Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ), er farin í leyfi frá störfum, að því er fram kemur í frétt Vísis í dag.
Guðni Bergsson, fyrrverandi formaður KSÍ, sagði starfi sínu lausu á sunnudaginn og gerði stjórnin slikt hið sama í fyrradag. Klara greindi frá því í á mánudag að hún myndi halda áfram störfum sem framkvæmdastjóri sambandsins.
Hávær krafa hefur aftur á móti verið í samfélagi að Klara stigi einnig til hliðar en hún hefur starfaði fyrir KSÍ síðan 1994.
Óákveðið hversu lengi leyfið muni standa
Óskar Örn Guðbrandsson á samskiptadeild KSÍ vísaði í samtali við Vísi á fulltrúa stjórnar varðandi nánari upplýsingar. Gísli Gíslason, annar tveggja varaformanna KSÍ, segist í samtali við Vísi ekki ætla að gefa upp ástæðu leyfis Klöru. „En það undrast kannski engan í ljósi aðstæðan,“ segir Gísli. Hann segir að ekki sé búið að ákveða hversu lengi leyfið mun standa. „Við eigum eftir að ræða það við hana.“
Birkir Sveinsson, sviðsstjóri KSÍ mun taka við skyldum Klöru á meðan hún er í leyfi, að því er fram kemur hjá Vísi.
Vinna fagfólks verði í forgangi
Stjórn KSÍ samþykkti á fundi sínum í fyrradag að boða með fjögurra vikna fyrirvara til aukaþings í samræmi við 13. grein laga KSÍ. Stjórn, varafulltrúar og landshlutafulltrúar ákváðu á sama tíma að segja af sér og munu skila umboði sínu í síðasta lagi þegar til aukaþingis kemur.
Ásgeir Ásgeirsson stjórnarmaður tilkynnti fyrr um kvöldið að hann segði sig frá trúnaðarstörfum fyrir KSÍ samstundis. Í pistli sem hann ritaði á Facebook sagði Ásgeir að drullan hefði dunið yfir hann án þess að hann hefði gert nokkuð af sér. „Ég get ekki boðið mér og minni fjölskyldu uppá þann viðbjóð sem hefur verið sagt um okkur í stjórn KSÍ.“
„Þessi niðurstaða er í samræmi við áskoranir Íslensks Toppfótbolta, óskir fulltrúa félaga sem sent hafa áskorun um aukaþing og þrýsting frá samfélaginu. Stjórnin hefur fundað með forseta ÍSÍ um framgang málsins og um það hvernig best verður haldið um starfsemi KSÍ fram að aukaþingi svo starfsemin haldist órofin. Fundað verður með fulltrúum UEFA og FIFA um stöðu málsins og fyrirhuguð stjórnarskipti þannig að ekki þurfi að koma til afskipta knattspyrnusambandanna að starfsemi sambandsins,“ sagði í tilkynningu frá KSÍ. Þar kom einnig fram að vinna faghóps um endurskoðun viðbragða við kynferðisbrotum og ofbeldi innan hreyfingarinnar og hvernig staðið var og verður að stuðningi við þolendur yrði í forgangi.