Ríkisútvarpið (RÚV) óskaði eftir undanþágu fyrir Eurovision-hópinn sem fór til Rotterdam í Hollandi til að taka þátt í Eurovision-keppninni í ár til að fá bólusetningu gegn COVID-19. Sóttvarnaryfirvöld veittu undanþáguna og hleypti hópnum fram fyrir röð í bólusetningu. Frá þessu er greint á mbl.is.
Samkvæmt upplýsingum Kjarnans er um allan hópinn sem fór út á vegum RÚV að ræða, ekki einungis þau sem stíga á svið og flytja atriði Íslands, lagið 10 years með Daða og Gagnamagninu.
Í samtali við mbl.is segir Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir að sóttvarnaryfirvöld hafi verið stíf á því að veita ekki undanþágur og að margir hafi fengið neitun. Eftir umræður hafi hins vegar ákveðið að veita Eurovision-hópnum undanþágu og bólusetja hann. Það var gert fyrir tíu dögum síðan.
Smit kom samt sem áður upp í hópnum um helgina en það tekur að jafnaði um tvær til þrjár vikur fyrir bóluefni að virka að fullu.
Felix Bergsson, farastjóri íslenska hópsins, greindi frá því í viðtali við Vísi í gær að hópurinn hefði verið bólusettur með Jansen bóluefni fyrir brottför en þar kom ekki fram að um undanþágu var að ræða.
Á Íslandi er ekki mælt með bólusetningum 18 ára og yngri en þó kemur fram í upplýsingum yfirvalda að bóluefni Pfizer-BioNtech megi nota hjá sextán ára og eldri.
20 prósent þjóðarinnar eru yngri en sextán ára og 24,5 prósent eru yngri en átján ára. 65 þúsund einstaklingar hér á landi eru þegar orðnir fullbólusettir eða 17,2 prósent allra þeirra sem hér búa.
Á upplýsingafundi almannavarna í febrúar sagði Þórólfur að ólíklegt væri að keppendur Íslands á Olympíuleikunum í Tokýó í sumar yrðu settir í forgang í bólusetningu, en Íþróttasamband Íslands (ÍSÍ) hafði þá kallað eftir því að ólympíufararnir yrðu bólusettir sem fyrst.
Í byrjun maí ákvað Pfizer-bóluefnaframleiðandinn svo að gefa öllum keppendum á Ólympíuleikunum bóluefni, en ekki liggur fyrir hvernig það verði útfært né hvort að keppendur í Ólympíuhópi ÍSÍ verði bólusettir sem hluti af þeirri áætlun. Einn íslenskur keppandi hefur þegar tryggt sér þátttökurétt á leikunum, sundmaðurinn Anton Sveinn McKee.