Stakksberg ehf., félag utan um kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík, er nú metið á 1,6 milljarða króna í bókum Arion banka, eiganda félagsins. Í lok mars 2019, fyrir tæpum tveimur árum síðan, var virði hennar bókfært á 6,9 milljarða króna. Það hefur því verið fært niður um 5,3 milljarða króna á innan við tveimur árum og þar af nam niðurfærslan á virði verksmiðjunnar 1,1 milljarði króna í fyrra.
Samkvæmt því sem fram kemur í ársreikningi Arion banka voru neikvæð rekstraráhrif Stakksbergs meiri en sem því nemur á árinu 2020, eða alls 1,4 milljarði króna. Þar kemur enn fremur fram að bókfært virði félagsins endurspegli nú „einkum verðmæti lóðar og endursöluvirði tækjabúnaðar.“
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, sagði á uppgjörsfundi bankans í gær að þar sem bankinn bókfærði aðeins hrakvirði á verksmiðjuna væri það „vísbending um að litlar vonir séu um að verksmiðjan muni starfa aftur, áhugavert væri að sjá aðra og grænni starfsemi eiga sér stað þar í framtíðinni.”
Búin að vera stopp í næstum þrjú og hálft ár
Kísilmálmverksmiðjan hefur ekki verið í gangi frá því í september 2017. Nokkrum mánuðum síðar, í janúar 2018, fór félagið sem byggði hana í þrot en áætlaður kostnaður við uppsetningu verksmiðjunnar var um 22 milljarðar króna.
Bankinn segir í ársreikningi sínum að Stakksberg sé nú á lokastigi vinnu við gerð nýs umhverfismats fyrir verksmiðjuna. „Markmið bankans er að selja rekstur Stakksbergs á grundvelli þeirrar vinnu sem unnin hefur verið í þessu skyni.“
Mikil andstaða íbúa við endurræsingu
Erfitt er þó að sjá að kísilmálmverksmiðjan verði endurræst, að minnsta kosti í fyrirsjáanlegri framtíð. Þar ræður miklu gríðarlega andstaða íbúa sem búa í nágrenni við verksmiðjuna sem hafa kvartað mjög undan mengun sem frá henni kom á meðan að verksmiðjan var starfrækt.
Nýtt deiliskipulag er forsenda þess að enduruppbygging verksmiðjunnar í geti átt sér stað og bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur vald til að hafna eða samþykkja tillögu að deiliskipulagi. Ákvörðun um hvort kísilmálmverið hefur starfsemi á ný er því pólitísk og ræðst í atkvæðagreiðslu kjörinna fulltrúa.
Kjarninn greindi frá því í september í fyrra að miðað við þau svör sem bárust frá bæjarfulltrúum í Reykjanesbæ um afstöðu þeirra til málsins sé ljóst að meirihluti núverandi bæjarstjórnar mun ekki gefa grænt ljós á það að kísilmálmverksmiðjan í Helguvík verði endurbætt, ræst að nýju og stækkuð líkt og Stakksberg fyrirhugar.
Frummatsskýrsla Stakksbergs um endurbætur og stækkun kísilversins í Helguvík var auglýst í byrjun maí í fyrra. Í 1. áfanga er m.a. ráðgert að reisa einn 52 metra háan skorstein og nýta einn ljósbogaofn, líkt og United Silicon gerði, til framleiðslunnar. Að loknum 4. áfanga yrði verksmiðjan fullbyggð með fjórum ljósbogaofnum og tveimur 52 metra háum skorsteinum.
Umhverfisstofnun sagði í umsögn sinni um frummatsskýrsluna að áhrifin af starfseminni yrðu á heildina litið talsvert neikvæð. Áhrif á loftgæði yrðu sömuleiðis talsvert neikvæð og mögulega verulega neikvæð. Einnig yrðu áhrif á lyktamengun, á vatnafar og ásýnd talsvert neikvæð.
Tugir íbúa Reykjanesbæjar skiluðu athugasemdum við skýrsluna. Í þeim var farið yfir þau neikvæðu heilsufarslegu áhrif sem verksmiðjan hafði á starfstíma sínum og allir leggjast þeir gegn því að verksmiðjan verði endurræst.