„Ekki má hugsa þá hugsun til enda að eCG hverfi úr notkun,“ segir Arnþór Guðlaugsson, framkvæmdastjóri Ísteka, um hormónið sem fyrirtækið vinnur úr blóði fylfullra mera. „Þá væri skömm okkar Íslendinga mikil og vandséð að við eigum kosti hér á landi sem gætu unnið upp hinn gríðarlega umhverfisskaða sem það ylli.“
Þessa dökku framtíðarsýn dregur Arnþór upp í umsögn við drög matvælaráðuneytisins að reglugerð um blóðtöku úr fylfullum hryssum sem lagt var fram til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda. Ísteka er eina fyrirtækið sem kaupir íslenska merarblóðið og vinnur úr því hormón sem notað er til að auka frjósemi í eldi á dýrum, aðallega í svínarækt, og því eru hagsmunir fyrirtækisins miklir og augljósir þegar kemur að því að setja reglur um blóðmerahald.
Ísteka velti 1.733 milljónum króna á árinu 2020. Hagnaður fyrirtækisins fyrir skatta, að teknu tilliti til fjármagnsliða, var 740 milljónir króna. Það þýðir að fyrir hverja krónu sem Ísteka þénaði á árinu 2020 voru 43 aurar hagnaður.
Hreinn hagnaður fyrirtækisins eftir skatta var 592 milljónir króna. Bæði velta og hagnaður jókst frá árinu 2019. Ísteka greiddi hluthöfum sínum út 300 milljónir króna í arð á árinu 2020 vegna frammistöðu á árinu á undan. Stærsti einstaki eigandinn er Hörður Kristjánsson með 44,5 prósent eignarhlut en sá næst stærsti er félagið Klara ehf., sem er að uppistöðu (81,5 prósent) í eigu sama Harðar. Hólmfríður H. Einarsdóttir á 19,2 prósent hlut en tveir einstaklingar eiga svo saman þau fjögur prósent sem upp á vantar.
Og Ísteka gerir ýmsar athugasemdir við reglugerðardrögin og leggur sérstaka áherslu á tvennt: Að áfram megi taka blóð úr hryssum í átta skipti á ári en ekki sex eins og lagt er til og hins vegar að kaupanda, þ.e. Ísteka, verði skylt en ekki óheimilt, líkt og lagt er til í drögunum, að flokka greiðslur vegna blóðs eftir því hversu miklar heimtur eru úr hverju hrossi. „Ef þessi tvö ákvæði yrðu að veruleika munu þau kollvarpa tekjumöguleikum allra í greininni og stöðva framþróun hennar og gæðastýringu sem mun án efa bitna á dýravelferð,“ skrifar Arnþór. Reglugerðin myndi „þrengja verulega að annars lögmætri starfsemi í landinu“ jafnvel þannig að henni yrði „nánast sjálfhætt“.
Ísteka minnir í umsögn sinni á að „óðum styttist í hálfrar aldar afmæli þessarar búgreinar hér á landi“, greinar sem ætíð hafi verið stunduð á „vísindalegum og efnahagslegum grundvelli með hag og velferð dýra að leiðarljósi“. Því verði þó ekki neitað að greinin, þ.e. blóðtaka úr fylfullum hryssum, hafi orðið fyrir „ímyndaráfalli“ í vetur. Vísar framkvæmdastjóri Ísteka þar til uppljóstrana erlendra dýraverndunarsamtaka sem sýndu í myndbandi dæmi um vanrækslu og gróft ofbeldi gegn hryssum. Ísteka kallar þetta í umsögn sinni „vísbendingar um dýravelferðarfrávik“, að um einstök frávik en ekki kerfislægan vanda sé að ræða.
Vilja áfram taka 40 lítra úr hverri meri
Samkvæmt reglugerðardrögunum mætti ekki taka meira en fimm lítra af blóði vikulega úr hverri hryssu og að hámarki í sex vikur ár hvert. Sem sagt þrjátíu blóðlítra samtals að hámarki í stað fjörutíu áður. Engin rök standi til þessara breytinga og „verði þessi ákvæði innleidd mun greinin og þar með starfsemi Ísteka verða í fullkomnu uppnámi,“ segir í umsögn Ísteka.
Rúmmál afurða, þ.e. hormónsins sem unnið er úr blóði meranna, myndi minnka um 13 prósent ef blóðtökum yrði fækkað úr átta í sex. „Það segir þó ekki allt,“ bendir Ísteka á, þar sem blóðmagnið sé ekki mælikvarði á magn hráefnis. „Virkni blóðeininga er mjög mismunandi, þar sem 7 og 8 skipta hryssur eru með langmestu virknina yrði minnkun á virku hráefni um 22% þegar áhrif af 7/8 skipta hryssum hafa fjarað út“.
Þyrftu að fjölga blóðmerum um 1.500
Til að ná sama magni hráefnis og árið 2021 þyrfti því að fjölga hryssum í blóðtöku um rúmlega 1.500, úr tæplega 5.400 í um 6.900. „Þegar fjölga þarf hryssum svo mikið til að ná sama magni eykst álag á beit einnig að nauðsynjalausu og ásókn í áburð, olíu, ræktað land og önnur aðföng.“
Gamalgrónir bændur, líkt og það er orðað í umsögn Ísteka, hafa í ára- og áratugaraðir sett á folöld og valið hryssur til blóðtöku eftir „einstaklingsframlagi“. Þetta hafi Ísteka ýtt undir með því að greiða hærra verð fyrir afurðir bænda eftir hækkandi meðalskiptafjölda hryssanna.
Óskiljanleg, manngerð lína
Rannsóknir Ísteka á blóðhag hryssanna sýni að enginn munur er á blóðmynd hryssa sem gefa oftar eða sjaldnar blóð og því „óskiljanlegt hví ætti að teikna upp manngerða línu“ við sex skipti þegar gögnin sýni fram á að ekkert mæli á móti allt að átta. „Það að banna í reglugerð eðlilega gæðaflokkun og -stýringu í búgrein er grímulaus aðför að búgreininni og algjörlega á skjön við það sem tíðkast í öðrum búgreinum.“
Villandi orðræða og hvítt seyði
Ekkert efni sem þegar er til á markaði eða von er á svo vitað sé getur komið í stað „hinnar breiðu og langvarandi virkni sem náttúrulegt eCG hefur,“ skrifar Arnþór. „Allt tal um annað er mjög villandi og sambærilegt orðræðu þeirra sem vilja banna kúamjólk vegna þess að í stað hennar megi sjóða hvítt seyði af möndlum, höfrum, soja og öðrum plöntum.“
Hann skrifar líka að umhverfislegan ávinning af notkun eCG-lyfjaefnisins sem framleitt er hér á landi, megi heimfæra á yfir milljón tonna minni árlega fóðurþörf í heiminum. „Minnkandi framleiðsla Ísteka á eCG eða algjör stöðvun hennar hefði umtalsverð neikvæð áhrif á vistspor landbúnaðar í þeim löndum þar sem lyfið er notað.“ Þá eigi eftir að taka tillit til langra og dýrra flutninga fóðurs, vinnustunda og áburðarþarfar og svo mætti áfram telja. Samantekið séu „jákvæð áhrif notkunar eCG á vistsporið í landbúnaði í öllu tilliti risavaxin“.
Ef aðgengi að eCG-sameindinni myndi skerðast eða hverfa í heiminum, skrifar Arnþór, yrði það „umhverfislegt stórslys“ og áhrifin af stærðargráðu „sem fæstir Íslendingar gera sér grein fyrir“. Á hann þar við nýtingu efnisins til ræktunar dýra til matar.
Leggist greinin af hérlendis myndi það „ekki endilega“ tryggja betri velferð hryssa í heiminum. „Í stað þess að nýta hryssur á Íslandi sem búa við dýravelferðarlöggjöf sem flokkast með þeim betri í heimunum, eru líkur á að nýttar verði hryssur í öðrum heimshlutum þar sem dýravelferð er e.t.v. ekki gert jafn hátt undir höfði.“
Í „orrahríð seinustu mánaða“ hafi ýmsum „máttlausum rökleysum“ verið haldið á lofti gegn þessari framleiðslu sem tiltölulega fáir bændur á Íslandi stundi og Ísteka sinni. „Margir stórir aðilar hafa risið upp á afturfæturna í gagnrýni á búgreinina og telja til hin ýmsu neikvæðu áhrif sem tilvist hennar á að hafa á þá,“ skrifar framkvæmdastjórinn Arnþór. Það hafi „skiljanlega“ áhrif á ráðamenn þegar „atkvæðamiklir aðilar“ fari fram með slíkum hætti. „Í öllum tilfellum hafa rökin fyrir gagnrýninni þó ekki rist dýpra en svo að engin marktæk gögn liggja til grundvallar ávirðingunum.“
Arnþór segir mikilvægt að ráðamenn þjóðarinnar og stofnanir sem þeir stýra hafi „burði til þess að hefja sig yfir slíkan málflutning og byggja ákvarðanir sínar á bestu fáanlegum gögnum um viðkomandi mál og hafi alltaf jafnræði, sanngirni og sannleika að leiðarljósi og beiti valdi sínu því af meðalhófi“.