Ursula von der Leyen framkvæmdastjóri Evrópusambandsins (ESB) lýsti því yfir að kaupsamningur um 300 milljón skammta af bóluefninu frá lyfjafyrirtækjunum Pfizer og BioNTech gegn kórónuveirunni væri yfirvofandi. Ef tekið er tillit til skilmála annarra samninga ESB við bóluefnaframleiðendur, auk þess að tvo skammta þurfi á hvern einstakling, mætti búast við að þessir samningar leiði til þess að 33 prósent Íslendinga fái bóluefnið.
Von der Leyen greindi frá stöðu samningaviðræðanna í Twitter-færslu í gær, þar sem hún sagði framkvæmdastjórn ESB munu skrifa undir samning við framleiðendurna „bráðum.“ Twitter-færsluna má sjá hér að neðan.
Great news from @pfizer & @BioNTech_Group on the successful results of their latest clinical trial for a #COVID19 vaccine. European science works!@EU_Commission to sign contract with them soon for up to 300 million doses.
— Ursula von der Leyen (@vonderleyen) November 9, 2020
Let's keep protecting each other in the meantime.
Kjarninn hefur fjallað um jákvæðar fréttir frá Pfizer og BioNTech, en í gær lýstu fyrirtækin því yfir að 90 prósent þeirra sem fengið hafi bóluefnið hafi myndað ónæmi gegn kórónuveirunni, sem þykir eins góður árangur og vonast er hægt af fyrstu kynslóð bóluefnis.
ESB hefur skrifað undir kaupsamning við fjölda annarra bóluefnaframleiðenda, þar á meðal samning um 400 milljón skammta frá sænsk-breska lyfjafyrirtækinu AstraZeneca. Í fyrri samningum hefur sambandið lýst því yfir að bóluefnunum verði dreift á öll aðildarríki þess mt.t. mannfjölda, en heilbrigðisráðuneytið hefur einnig tilkynnt að aðildarríki EES fái sama aðgang að þeim.
Þar sem heildarmannfjöldi EES-svæðisins nemur rúmum 460 milljónum manna og hver einstaklingur þarf tvo skammta af bóluefninu má búast við að allt að þriðji hver íbúi svæðisins verði bólusettur. Af þeim væru 120 þúsund Íslendingar.
Slíkur fjöldi væri þó ekki nægur til að mynda hjarðónæmi gegn veirunni hér á landi, en heilbrigðisráðuneytið hefur áður gefið að út að 550 þúsund skammta þyrfti til að það myndist. Bóluefnið frá Pfizer og BioNTech dugir því einungis fyrir tæpum helmingi af því.
Pfizer og BioNTech gætu fengið neyðarleyfi fyrir bóluefni sínu frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnun á fyrsta fjórðungi næsta árs, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Ríkisstjórnir hvers lands munu svo forgangsraða hverjir fá efnið.