Í endurskoðuðum starfsskilyrðum Matvælastofnunar vegna blóðtöku úr fylfullum hryssum eru m.a. þær breytingar að hver dýralæknir má nú ekki hafa fleiri en þrjár hryssur í blóðtöku samtímis í stað fjögurra áður og að ekki skulu vera fleiri en 70 hryssur með folöldum, en ekki 100, í hverjum blóðtökuhópi. Áfram er heimilt að taka allt að 5 lítra af blóði vikulega úr hverri hryssu á átta vikna tímabili, samtals fjörutíu lítra.
Blóðmerahald, eins og sú starfsemi er kölluð þar sem hross eru haldin sérstaklega til blóðtöku til frjósemislyfjaframleiðslu fyrir búfénað, hefur sætt harðri gagnrýni frá því í vetur er þýsk dýravelferðarsamtök birtu myndband sem sýndi hrottalega meðferð á hryssum sem notaðar voru í iðnaðinum hér á landi. Þær voru barðar, fjötraðar og þjáðar því þeim var ekki veitt aðstoð vegna alvarlegra áverka. Matvælastofnun, sem hefur eftirlit með þessari leyfisskyldu starfsemi, fór ekki varhluta af gagnrýninni.
Í nýrri skýrslu MAST er þessari gagnrýni svarað og niðurstaðan sú að þrátt fyrir að „alvarleg frávik við meðferð hryssna“ sem sáust á myndbandi dýravelferðarsamtakanna kalli á viðbrögð og viðbætur við skilyrði sem sett eru blóðmerahaldi hafi eftirlit með starfseminni verið gott og ítarlegt. „Frávik“ þau sem sáust í myndbandinu hafi ekki sést við eftirlit stofnunarinnar sem bendi til þess að þau séu „fremur fátíð“ og ætla megi að eftirlitið sem slíkt hafi „fælingarmátt gagnvart illri meðferð“.
Engu að síður telur stofnunin tilefni til að auka eftirlit með blóðtökunni. Engar vísbendingar séu hins vegar um að blóðmagnið sem tekið er úr hinum fylfullu merum sé of mikið líkt og tveir svissneskir dýralæknir héldu fram í aðsendri grein sem birtist í Kjarnanum.
Heildarniðurstaða Matvælastofnunar er:
„Það er mat Matvælastofnunar að blóðtaka úr fylfullum hryssum, eins og hún á að vera framkvæmd hér á landi skv. lögum, reglugerðum og skilyrðum Matvælastofnunar, stangist ekki á við lög nr. 55/2013 um velferð dýra.“
Eins og hún „á að vera“. Ekki er hægt að hafa fullt og stöðugt eftirlit með öllum þeim 119 hrossabúum þar sem blóðmerar eru haldnar og mikið traust því lagt á það fólk sem iðnaðinn stundar. Tíðni eftirlits með blóðtökubæjum er þó mun hærra en í öðru hrossahaldi, segir MAST, og að minna sé þar um „alvarleg frávik“ en á öðrum hrossabúum.
Vanhöld á 13 prósent bæja
Reyndar fara dýralæknar oft í eftirlitsferðir í kjölfar ábendinga sem gæti skýrt af hverju „alvarleg frávik“ voru greind á yfir þrettán prósent staða þar sem hross eru haldin á tímabilinu 2017-2020. Þau eru því tíð almennt en sjaldgæfari á blóðtökubæjum.
„Alvarleg frávik“ eiga oftast við um vanfóðrun einstakra hrossa eða hrossahópa, sjúk hross eða vanhirt. Offita og efnaskiptaraskanir eru vaxandi vandamál og þar af leiðandi krónísk hófsperra sem er eitt helsta dýravelferðarmál samtímans. Þá er sífellt meira um að gömul hross séu ekki felld í tíma. „Aðbúnaður hrossa hefur almennt farið batnandi en langvarandi innistaða er þó velferðarþáttur sem sífellt meira reynir á,“ stendur í skýrslu MAST.
Í nokkur skipti hafa komið fram í dagsljósið „alvarleg frávik“ vegna illar meðferðar við tamningu eða þjálfun hrossa og sömuleiðis vegna álagseinkenna og/eða ófullnægjandi aðbúnaðar hrossa í hestaleigum og reiðskólum.
Refsingum sjaldan beitt
Fremur sjaldgæft er að stofnunin grípi til þvingunaraðgerða svo sem dagsekta eða vörslusviptingar „þar sem alla jafna tekst að leysa úr málum með öðrum hætti,“ segir í skýrslunni. Þá eru stjórnsýslusektir og kærur til lögreglu einnig fremur fátíðar. „Alvarleg frávik sem koma fram á blóðtökubæjum hafa hins vegar meiri afleiðingar þar sem þau leiða sjálfkrafa til stöðvunar á þeirri starfsemi.“
Líkt og Kjarninn greindi frá í upphafi árs og farið er yfir í skýrslunni hefur starfsemi tvisvar sinnum verið stöðvuð á blóðtökubæjum í kjölfar ábendinga. Annars vegar var um að ræða ábendingu frá nágranna sem leiddi í ljós „alvarlegt frávik“ við fóðrun og aðbúnað blóðtökuhryssa að vetri og hins vegar var blóðtaka stöðvuð á blóðtökustað eftir ábendingu frá dýralækni um að í viðkomandi hjörð væri töluvert um of grannar hryssur sem ekki uppfylltu skilyrði fyrir blóðtöku. Bæði þessi mál komu upp árið 2018.
Önnur alvarleg frávik hafa uppgötvast við reglubundið, áhættumiðað eftirlit Matvælastofnunar með fóðrun og aðbúnaði blóðtökustóða að vetrarlagi og/eða vori. Um var að ræða tvo bæi árið 2017, þrjá bæi árið 2019 og einn árið 2020. Samtals hefur blóðtöku verið hætt á átta bæjum síðastliðin 5 ár vegna „alvarlegra frávika“ við fóðrun og aðbúnað blóðtökuhryssna.
Þeirri gagnrýni um að of mikið blóð sé tekið úr hryssunum, svarar Matvælastofnun m.a. með því að vísa í gögn frá Ísteka, fyrirtækinu sem kaupir blóðið og framleiðir frjósemislyfin úr því, sem og í rannsóknir, bæði innlendar og erlendar. Þessar rannsóknir eru flestar gamlar, sú elsta frá árinu 1984 og viðurkennir MAST að engin viðmiðunargildi um styrk próteinsins blóðrauða, sem notaður er til að mæla blóðheilsu hesta, séu til fyrir fylfullar íslenskar hryssur. Þetta á að mati stofnunarinnar ekki að koma að sök enda nokkrar rannsóknir verið gerðar á styrk blóðrauða í íslenskum hrossum og hrossum almennt.
Samkvæmt mælingum Ísteka eru hryssurnar tiltölulega háar í blóðrauða við upphaf blóðtökutímabils. Meðalstyrkur þess lækkar svo við fyrstu 2-3 blóðtökurnar en helst „nokkuð stöðugur“ eftir það. „Þetta bendir til þess að það taki hryssurnar um tvær vikur að bregðast við blóðtapinu með aukinni blóðmyndun enda er bæði vatn og gras mjög járnríkt hér á landi,“ stendur í skýrslu MAST. „Ekkert bendir til þess að þessi lækkun á blóðrauða komi niður á líðan hryssnanna eða heilbrigði.“
Matvælastofnun reiðir sig einnig á gögn frá Ísteka þegar kemur að því meta dauða - „afföll“ eins og það er orðað í skýrslunni – blóðmera. Samkvæmt Ísteka hafa „afföllin“ verið um eða innan við 0,1 prósent ár hvert. „Flest afföllin eru rakin til slysa en af þeim sökum hefur þurft að aflífa 1-2 hryssur árlega á blóðtökutímabilinu.“
Árið 2019 voru 5.036 merar notaðar til blóðtöku hér á landi. Folöldum þeirra er alla jafna slátrað til kjötframleiðslu þótt sum séu notuð til undaneldis til endurnýjunar í blóðmerahaldi eða reiðhestaræktunar.
Sjö sláturhús á landinu taka við folöldum til slátrunar. Ekki er sérstaklega skráð hvort folöldin sem þangað eru flutt koma úr blóðtökustóðum en með aukningu þeirrar starfsemi á síðustu árum má ætla að sífellt stærra hlutfall þeirra sé undan hryssum sem notaðar hafa verið til blóðtöku.
Á síðasta ári var 5.402 folöldum slátrað í sláturhúsunum sjö.