Handknattleikssambandi Íslands (HSÍ) hefur borist eitt erindi er varðar ótilhlýðilega háttsemi starfsmanns sem var skoðað og er lokið.
Þetta kemur fram í svari HSÍ við fyrirspurn Kjarnans en spurt var hvort ásakanir um kynferðislega áreitni/áreiti eða ofbeldi hefðu borist á borð stjórnenda HSÍ á síðustu fjórum árum.
Samkvæmt HSÍ kom eitt mál óbeint á þeirra borð fyrir þann tíma en það varðaði sjálfboðaliða hjá þeim „sem varð sekur um ótilhlýðilega framkomu vegna starfa hans í félagi“.
Mikið hafarí var í kringum Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) í sumar og haust vegna ásakana um kynferðislega áreitni og ofbeldi á hendur landsliðsmanna í fótbolta. KSÍ staðfesti við Kjarnann í september að ábending hefði borist sambandinu snemmsumars um yfir 10 ára gamalt mál er varðar alvarlegar ásakanir um kynferðisofbeldi tveggja landsliðsmanna gegn stúlku.
HSÍ hefur ekki beina aðkomu að málum sem koma upp innan félaganna
Í svari HSÍ við fyrirspurn Kjarnans vill sambandið benda á að mál sem koma upp innan félaga fari í ferli hjá félögunum sjálfum samkvæmt leiðbeiningum ÍBR og ÍSÍ eða samkvæmt reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum ef það á við og hafi HSÍ enga beina aðkomu að þeim.
Ef upp koma mál er tengjast starfsemi HSÍ þá sé þeim beint til samskiptaráðgjafa íþrótta – og æskulýðsstarfs eins og kveðið er á um íþróttalögum.