá almannavörnum og landlæknisembættinu vegna COVID-19. Einungis lítill hluti telur þó að samborgarar sínir geri almennt slíkt hið sama.
Þetta má lesa út úr nýjustu tölum í könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands á viðhorfum þjóðarinnar í COVID-19 faraldrinum, sem eru frá 1. október. Einungis 14 prósent aðspurðra sögðust hafa trú á því að Íslendingar væru almennt að fara að þeim tilmælum sem gefin hafa verið út.
Þetta hlutfall er mun lægra en þegar verið var að kveða fyrstu bylgju faraldursins í kútinn í apríl og byrjun maí. Þá sögðust gjarnan yfir 40 prósent aðspurðra hafa trú á því að samborgarar sínir væru almennt að fara eftir reglum.
Fólk hefur reyndar meiri trú á því fólki sem það persónulega er í mestu samskiptum við, en um 63 prósent segjast hafa trú á því þeir einstaklingar – sem þá væntanlega eru fjölskylda, vinir og vinnufélagar – fari að öllu eða mestu leyti eftir þeim tilmælum sem gefin eru út í sóttvarnaskyni.
Áhyggjur af faraldrinum aukast
Samkvæmt nýjustu tölum í könnun Félagsvísindastofnunar eru áhyggjur af faraldri COVID-19 að aukast fremur hratt, en 72 prósent aðspurðra hafa mjög eða frekar miklar áhyggjur af faraldrinum samkvæmt nýjustu birtu mælingum, sem eru frá 1. október.
Reikna má með því að þetta hlutfall hafi haldið áfram að hækka síðan þá, í takt við vöxt faraldursins og aukin áhrif veirunnar í samfélaginu. Um miðjan september hafði einungis um og yfir helmingur aðspurðra mjög eða frekar miklar áhyggjur af stöðu mála.
Trú á að aðgerðir dugi hefur verið minni í þriðju bylgjunni
Lesa má út úr könnun Félagsvísindastofnunar að eftir að þriðja bylgja faraldursins skall á síðla í september fór trú almennings á því að þær sóttvarnaaðgerðir sem verið var að beita myndu duga til þess að hægja verulega á útbreiðslu smita minnkandi.
Hlutfall þeirra sem sögðu „mjög líklegt“ að gildandi tilmæli féll þannig skarpt um miðjan mánuðinn, úr 55 til 60 prósent og niður í 25 til 35 prósent.
Stærsti hluti er þó enn á þeirri skoðun að það sé frekar „frekar líklegt“ að aðgerðirnar dugi, en hlutfall þeirra sem svarar „hvorki né“ eða „ólíklegt“ fer vaxandi og var kominn upp yfir 20 prósent í lok septembermánaðar.
Mæla hvernig viðhorfin til faraldursins breytast
Félagsvísindastofnun hefur mælt viðhorf þjóðarinnar til ýmissa atriða varðandi COVID-19 faraldurinn síðan í vor. Daglega er könnunin send til 400 meðlima í svokölluðum netpanel Félagsvísindastofnunar, sem er hópur fólks 18 ára og eldri sem samþykkt hefur að taka þátt í könnunum frá Félagsvísindastofnun. Þessi aðferð gerir það mögulegt að greina hvernig afstaða Íslendinga breytist með tímanum.
Að meðaltali berast um 130 svör á dag, en fæst hafa þau verið 23 og flest 889 á þriggja daga tímabili. Félagsvísindastofnun segir að sökum þess að svarfjöldi sé á þessu bili megi búast við nokkrum sveiflum milli daga og því skuli varast að oftúlka breytingar milli stakra daga því óvissan sé nokkur. Þetta eigi sérstaklega við þegar verið sé að skoða afmarkaða bakgrunnshópa. Ef ákveðin stefnubreyting verði í afstöðu þjóðarinnar megi hins vegar búast við að sjá gögnin stefna í þá átt.