Samþykkt hefur verið að leyfa áhorfendum að mæta til að fylgjast með keppni á Ólympíuleikunum sem hefjast þann 23. júlí næstkomandi í Tókýó. Hámarksfjöldi á áhorfendapöllunum verður tíu þúsund og á smærri keppnisstöðum verður hámarkið takmarkað við helming af hámarkssætanýtingu.
Áhorfendur munu þurfa að nota grímur allan þann tíma sem þeir eru á keppnisstað og þá verður bann lagt við hrópum og köllum úr áhorfendastúkunum. Japanir einir munu geta fylgst með keppni á keppnisstað.
Ákvörðun um hámarksfjölda áhorfenda á ólympíumóti fatlaðra verður tilkynnt fyrir 16. júlí en mótið hefst þann 24. ágúst.
Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu Alþjóðaólympíunefndarinnar, Alþjóðaólympíuhreyfingu fatlaðra, skipulagsnefndar Ólympíuleikanna 2020, borgaryfirvalda í Tókýó og stjórnvalda í Japan sem fjallað er um í frétt BBC. Komi til þess að kórónuveirusmitum fari fjölgandi í landinu munu aðilarnir fimm endurskoða ákvörðunina um að leyfa áhorfendur á leikunum.
Íþróttaviðburðir með áhorfendum nú þegar haldnir víða
Sérfræðingar í heilbrigðismálum höfðu sagt það æskilegt að banna áhorfendum að mæta til að fylgjast með keppni. Í skýrslu sem birt var fyrir helgi var til að mynda varað við því að erillinn sem fylgdi mótshaldi með áhorfendum myndi líklega breiða út smit sem gæti lagst hart á heilbrigðiskerfi landsins.
Haft er eftir Seiko Hashimoto að nú þegar væru mörg fordæmi fyrir því að halda íþróttaviðburði með áhorfendum, bæði innan Japan og um víða veröld. Með markvissum aðgerðum sem samræmast kröfum stjórnvalda sé hægt að halda leikana með áhorfendum. „Allur heimurinn glímir nú við sömu hindranirnar og við verðum að vinna saman til að komast yfir þær.“
Japanir hvattir til að horfa á leikana í sjónvarpinu
Líkt og áður segir getur þróun faraldursins haft áhrif á það hvort áhorfendum verður leyft að mæta á leikana og þá hversu margir mega koma saman á hverjum keppnisstað. Japanir eru að stíga út úr stórri bylgju faraldursins og neyðarstigi vegna faraldursins var aflétt í Tókýó í gær. Áhyggjur eru uppi um að ákvörðunin um að leyfa áhorfendur geti hrubdið af stað nýrri bylgju. Til að mynda hvatti forsætisráðherra landsins, Yoshihide Suga, landsmenn til þess að halda sig heima og horfa á leikana í sjónvarpinu frekar en að mæta í stúkurnar.
Nú þegar er íþróttafólk sem mun keppa á leikunum byrjað að leggja leið sína til Japan til að hefja undirbúning fyrir leikana. Greint var frá því í gær á vef BBC að einn úr keppnissveit frá Úganda hafi greinst með kórónuveiruna við komuna til Japan á laugardag. Í sveitinni voru níu manns, meðal annars hnefaleikamenn og þjálfarar, en búið var að fullbólusetja alla í hópnum.