„Það eru ekki miklar líkur á að þetta verði hættulegt en það verður kannski óþægilegt í nokkra daga,“ sagði Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruváreftirlits hjá Veðurstofu Íslands, á blaðamannafundi vegna mögulegs eldgoss á Reykjanesi.
Um 20 mínútur yfir klukkan 14 í dag fór jarðskjálftavirkni að ágerast á svæðinu og kom það fram í fjölda lítilla skjálfta sem hafa verið mjög þéttir. „Þetta verður samfelld hrina sem lítur út eins og óróapúls,“ sagði Kristín um stöðuna. „Það sem gerist í framhaldinu er að það fer þyrla í loftið til að kanna málin og við höfum fengið þær fréttir frá þeim að þau sjái ekki neitt.“
Gosóróinn, óróapúlsinn, getur verið til marks um ýmislegt sagði Kristín. „Það eru greinilega umbrot í gangi.“ Skjálftarnir eiga upptök sín á svæði milli Litla Hrúts og Keilis. Enn á eftir að rýna betur í þau gögn sem liggja fyrir til að komast að því hvað er í gangi, sagði Kristín.
Á svæðinu hefur myndast „einhvers konar sigdæld á yfirborði“ og hugsanlega hefur orðið „meiri tognun en við höfum séð hingað til“.
Freysteinn Sigmundsson, deildarforseti jarðvísindadeildar Háskóla Íslands, var einnig á fundinum. Rifjaði hann upp að í byrjun vikunnar hafi sést með greiningu gagna að jarðskorpuhreyfingar mætti rekja til kvikugangs „sem væri á ferðinni“. Þá þegar hafi verið ljóst að ástandið væri „krítískt“. Og núna kemur „þessi órói“. Gosórói getur verið af mismunandi gerð, sagði Freysteinn. „Það er kvika að brjóta sér leið og við þurfum að sjá hvert að þetta leiðir,“ sagði hann. „Þetta er mjög krítísk staða – órói sem sýnir að kvika sé að brjóta skorpuna en óvíst hvert hún leitar og hvert þetta ferli fer.“
Hann benti á að kvika finni sér alltaf auðveldustu leið upp á yfirborð. Tímaramminn gæti verið allt frá nokkrum klukkustundum upp í nokkra daga. „Við gætum verið að horfa á næstu klukkustundir, þetta getur gerst hratt, en getur líka teygst á langinn,“ sagði hann og benti á að það hafi orðið raunin í Holuhraunsgosinu – um tvær vikur liðu frá fyrstu merkjum um gosóróa og þar til kvikan braut sér leið upp á yfirborð. „En núna er hún nálægt yfirborði. Ég myndi halda að það þurfi að fylgjast mjög náið með næstu klukkutímana en þetta gæti dregist umfram það.“
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, sagði að staðan smellpassaði inn í þær sviðsmyndir sem teiknaðar hefðu verið upp undanfarið. „Stóra málið er að þetta eru engar stórar hamfarir sem eru að fara að gerast. Núna erum við að virkja allt almannavarnakerfið til að vera algjörlega á tánum ef þörf krefur.“
Vísindamenn Veðurstofu Íslands hafa staðsett gosóróann suður af Keili við fjallið Litla Hrút. Ef gos hefst á þessum slóðum er talið að engin hætta steðji að byggð. Hraun á þessum slóðum er um 7.000 ára gamalt.
Vika er síðan að jarðskjálftahrina hófst á Reykjanesskaga með 5,7 stiga skjálfta við Fagradalsfjall. Hundruð skjálfta hafa orðið síðan og margir þeirra yfir 4 að stærð.
Frá landnámi hefur þrisvar sinnum gosið á Reykjanesi, síðast á árunum 1211-1240 og eru þeir atburðir kallaðir Reykjaneseldar. Á því tímabili gaus nokkrum sinnum, þar af urðu þrjú gos í eldstöðvakerfi sem kennt er við Svartsengi. Eldgosin voru hraungos á 1-10 kílómetra löngum gossprungum. Gosvirkni á Reykjanesi-Svartsengi einkennist af goslotum eða eldum sem geta varað í áratugi og má búast við goslotu á um 1100 ára fresti.