Konurnar sem dvelja á Ásbrú á vegur Útlendingastofnunar (ÚTL) eiga erfitt með að fá skýr og skilmerkileg svör frá starfsmönnum stofnunarinnar við spurningum sem þær kunna að hafa. Margar treysta sér ekki til að eiga í samskiptum við starfsmennina og leita frekar til sjálfboðaliða við öflun upplýsinga um réttindi, atvinnutækifæri og húsnæðisleit, samkvæmt UN Women á Íslandi.
Þetta er ein af athugasemdum UN Women við svörum Útlendingastofnunar (ÚTL) sem Kjarninn fjallaði um í gær varðandi aðstöðu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og fólk á flótta á Ásbrú í Reykjanesbæ þar sem meðal annars kom fram að kvartanir hefðu borist til ÚTL varðandi aðbúnaðinn á Ásbrú frá einstaklingum sem láta sig mál þeirra sem þar búa varða en ekki frá íbúunum sjálfum nema í einu tilviki.
Margt af því sem bent hefði verið á „byggir á misskilningi“ að mati ÚTL en UN Women á Íslandi hafði í síðustu viku lýst yfir þungum áhyggjum af aðstæðum þeirra kvenna sem dvelja á Ásbrú. Í svari ÚTL kom jafnframt fram að stofnunin hefði brugðist við þeim kvörtunum með því að vinna að því að færa til og búa til pláss inni í öðrum úrræðum til að flytja karlmennina þangað.
UN Women á Íslandi fagna því ef brugðist hefur verið við ábendingum um mikilvægi kynjaskiptra rýma og mun áfram fylgjast með stöðu mála.
ÚTL ekki í „almennum hótelrekstri“
Í svari ÚTL kom jafnframt fram að öll búsetuúrræði sem stofnunin rekur væru með „herbergjum líkt og á hótelum eða gistiheimilum“ og uppfylli stofnunin allar lágmarkskröfur sem gerðar séu til reksturs hótela og annarra gistirýma. Þá væru þau tekin út af þar til bærum eftirlitsaðilum með reglulegu millibili.
UN Women gagnrýna þessi orð og benda á að stofnunin sé ekki í almennum hótelrekstri og því ætti þjónustan sem hún veitir ekki að „uppfylla lágmarkskröfur sem gerðar eru til reksturs gistiheimila“, heldur þess í stað uppfylla lágmarkskröfur UN Women og annarra stofnana Sameinuðu þjóðanna um þjónustu til berskjaldaðra kvenna og barna á flótta.
„Einstaklingar sem flúið hafa vopnuð átök þurfa öryggi, sálræna aðstoð, góða heilbrigðisþjónustu og mjög skýrar og greinargóðar upplýsingar á móðurmáli um þá þjónustu sem í boði er, réttindum þeirra í móttökuríki og upplýsingum um samfélagið,“ segir í ábendingum samtakanna.
Flug herþota yfir svæðið vakti ofsahræðslu meðal barna
Fram kemur hjá UN Women á Íslandi að konurnar á Ásbrú hafi þurft að leita til sjálfboðaliða eftir upplýsingum um heræfingar á Keflavíkurflugvelli en flug herþota yfir svæðið vakti ofsahræðslu meðal barnanna sem þar dvelja.
„Jarðskjálftahrinur ollu einnig mikilli hræðslu og engar upplýsingar voru veittar til fólksins, sem margt glímir við áfallastreituröskun. Ásbrú er því ekki ákjósanlegasti dvalarstaðurinn fyrir fólk sem flúið hefur stríðsátök.“
Hvað öryggi varðar, eru upplýsingarnar sem UN Women á Íslandi hefur fengið þær að hvorki hafi verið tryggt að starfsfólk ÚTL á Ásbrú sé af öllum kynjum, né öryggisverðir.
Öryggisgæsla af mjög skornum skammti
Upplýsingar UN Women á Íslandi stangist á við staðhæfingar ÚTL sem birtust í Kjarnanum í gær og nefna samtökin sex atriði í því sambandi.
Í fyrsta lagi séu úrræði ÚTL á Ásbrú ekki aðgangsstýrð. Í öðru lagi sé öryggisgæsla af mjög skornum skammti en samkvæmt upplýsingum UN Women á Íslandi sinnir einn öryggisvörður tveimur íbúðablokkum. Öryggisverðir hafi að auki ekki hlotið sérstaka þjálfun í móttöku fólks á flótta eða í að greina hættumerki um kynbundið ofbeldi eða mansal. Konurnar sem UN Women á Íslandi ræddu við sögðust fæstar upplifa sig öruggar á Ásbrú.
Í þriðja lagi benda samtökin á að takmörkuð öryggisgæsla þýði að fatnaður hafi horfið úr þvottavélum og aðrar eigur fólks einnig. Í fjórða lagi séu afmörkuð fjölskyldurými ekki á svæðinu sem tryggja öryggi og aðbúnað barna.
Ekki boðið upp á þjónustu túlks
Í fimmta lagi er, samkvæmt upplýsingum UN Women, starfsfólk ÚTL á staðnum á milli klukkan 9:00 og 11:00 á daginn. Enginn túlkur sé með í för og tali ekki allar konurnar ensku. Það hafi reynst konunum erfitt að fá upplýsingar um réttindi sín, þjónustu sem í boði er sem og upplýsingar um atvinnu- og framtíðar húsnæði.
Í sjötta og síðasta lagi gera UN Women athugasemd við þá staðhæfingu ÚTL að hafa ekki fengið tilkynningar frá íbúum Ásbrúar um slæman aðbúnað heldur hafi þær borist frá sjálfboðaliðum sem aðstoða íbúa. Samkvæmt upplýsingum frá samtökunum hafa konurnar leitað sérstaklega til eins sjálfboðaliða sem er af úkraínskum uppruna og talar úkraínsku við að koma á framfæri óskum sínum, enda hafi ÚTL ekki boðið upp á þjónustu túlks fram að þessu og því erfitt fyrir þær konur sem ekki tala ensku að koma óskum sínum á framfæri með öðrum hætti. Þær konur sem tala ensku hafi jafnframt sagt að þeim þyki erfitt að meðtaka upplýsingar á ensku um íslensk atvinnu- og skattamál.