Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf., sem gerir út frystiskipið Júlíus Geirmundsson ÍS 270, telur ljóst að rétt hefði verið að tilkynna grun um kórónuveirusmit um borð í skipinu til Landhelgisgæslunnar og láta þeim yfirvöldum eftir að meta hvort rétt væri að sigla skipinu til hafnar. Slík framkvæmd hefði verið í samræmi við þær leiðbeiningar, sem viðhafa ber í þessum aðstæðum og stéttarfélög sjómanna komu sér saman um við upphaf kórónuveirufaraldursins. „Því miður fórst það fyrir og ábyrgð á þeim mistökum mun fyrirtækið að sjálfsögðu axla,“ segir í yfirlýsingu frá Einari Val Kristjánssyni, framkvæmdastjóra fyrirtækisins. „Fyrirtækið biður hlutaðeigandi jafnframt einlæglega afsökunar á þessum mistökum.“
Einar Valur segir það aldrei hafa verið ætlun útgerðar eða skipstjóra að stefna heilsu og lífi áhafnar skipsins í hættu og „fyrirtækinu þykir þungbært að sitja undir ásökunum um að ekki sé hugað nógu vel að heilsu og öryggi starfsmanna“.
Í yfirlýsingu Einars segir ennfremur að nú sé verkefnið „að styðja við þá áhafnarmeðlimi sem glíma við veikindi og byggja upp á ný það traust sem hefur glatast á milli áhafnar og fyrirtækisins vegna atviksins“.
Meirihluti áhafnar Júlíusar Geirmundssonar reyndist með COVID-19 þegar sýni úr skipverjum voru loks tekin í byrjun vikunnar. Skipverjarnir hafa greint frá því að þeir hafi ítrekað beðið um að komast í sýnatöku, að þeir hafi verið látnir vinna veikir eða sendir í einangrun inn í klefa sína. Þá hafi verkjalyf verið af svo skornum skammti um borð að forgangsraða þurfti hverjir gætu fengið þau. Þá hafa þeir sagt frá því að þeim hafi verið bannað að ræða veikindi sín við aðra en fjölskyldur sínar. Það hafi verið ítrekað þegar á leið.
Fyrst fór að bera á veikindum meðal áhafnarinnar á öðrum degi veiðiferðarinnar sem átti eftir að standa í þrjár vikur. Ungur háseti á skipinu sagði í viðtali við RÚV í gær að hann hefði verið látinn vinna veikur og sömuleiðis fleiri menn, m.a. einn sá harðasti sem hann þekki. Sá hafi að endingu ekki getað meir. „Hegðun HG í þessum kórónuvírusskandal núna er í nákvæmu samræmi við hegðun fyrirtækisins gagnvart starfsmönnum hvað varðar öryggi og heilsu starfsmanna í fortíðinni,“ segir hásetinn við RÚV. Spurður hvort hann óttist að missa stöðu sína á skipinu svarar hann: „Tjáning mín á málinu er óendanlega verðmætari en starf mitt þarna um borð.“
Verkalýðsfélag Vestfirðinga sagði í yfirlýsingu á föstudagskvöld að sumir skipverjanna hefðu verið alvarlega veikir, með háan hita og glímt við öndunarerfiðleika. Ástandið um borð hefði verið skelfilegt. Í samtali við Kjarnann í kjölfar yfirlýsingarinnar sagði varaformaður verkalýðsfélagsins að farið yrði yfir málið með lögmönnum félagsins til að meta hugsanlegan skaða sem skipverjarnir urðu fyrir.