Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er með til skoðunar ætlað brot fyrrum eiganda Bræðraborgarstígs 1 á byggingarreglugerð. Þetta staðfestir Hulda Elsa Björgvinsdóttir, sviðsstjóri ákærusviðs lögreglunnar, við Kjarnann.
Þrír létust í eldsvoða í húsinu 25. júní síðasta sumar, allt ungt fólk frá Póllandi. Tveir slösuðust alvarlega. Húsið var þá í eigu félagsins HD Verks en í byrjun janúar gengu kaup Þorpsins vistfélags á brunarústunum og á húsinu við hliðina í gegn. Eigandi HD Verks er Kristinn Jón Gíslason.
Samkvæmt rannsókn bæði lögreglu og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar var eldur líklega kveiktur í húsinu á tveimur stöðum. Karlmaður á sjötugsaldri, sem var íbúi í húsinu, var í haust ákærður fyrir íkveikjuna, þrjú manndráp og tíu manndrápstilraunir. Samkvæmt mati geðlæknis var hann ósakhæfur á verknaðarstund en tveir yfirmatsmenn voru fengnir til að fara yfir geðmatið og liggur niðurstaða þeirra enn ekki fyrir. Dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur hefur þó þegar ákveðið að þinghaldið verði opið en ekki lokað að hluta eða í heild líkt og verjandi mannsins fór fram á.
Rannsakendur Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar telja að, óháð því hvort um íkveikju hafi verið að ræða, þá hafi fleiri samverkandi þættir haft áhrif á að eldsvoðinn varð jafn mannskæður og raun bar vitni. Um var að ræða yfir hundrað ára gamalt forskalað timburhús sem ekki var vel úr garði gert með tilliti til brunavarna í upphafi.
Í skýrslu stofnunarinnar um brunann, sem gefin var út um miðjan desember, kemur fram að upphaflegar teikningar liggi ekki fyrir, en nýjustu samþykktu teikningarnar af húsinu sé frá árinu 2000. „Þær brunavarnir sem þær teikningar gerðu ráð fyrir voru ekki til staðar þegar bruninn varð,“ segir í skýrslunni. Herbergjaskipan var líka önnur. Brunahólfun að stigahúsi var ekki til staðar né þau björgunarop sem voru á samþykktum teikningum. Eins hefur inngangi á 2. hæð hússins á einhverjum tímapunkti verið lokað með þeim afleiðingum að í stað tveggja flóttaleiða úr íbúðinni var bara ein flóttaleið.
Eigandi ber ábyrgð á brunavörnum
Skýrsluhöfundar harma að lokaúttekt eftirlitsaðila sem fram fór á árinu 2000 hafi einungis tekið til 1. hæðar hússins þar sem dagvistunarheimili var rekið á þeim tíma en efri hæðir hússins voru ekki skoðaðar. Var því ekki hægt að fullyrða hvort efri hæðir hússins hafi á einhverjum tíma verið til samræmis við samþykktar teikningar. „Eigandi hússins á hverjum tíma bar ábyrgð á ástandi hússins, var skylt að sækja um tilskilin leyfi vegna breytinga á húsnæðinu og eins bar honum að tryggja viðunandi brunavarnir,“ segir í skýrslunni. Í henni kemur fram að notkun hússins var önnur en teikningar gerðu ráð fyrir og forsendur allt aðrar gagnvart brunaöryggi. Húsið var í raun notað til útleigu á herbergjum en ekki sem tvær íbúðir. Breytt notkun kallaði á auknar brunavarnir og eldvarnareftirlit.
Í ítarlegri umfjöllun Kjarnans um eldsvoðann og eftirmál hans, sem birt var í nóvember, sögðust íbúar sem rætt var við ekki hafa heyrt í reykskynjurum er eldurinn kviknaði. Þeir hefðu ekki orðið hans varir fyrr en þeir heyrðu öskur sambýlinga sinna.
Í skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar kom fram að aðeins einn reykskynjari hafi fundist í rústum hússins að Bræðraborgarstíg. Hann var án rafhlöðu. Niðurstaða stofnunarinnar á rannsókn brunans er m.a. sú að brunavörnum í húsinu hafi verið verulega ábótavant og ekki í samræmi við lög.
Brot á lögum um mannvirki og reglugerðum settum samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
Bruninn á Bræðraborgarstíg er sá mannskæðasti sem orðið hefur í höfuðborginni.