Jón Óttar Ólafsson, ráðgjafi og fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður sem starfað hefur fyrir Samherja árum saman, átti í tölvupóstsamskiptum við einn þeirra sex manna, James Hatuikulipi, sem sitja í fangelsi í Namibíu vegna gruns um að þiggja mútur frá Samherja, í maí árið 2019.
Tilgangur samskiptanna var að lýsa yfir áhyggjum um að yfirvöld myndu uppgötva leynigreiðslur sem Samherji greiddi inn á bankareikning félagsins Tundavala, skráð í eigu Hatuikulipi, í Dúbaí. Nokkur hundruð milljónir króna runnu inn á reikninga þess frá Samherja á árunum 2014 til 2019. Í samskiptunum reyndi Jón Óttar að slá á áhyggjur um að yfirvöld í Namibíu gætu haft upp á þeim greiðslum sem farið höfðu inn á leynireikninga í Dúbaí. „Við höfum lokað þeim reikningum. Auk þess hafa þeir ekki burði til þess að fara á eftir flóknum aflandsviðskiptum,“ sagði í einum tölvupóstinum.
Frá þessu var fyrst greint í kvöldfréttum RÚV í dag. Sú umfjöllun er unnin upp úr greinargerð ríkissaksóknara Namibíu, þar sem krafist er að eignir Samherja sem metnar eru á nokkra milljarða króna, verði kyrrsettar. Í greinargerðinni, sem Kjarninn fékk einnig aðgang að síðdegis í dag, er sexmenningunum og fimm Íslendingum, undir forystu Þorsteins Más Baldvinssonar forstjóra Samherja, lýst sem skipulögðum glæpahóp.
Vildi draga athygli frá leynireikningum í Dúbaí
Í greinargerðinni segir að James Hatuikulipi, sem er frændi tengdasonar fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu og fyrrverandi stjórnarformaður ríkisútgerðarfyrirtækisins Fischor, hafi sent Samherja beiðni 28. maí 2019 þar sem hann vildi að útbúin yrðu gögn sem myndu láta út fyrir að sá hluti kvótaleigu sem greiddur var til félags í Dúbaí hefði verið greiddur með fiski sem var sendur til Angóla. Þannig mætti draga athygli rannsakenda frá fjármununum sem greiddir voru inn á leynireikninga í Dúbaí.
Skömmu síðar skrifaði hann í öðrum tölvupósti: „Ég held að þeir muni ekki hafa uppi á þeim greiðslum sem greiddar voru úr landi. Við höfum lokað þeim reikningum. Auk þess hafa þeir ekki burði til þess að fara á eftir flóknum aflandsviðskiptum.“
Þegar James Hatuikulipi, eigandi Dúbaí-félagsins, var handtekinn í nóvember á síðasta ári, eftir að Kveikur, Stundin, Wikileaks og Al-Jazeera höfðu afhjúpað meintar mútugreiðslur, skattasniðgöngu og peningaþvætti Samherja og ráðamanna í Namibíu, var lagt hald á farsíma hans. Ofangreind tölvupóstsamskipti fundust þegar síminn var rannsakaður.
Í yfirlýsingu sem Samherji birti rétt fyrir klukkan sjö í kvöld á heimasíðu sinni, vegna fyrirspurna RÚV um samskipti Jóns Óttars við James Hatuikulipi, segir m.a. : „Við höfum alfarið neitað því að félög tengd Samherja hafi greitt mútur eða aðrar óeðlilegar greiðslur. Hvort sem það er í tengslum við reksturinn í Namibíu eða annars staðar. Við lítum svo á að greiðslur, í tengslum við reksturinn í Namibíu, séu lögmætar frá sjónarhóli félaga sem tengjast Samherja. Í tengslum við rannsókn á starfseminni í Namibíu, sem ráðist var í með fulltingi norsku lögmannsstofunnar Wikborg Rein, voru þúsundir tölvupósta yfirfarnir. Við ætlum ekki að fara í opinbera rökræðu við Ríkisútvarpið um einn þessara tölvupósta.“
Undir yfirlýsinguna skrifaði Björgólfur Jóhannsson, annars forstjóri Samherja.
Samskipti um greiðslur eftir að Jóhannes hætti
Viðskiptahættir Samherja voru opinberaðir í umfjöllun í nóvember 2019. Þar kom fram að fyrirtækið hefði náð undir sig mjög verðmætum hrossamakrílkvóta í landinu með meintum mútugreiðslum til tveggja ráðherra í landinu og manna í þeirra nánast hring. Þetta hafi átt sér stað um árabil og síðustu greiðslurnar verið millifærðar fyrr á árinu 2019. Þær námu 1,4 milljarði króna hið minnsta, samkvæmt því sem kom fram í umfjöllun Kveiks um málið. Ráðherrarnir tveir, Bernhard Esau fyrrverandi sjávarútvegsráðherra og Sacky Shanghala fyrrverandi dómsmálaráðherra, hafa setið í gæsluvarðhaldi ásamt fimm öðrum mönnum frá því seint á síðasta ári á meðan að namibísk yfirvöld rannsaka mál þeirra. Á meðal annarra sem sitja í gæsluvarðhaldi er áðurnefndur James Hatuikulipi og frændi hans Tamson Hatuikulipi, tengdasonur Esau.
Samherji hefur ætið haldið því fram að Jóhannes Stefánsson, sem starfaði hjá Samherja í Namibíu fram á mitt ár 2016 og uppljóstraði um viðskiptahætti fyrirtækisins þar, hafi verið einn að verki þegar kom að greiðslum þar í landi sem stæðust ekki skoðun. Sú afstaða getur þó ekki skýrt greiðslur sem áttu sér stað eftir að Jóhannes lét af störfum hjá Samherja.
Í viðtali við norska viðskiptablaðið Dagens Næringsliv í lok síðasta árs sagði Björgólfur að greiðslur til félags James Hatuikulipi í Dúbaí, sem áttu sér stað á árinu 2019, að ekkert benti til þess að þær greiðslur væru ólöglegar. Greiðslurnar hafi verið fyrir kvóta auk greiðslna fyrir ráðgjafarstörf.
Unnið fyrir Samherja árum saman
Jón Óttar hefur unnið fyrir Samherja árum saman. Í nýlegu skaðabótamáli sem fyrirtækið höfðaði gegn Seðlabanka Íslands gerði Samherji alls skaðabótakröfu upp á 306 milljónir króna. Tæpur helmingur þeirrar upphæðar, alls 135 milljónir króna, var vegna kostnaðar við störf Jóns Óttars fyrir fyrirtækið. Skaðabótakröfunni var hafnað og Samherji tapaði málinu í héraðsdómi Reykjavíkur.
Kjarninn greindi frá því í ágúst að Jón Óttar hefði allt frá því að umfjöllun Kveiks og Stundarinnar um viðskiptahætti Samherja í Namibíu birtist þann 12. nóvember á síðasta ári verið tíður gestur á Kaffifélaginu, kaffihúsi í miðbæ Reykjavíkur, einatt til að hitta á og ná tali af Helga Seljan – en þar hittist hópur fólks iðulega á morgnana til að spjalla um daginn og veginn.
Kjarninn greindi enn fremur frá því að Jón Óttar hefði ítrekað sent Helga skilaboð, bæði í gegnum SMS og Facebook-reikning eiginkonu sinnar. Ingi Freyr Vilhjálmsson, blaðamaður á Stundinni sem fjallað hefur um Samherja, fékk einnig send skilaboð þar sem honum var hótað „umfjöllun“.
Þá hefur Jón Óttar komið fram í myndböndum sem Samherji hefur látið vinna, þar sem blaðamenn sem fjallað hafa um Samherja hafa verið bornir þungum sökum.