„Það er enn sem komið er ekkert fast í hendi. Samtalið er enn í gangi og ekki ljóst hvenær eða hvernig það endar. Þó myndi ég halda að við séum að horfa á nokkrar vikur fremur en nokkra mánuði.“
Þetta segir Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs Arion banka, inntur eftir stöðu mála á viðræðum bankans við PCC SE um möguleg kaup þess síðarnefnda á kísilverksmiðjunni í Helguvík. Það er Stakksberg, dótturfélag Arion banka sem á kísilverksmiðjuna en PCC SE er meirihluta eigandi PCC BakkiSilicon hf., kísilversins á Húsavík.
Viðræðurnar hófust formlega með undirritun viljayfirlýsingar í byrjun árs og hafa því staðið í rúmlega átta mánuði. Til stóð að þeim yrði lokið í sumar en eins og fyrr segir eru þær enn í gangi.
Í byrjun september var greint frá því að Gestur Pétursson hefði verið ráðinn nýr forstjóri kísilversins á Bakka. Hann tók við því starfi af Rúnari Sigurpálssyni. Í tilkynningu kom fram að Rúnar myndi halda áfram störfum fyrir PCC samstæðuna, líkt og það var orðað, og einbeita sér að þróunarverkefnum á Íslandi.
Kjarninn sendi Rúnari fyrirspurn um breytingarnar er þær voru tilkynntar og spurði, í ljósi þessara breytinga, hver staðan á viðræðum við Arion banka væri. Þeirri fyrirspurn var ekki svarað.
Engin starfsemi í fimm ár
Kísilverksmiðjan í Helguvík hefur ekki verið í rekstri frá því haustið 2017. Félagið Sameinað Sílikon (United Silicon) átti verksmiðjuna en rekstur hennar, sem hófst í nóvember 2016, gekk brösuglega frá upphafi og stóð aðeins í tíu mánuði eða þar til Umhverfisstofnun stöðvaði starfsemina vegna ítrekaðra bilana og kvartana íbúa í nágrenni hennar um heilsufarsleg óþægindi. Sameinað Sílikon var tekið til gjaldþrotaskipta í upphafi árs 2018 og eignaðist Arion banki eignir þrotabúsins í kjölfarið.
Síðan þá hefur verið stefnt að því að selja verksmiðjuna. Árið 2019 hófst mat á umhverfisáhrifum þeirra áforma bankans að gera endurbætur á henni, endurræsa hana og stækka með því að bæta þremur ljósbogaofnum við þann eina sem fyrir er. Matinu lauk með áliti Skipulagsstofnunar í lok síðasta árs.
Vilji bæjaryfirvalda og íbúa hefur staðið til þess að verksmiðjan verði rifin. Þórður Ólafur Þórðarson, lögfræðingur Arion banka og stjórnarmaður í Stakksbergi, dótturfélagi bankans sem á kísilverið í Helguvík, sagði á fundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í febrúar að „það tjón sem þarna yrði á hagsmunum við það að flytja verksmiðjuna í burtu, það er bara svo óskaplegt að það er raunverulega ekki efnahagslega boðlegur kostur“.
Íbúar og stjórnvöld í Reykjanesbæ telja það hins vegar ekki valkost að ræsa verið aftur, þrátt fyrir þær endurbætur sem fyrirhugaðar eru á því.
„Okkur er kunnugt um þessar viðræður en erum ekki aðilar að þeim,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, við Kjarnann. „Við höfum upplýst aðila um óbreytta afstöðu Reykjanesbæjar.“
Afstaðan er sú að ekki komi til greina af hálfu stjórnvalda í sveitarfélaginu, að kísilverið í Helguvík verði ræst að nýju.