Um 1.300 hælisleitendur um borð í 27 smáum bátum komu til hafnar í borginni Dover á Bretlandseyjum í gær, mánudag. Aldrei hafa fleiri hælisleitendur farið yfir Ermarsundið frá Frakklandi og Bretlands á einum degi frá því að talningar hófust árið 2018. Leiðin er hættuleg enda veður válynd á sundinu.
Stöðugur straumur flóttafólks er yfir Ermarsundið en skýringin á þessum gríðarlega fjölda er talin sú að þrjá dagana á undan var veðrið sérlega slæmt og engir lögðu á sundið í þessum tilgangi.
Það sem af er ári hafa yfir 22.670 manns farið um Ermarsundið til Bretlands á litlum bátum. Á sama tímabili í fyrra var fjöldinn 12.500.
Niðurstaða skýrslu sem unnin var fyrir breska þingið bendir til að fjöldi hælisleitenda eigi eftir að halda áfram að aukast á næstu mánuðum og talið er að 66 þúsund manns eigi eftir að leita verndar í landinu á þessu ári.
Viðbragð breskra stjórnvalda hefur m.a. falist í þeirri umdeildu ákvörðun að senda alla hælisleitendur til Rúanda á meðan þeir bíða úrlausnar sinna mála. Í sumar stóð til að fljúga fyrstu vélinni, fullri af hælisleitendum til Afríkuríkisins en henni var frestað á síðustu stundu eftir niðurstöðu mannréttindadómstóls Evrópu.
Bretar hafa undanfarið sett fjármagn til vöktunar á ströndum Frakklands til að reyna að koma í veg fyrir að fólk leggi í siglinguna yfir sundið.
Að minnsta kosti 203 manneskjur hafa drukknað á leiðinni frá norðurhluta Frakklands til Bretlands frá árinu 2014. 27 drukknuðu í fyrra.