Hlutastarfaleiðin var nýtt fyrir 180 starfsmenn Miklatorgs hf. í um fjórar vikur á síðasta ári, við upphaf kórónuveirufaraldurs, en félagið heldur utan um rekstur IKEA í Kauptúni. Á tímabilinu voru 65 milljónir greiddar í hlutabætur af Vinnumálastofnun til starfsmanna félagsins og var Miklatorg meðal þeirra félaga sem hæstar greiðslur fengu í gegnum úrræðið í mars og apríl í fyrra, líkt og lesa má í skýrslu Ríkisendurskoðunar um hlutastarfaleiðina. Sú fjárhæð var endurgreidd nokkrum vikum síðar að sögn Stefáns Rúnars Dagssonar, framkvæmdastjóra IKEA.
„Við fórum inn í þetta þar sem að stjórnvöld hvöttu okkur til þess, fyrirtækin í landinu, til þess að nýta þessa leið því það voru óvissutímar og annað. Við nýttum okkur þetta í örugglega fjórar vikur,“ segir Stefán í samtali við Kjarnann. Í kjölfarið hafi skapast neikvæð umræða um fyrirtæki sem nýttu sér úrræðið auk þess sem forsendur breyttust. „Við sáum fram á það að við myndum geta komist í gegnum þetta án hjálpar, þannig að við endurgreiddum strax.“
Starfsfólk fyrirtækisins hafi á þessum fjórum vikum fengið greiðslur frá Vinnumálastofnun en fyrirtækið svo greitt stofnuninni til baka. „Við vorum ekkert að auglýsa það eða berja okkur á brjóst út af því að við vorum að gera það. Við ákváðum bara að þegja yfir því,“ segir Stefán um endurgreiðsluna.
Úrræðið ekki ætlað stöndugum fyrirtækjum
Hlutastarfaleiðin var umfangsmesta efnahagsaðgerð ríkisstjórnarinnar vegna kórónuveirufaraldursins. Líkt og fram kemur í frétt RÚV um úrræðið þá nýttu yfir 36.500 launamenn sér bótaleiðina og rúmlega 6.700 atvinnurekendur. 28 milljarðar króna voru greiddir í formi hlutabóta frá mars 2020 þar til úrræðið rann sitt skeið á enda í lok maí á þessu ári.
Samkvæmt skýrslu fjármála- og efnahagsráðherra um nýtingu efnahagsúrræða voru flestir á hlutastarfaleið í mars og apríl í fyrra. Verulega fækkaði í hópi þeirra sem fengu greiddar hlutabætur þegar fyrirtækjum voru settar þrengri skorður fyrir nýtingu úrræðisins í fyrravor. Þá var gerð ríkari krafa um tekjuskerðingu auk þess sem girt var fyrir það að atvinnurekendur gætu greitt sér arð, lækkað hlutafé, greitt óumsamda kaupauka eða keypt eigin bréf fyrr en í fyrsta lagi í júlí 2023.
Ríkisendurskoðun fjallaði ítarlega um hlutastarfaleiðina í skýrslu sinni sem kom út í maí í fyrra og áður hefur verið minnst á hér að ofan. Í niðurstöðukafla skýrslunnar er sagt að af lögunum og lögskýringargögnum hafi mátt ráða að úrræðið hefði ekki verið ætlað stöndugum fyrirtækjum.
Í skýrslunni segir einnig að nokkuð frjálsræði hafi verið á túlkun laganna. „Í hópi þeirra aðila sem hafa nýtt sér hlutastarfaleiðina eru fyrirtæki og fyrirtækjasamstæður sem búa að öflugum rekstri og traustum efnahag en ekki verður séð af lögunum og lögskýringargögnum að slíkt hafi verið ætlunin,“ segir meðal annars í skýrslunni. Þar kom einnig fram að sum fyrirtæki hefðu boðað endurgreiðslu á hlutabótum. Að minnsta kosti 88 fyrirtæki hafa endurgreitt hlutabætur.
Hafa endurgreitt opinberan stuðning
Rekstur IKEA var með fínasta móti í fyrra en félagið Miklatorg hagnaðist um rétt tæpar 500 milljónir króna. 99,9 prósent af hlutafé Miklatorgs er í eigu eignarhaldsfélagsins Hofs sem er í eigu bræðranna Jóns og Sigurðar Gísla Pálmasonar. Samkvæmt skýrslu stjórnar í ársreikningi Miklatorgs er lagt til að 500 milljónir króna verði greiddar í arð til eigenda vegna síðasta rekstrarárs.
Þrátt fyrir hundruð milljóna hagnað á árinu varð félagið engu að síður fyrir tekjutapi þegar faraldurinn var sem verstur, salan féll um 15 prósent frá mars til júlí í fyrra, samkvæmt ársreikningi.
„Við urðum fyrir alveg gífurlegu tekjufalli þessar sex vikur sem við lokuðum og þessa mánuði þegar COVID var sem verst, bæði í mars og apríl og síðan aftur í nóvember, desember. En við sáum fram á það að við gætum staðið þetta af okkur og við gerðum það. Síðan komu bara mjög góðir tímar þar sem fólk var ekki að ferðast og var bara að laga til og breyta heimilum sínum og eyddi peningum innanlands og við fengum hluta af því,“ segir Stefán.
Spurður að því hvort fyrirtækið hafi nýtt sér önnur úrræði stjórnvalda, líkt og ráðningarstyrki sem í boði eru í tengslum við átakið Allir vinna, segir Stefán svo ekki vera. „En við höfum verið að ráða mikið af fólki og við réðum mikið af fólki bara í gegnum COVID til þess að ná að anna öllum þessum netpöntunum og öðru.“
Að sögn Stefáns hafi eitt annað úrræði verið nýtt, frestun á opinberum gjöldum. „Ég held að við höfum mátt fresta því til ársins 2022 en við erum líka búin að greiða það til baka.“