„Við erum á fleygiferð í þeirri vinnu að búa til betra vinnulag, betri reglur, betri ferla,“ sagði Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ), í Silfrinu á RÚV í dag. Fjórir starfshópar eru að störfum og mun fyrsti hópurinn skila af sér tillögum á morgun. Þá á Vanda á fund á þriðjudag með starfsfólki KSÍ sem kemur að fræðslumálum. „Við erum að fara að leggja fram metnaðarfulla forvarnar- og fræðsluáætlun.“
Gustað hefur um KSÍ frá því í ágúst þegar frásagnir af kynferðisofbeldi og áreitni landsliðsmanna í knattspyrnu komu upp á yfirborðið. Þjarmað var að KSÍ í kjölfarið en sambandið neitaði ítrekað að slík mál hefðu „komið á þeirra borð“. Guðni Bergsson, þáverandi formaður KSÍ, sagði af sér auk stjórnar KSÍ og Vanda var kjörinn formaður á aukaþingi sambandsins í október.
Hvenær eru mál í skoðun?
Val í landsliðshóp karla hefur verið til umræðu í undanförnum verkefnum liðsins en Arnar Þór Viðarsson, þjálfari karlalandsliðsins, stóð ekki til boða að velja alla þá leikmenn sem hann hafði hug á. Að sögn Vöndu er þetta sé eitt af því sem vinna starfshópanna felist í, það er að setja reglur um hvenær landsliðsmenn eru gjaldgengir í leikmannahóp.
„Þetta er flókið en við erum að vinna að þessu. Við erum að viða að okkur upplýsingum og ætlum svo að búa til reglur,“ sagði Vanda. Meðal þess sem hóparnir líta til er vinna ÍSÍ að nýrri reglugerð sem á að kynna í mars og gildir um öll íþróttafélög. „En við verðum að gera eitthvað þangað til, það eru þessar bráðabirgðareglur.“ Almenna reglan nú sé að á meðan mál eru í skoðun stígi leikmenn til hliðar en Vanda telur að mikilvægt sé að skýra hvenær mál teljist til skoðunar, þ.e. hvort það nægi að fjallað hafi verið um mál á samfélagsmiðlun, sem er að hennar mati ekki nægjanlegt, eða hvort mál hafi verið tilkynnt, eða jafnvel ákært, til lögreglu.
„Við þurfum líka að spá í „hvað svo?“ Er leið til baka? Já mér finnst það. En hvernig er hún? Það eru enn þá spurningar sem bíða okkar. Við ætlum að gera þetta faglega og við ætlum að gera þetta vel. Við ætlum að standa við þessi orð okkar sem við höfum sagt að við líðum ekki ofbeldi,“ sagði Vanda í samtali við Þóru Arnórsdóttur í Silfrinu.
Ársþing KSÍ fer fram í febrúar á næsta ári og hyggst Vanda sækjast áfram eftir formannssætinu. „Þetta er áhugavert viðfangsefni og mér finnst ég henta vel í það út frá minni reynslu.“