Arion banki og PCC SE, meirihlutaeigandi kísilversins PCC BakkiSilicon hf. á Húsavík, hafa undirritað viljayfirlýsingu varðandi möguleg kaup á kísilverksmiðjunni í Helguvík. Þetta staðfestir Rúnar Sigurpálsson, forstjóri PCC á Bakka, við Kjarnann. „Hvort það leiði til kaupa PCC á verksmiðjunni verður tíminn að leiða í ljós,“ segir hann.
Arion banki er eigandi kísilversins í Helguvík í gegnum dótturfélag sitt, Stakksberg. Verksmiðjan hefur ekki verið í rekstri frá hausti 2017. Félagið Sameinað Sílikon (United Silicon) átti verksmiðjuna en rekstur hennar, sem hófst í nóvember 2016, gekk brösuglega frá upphafi og stóð aðeins í tíu mánuði eða þar til Umhverfisstofnun stöðvaði starfsemina vegna ítrekaðra bilana og kvartana íbúa í nágrenni hennar um heilsufarsleg óþægindi. Sameinað Sílikon var tekið til gjaldþrotaskipta í upphafi árs 2018 og eignaðist Arion banki eignir þrotabúsins í kjölfarið.
Síðan þá hefur verið stefnt að því að selja verksmiðjuna. Árið 2019 hófst mat á umhverfisáhrifum þeirra áforma bankans að gera endurbætur á henni, endurræsa hana og stækka með því að bæta þremur ljósbogaofnum við þann eina sem fyrir er. Matinu lauk með áliti Skipulagsstofnunar á gamlársdag.
Að mati stofnunarinnar eru fyrirhugaðar endurbætur líklegar til að fækka tilvikum sem ljósbogaofn er stöðvaður og stytta tíma sem hann keyrir á skertu afli. Þá eru áform um að losa útblástur um skorsteina en ekki um rjáfur síuhúss, sem bætt var við vegna aðfinnslu Umhverfisstofnunar, líkleg til að leiða til betri dreifingar útblástursefna, stöðugri reksturs verksmiðjunnar og stuðla að bættum loftgæðum frá því sem áður var. Engu að síður er það álit stofnunarinnar að áhrif við rekstur 1. áfanga verði nokkuð neikvæð og áhrif fullrar framleiðslu fjögurra ofna talsvert neikvæð.
Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ eru mótfallin því að verksmiðjan verði endurræst og rímar það við skoðun íbúa sem í tugatali sendu inn athugasemdir við fyrirætlanirnar í umhverfismatsferlinu.
Eini valmöguleikinn að rífa verksmiðjuna
„NEI NEI NEI. Í mínum huga er það alveg ljóst að eini valmöguleikinn i þessu máli er að rífa verksmiðjuna,“ skrifaði Friðjón Einarsson, fulltrúi Samfylkingar í bæjarstjórn Reykjanesbæjar og formaður bæjarráðs, á Facebook-síðu sína eftir að niðurstaða Skipulagsstofnunar lá fyrir. Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar, sagði í samtali við Kjarnann í upphafi vikunnar að íbúar bæjarfélagsins myndu aldrei sættast á að rekstur kísilversins færi aftur af stað „og ég óttast að verulegur ófriður verði nái þetta fram að ganga“.
Í samtali við Kjarnann í gær sagðist Friðjón hafa heyrt af áhuga PCC á því að kaupa verksmiðjuna í Helguvík „og ég hef tjáð forsvarsmönnum PCC að áhugi sveitarfélagsins er enginn né heldur íbúa“.
PCC tapaði sjö milljörðum 2020
Þýska félagið PCC SE átti í haust 86,5 prósent hlut í kísilverinu á Bakka á móti 13,5 prósent hlut Bakkastakks, fjárfestingarfélags Íslandsbanka og íslenskra lífeyrissjóða. Í frétt Viðskiptablaðsins í byrjun september sagði að Bakkastakkur hefði afskrifað stærstan hluta af fjárfestingu sinni í verkefninu. Þar kom ennfremur fram að eigið fé PCC á Bakka hafi verið neikvætt um þrjá milljarða króna í lok ársins 2020 í kjölfar ríflega sjö milljarða króna taps. Ríflega milljarðs króna tap varð var á rekstrinum árið 2019. Í haust var unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins í annað sinn á tæpum tveimur árum.
Um mitt árið 2020 var rekstur kísilversins á Bakka stöðvaður og um 80 starfsmönnum sagt upp störfum. Ástæðurnar voru sagðar erfiðar markaðsástæður. Í frétt Viðskiptablaðsins er rifjað upp að bilanir og rekstrarerfiðleikar hafi sett svip á reksturinn frá gangsetningu í apríl árið 2018. Síðasta vor hófst svo reksturinn að nýju. Kísilverð líkt og verð annarra hrávara hækkaði töluvert á síðasta ári eftir niðursveiflu í upphafi heimsfaraldursins.