Yfir hálf milljón manna hefur flúið Úkraínu síðan að innrás Rússa hófst. Flestir hafa flúið til Póllands, að sögn Filippo Gardi, framkvæmdastjóra Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Stofnunin á von á að um fjórar milljónir manna flýi Úkraínu á næstu dögum og vikum.
Hún sagði ennfremur að í gær, mánudag, hefðu að minnsta kosti 102 almennir borgarar fallið í stríðinu en úkraínsk stjórnvöld sögðu fjöldann vera 352, þar af sextán börn.
BBC greindi frá því snemma í morgun að yfir 60 kílómetra löng lest af rússneskum hertrukkum nálgaðist höfuðborgina Kænugarð. Þetta megi sjá á gervihnattamyndum.
Langar raðir fólks- og langferðabíla hafa síðustu daga verið í landamærastöðvar að nágrannalöndum Úkraínu. Að minnsta kosti 281 þúsund hafa flúið til Póllands, yfir 84.500 til Ungverjalands, um 36.400 til Moldóvu, 32.500 til Rúmeníu og um 30 þúsund til Slóvakíu. Að auki hefur ótilgreindur fjöldi fólks flúið til annarra landa. New York Times greinir frá því að 129 þúsund manns hafi yfirgefið austurhéruð Úkraínu og farið yfir landamærin til Rússlands. Mjög fáir, líklega um 500 manns, hafa flúið til Hvíta-Rússlands.
Í Úkraínu gilda herlög sem felur m.a. í sér að úkraínskir karlmenn á aldrinum 18-60 ára mega ekki yfir gefa landið. Til er ætlast að þeir grípi til vopna.
Fyrir marga flóttamenn er viðkoma í næstu nágrannalöndum Úkraínu aðeins fyrsti áfangastaður á lengra ferðalagi, líklega oftast til annarra Evrópulanda. Yfirvöld í Rúmeníu hafa til dæmis sagt, að því er fram kemur í frétt Reuters, að um helmingur allra þeirra sem komið hafa til landsins frá Úkraínu hafi þegar haldið leið sinni áfram.
Flóttinn mikli frá Úkraínu er þegar farinn að jafnast á við það sem átti sér stað í stríðinu á Balkan-skaga á tíunda áratug síðustu aldar. Sá stóri munur er þó á að nú er flóttafólki mætt með opnum örmum.
En ekki hefur öllum enn tekist að flýja. Á það m.a. við fjöldann allan af námsmönnum frá Afríkuríkjum við úkraínska háskóla. Utanríkisráðherra Sómalíu segist hafa sett sig í samband við pólsk yfirvöld til að liðka fyrir flutningi um 300 Sómala þangað. Ferðir þeirra yfir evrópsk landamæri eru þrautin þyngri á friðartímum. Á stríðstímum, líkt og nú, hafa fjölmargar fregnir borist af hinu sama.
Þúsundir ungra Afríkubúa eru í námi við háskóla í Úkraínu. Flestir eru þeir frá Nígeríu, Gana, Kenía, Suður-Afríku, Eþíópíu og Sómalíu. Utanríkisráðherra Nígeríu sagði á Twitter í fyrradag að úkraínskir landamæraverðir væru að hindra för nígerískra ríkisborgara til nágrannaríkja. Utanríkisráðherra Úkraínu sagði slíkt ekki markvisst vera að eiga sér stað. Þeir ættu að geta flúið líkt og aðrir en bað um biðlund vegna þess ófremdarástands sem ríkti við landamærastöðvarnar. Hann fyrirskipaði landamæravörðum í kjölfarið að leyfa öllum útlendingum, hverrar þjóðar sem þeir væru, að yfirgefa Úkraínu.
Utanríkisráðherra Gana greindi svo frá því í gær að námsmenn þaðan hefðu ekki átt í erfiðleikum með að komast yfir landamærin. Pólsk yfirvöld sögðu það ekki rétt að markvisst væri reynt að koma í veg fyrir að Afríkubúar kæmu þangað. „Landamæraverðir við pólsku landamærin hjálpa öllum að flýja átakasvæðin í Úkraínu. Þjóðerni eða ríkisborgararéttur skiptir þar engu máli.“