Sóttvarnalæknir og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra vilja því hvetja alla að vera heima og taka þannig öll þátt í baráttunni, líka rjúpnaveiðimenn.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og almannavarnardeild ríkislögreglustjóra hvetja rjúpnaveiðimenn til að vera heima og halda ekki til veiða. Rjúpnaveiðitímabilið hefst 1. nóvember, eða á morgun, og stendur út mánuðinn.
Í tilkynningu frá þeim segir að þó rjúpnaveiði sé holl hreyfing og frískandi útivera þá séu ferðalögin og sérstaklega ferðir á milli landshluta ekki í anda þess sem núverandi reglur í baráttunni við Covid-19 standa fyrir. „Þessar hörðustu samkomutakmarkanir í lýðveldissögunni eru til þess að draga úr allri starfsemi og samneyti fólks meðan við förum í gegnum erfiðasta hjallann. Staða heilbrigðiskerfisins er erfið og álag vegna ýmissa mála, ekki bara Covid-19 valda því að ekki er á það bætandi. Sóttvarnalæknir og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra vilja því hvetja alla að vera heima og taka þannig öll þátt í baráttunni.“
Hertar sóttvarnaráðstafanir voru kynntar í blaðamannafundi í Hörpu í gær og tóku gildi á miðnætti. Helstu breytingar frá fyrri ráðstöfunum eru þær að einungis tíu manns mega koma saman í stað 20 áður, aukin áhersla verður á grímunotkun, íþróttastarf leggst alveg af og sviðslistir sömuleiðis.
Sundlaugar verða áfram lokaðar og krár og skemmtistaðir einnig og öll þjónusta sem krefst nálægðar og hefur verið bönnuð undanfarnar vikur er áfram bönnuð.
Veitingastaðir þurfa að loka dyrum sínum kl. 21 á kvöldin. Börn fædd 2015 og síðar eru þau einu sem verða undanþegin reglum um grímuskyldu, fjöldatakmörkunum og tveggja metra reglu.
Skólar verða áfram opnir, en von er á nánari útfærslu á sérstakri reglugerð um skólastarf eftir helgi. Búast má við því að eitthvað rask verði á skólastarfi, sérstaklega í elstu bekkjum grunnskóla.