Forsvarsmenn fyrirtækisins Ripley’s Believe It or Not! fullyrða að Kim Kardashian hafi ekki valdið tjóni á sögufrægum kjól sem eitt sinn var í eigu Marilyn Monroe þegar Kardashian klæddist kjólnum á rauða dregli Met Gala í síðasta mánuði. Fyrr í vikunni bárust af því fregnir að kjóllinn hafi laskast á Met Gala, safnarinn Scott Fortner birti myndir á Instagram reikningi sínum The Marilyn Monroe Collection sem sýndu að margir af gervidemöntunum sem prýða kjólinn hefðu losnað af honum og að augljós slit væru sýnileg á bakhluta hans. Fortner starfar við að staðfesta uppruna muna sem tengdir eru Monroe en hann er jafnframt eigandi stærsta einkasafns muna og gripa sem tengjast Monroe. Hægt er að sjá Instagram færlsu Fortners neðst í fréttinni.
Í yfirlýsingu frá Ripley’s Believe It or Not! hafnar fyrirtækið því aftur á móti að kjóllinn hafi orðið fyrir skemmdum á Met Gala. Hann sé í nákvæmlega sama ásigkomulagi og hann var fyrir hátíðina. Kjóllinn er sá dýrasti sem seldur hefur verið á uppboði en Ripley’s Believe It or Not! keypti kjólinn árið 2016 á uppboði. Kaupverðið nam 4,8 milljónum Bandaríkjadala sem á gengi dagsins í dag samsvarar 630 milljónum króna.
Enginn klæðst kjólnum í 60 ár
Líkt og Kjarninn hefur fjallað um ráku safnmenn upp stór augu þegar þegar greint var frá því að Kim Kardashian hefði mætt á rauða dregil Met Gala í kjólnum sem um ræðir. Marilyn Monroe klæddist þessum sama kjól þegar hún söng afmælissönginn fyrir John F. Kennedy, þáverandi Bandaríkjaforseta, árið 1962. Að því er fram kemur í umfjöllun the Guardian hafði enginn klæðst kjólnum í þessi 60 ár sem liðin eru á milli afmælisveislu forsetans og nýafstaðinnar Met Gala hátíðar.
Til marks um alvarleika málsins sendi Alþjóðaráð safna (ICOM) frá sér yfirlýsingu þar sem imprað er á því að sögufrægum flíkum ætti enginn að klæðast, nokkurn tímann, hvort sem viðkomandi er frægur eða ei.
Kardashian var einnig gagnrýnd fyrir það hversu ákveðin hún var í ákvörðun sinni að klæðast kjólnum á rauða dreglinum. Nokkrum vikum fyrir Met Gala kom í ljós að kjóllinn passaði ekki fullkomlega. Vegna þess að ekki var hægt að gera á honum nokkrar breytingar fór Kardashian á stífan megrúnarkúr. Fyrir það var hún harðlega gagnrýnd og sögð senda aðdáendum sínum, sem telja milljónir, vafasöm skilaboð.
Í myndbandinu hér fyrir neðan sést hvernig starfsfólk Ripley’s Believe It or Not! reynir að troða Kardashian í kjólinn sem augljóslega passar ekki utan um bakhluta Kardashian.
Ný kynslóð fengið að kynnast arfleifð Monroe
Í yfirlýsingu Ripley’s Believe It or Not! segir að markmið fyrirtækisins sé bæði að skemmta og fræða gesti og að þær umræður sem sprottið hafa upp í kjölfar kjólalánsins séu nákvæmlega til þess fallnar. „Það skiptir ekki máli á hvoru megin þú stendur í rökræðum um lánið, sögulegu gildi kjólins hefur ekki verið stofnað í hættu, heldur hefur það verið undirstrikað. Nýr hópur ungs fólks hefur nú fengið að kynnast sögu og arfleifð Marilyn Monroe,“ segir í yfirlýsingunni.
Ripley’s Believe It or Not! þáði ekki greiðslu fyrir lánið og Kardashian var ekki greitt fyrir það að klæðast kjólnum. Engu að síður er ljóst að þessi uppákoma hefur vakið mjög mikla athygli og reynst Ripley’s Believe It or Not! afar góð kynning.
Safnið hefur sett upp sýningu á munum sem tengjast Marilyn Monroe í útibúi sínu í Hollywood. Áðurnefndur kjóll er í aðalhlutverki á sýningunni sem opnaði í lok maí og stendur yfir allt fram til loka haustsins.