KSÍ fékk ábendingu um meint atvik eftir landsleik Danmerkur og Íslands í Kaupmannahöfn í september 2010 þar sem tveir landsliðsmenn voru ásakaðir um kynferðislegt ofbeldi gegn stúlku „snemmsumars á þessu ári“ eða 2. eða 3. júní síðastliðinn.
Þetta kemur fram í svari deildarstjóra samskiptadeildar KSÍ við fyrirspurn Kjarnans. Veit hann ekki nákvæmlega í hvaða formi sú ábending hafi komið inn á borð sambandsins.
„Seinnipart sumars barst svo aftur skrifleg ábending. Frá KSÍ séð var formaðurinn með það mál á sínu borði. Við höfum ekki upplýsingar um það hvort KSÍ hafi haft einhverja sérstaka vitneskju um það mál fyrir þann tíma.“ Sú ábending kom með tölvupósti þann 27. ágúst, að því er fram kemur í svarinu, eða degi eftir umtalað viðtal við formann sambandsins, Guðna Bergsson, þar sem hann sagði að engar kvartanir eða tilkynningar um kynferðisbrot hefðu komið inn á borð KSÍ.
KSÍ svarar ekki hvort málið hafi farið í sérstakan verkferil þegar ábendingin barst í byrjun júní.
Neitaði að nokkur ábending hefði borist KSÍ
Málið hefur valdið miklum titringi innan KSÍ en það hófst þegar Hanna Björg Vilhjálmsdóttir skrifaði grein í Vísi þar sem hún sakaði KSÍ um þöggun varðandi kynferðisofbeldi af hendi landsliðsmanna. Vísaði hún til frásagnar ungrar konu af kynferðislegu ofbeldi sem hún varð fyrir árið 2010 sem hún birti á samfélagsmiðlum í byrjun maí en gerendurnir voru sagðir hafa verið landsliðsmenn Íslands í fótbolta. „Fleiri frásagnir eru um landsliðsmenn sem eru sagðir beita konur ofbeldi – bæði kynferðislegu og heimilisofbeldi. Þetta virðist ekki hafa haft nein áhrif á velgengni þessara manna. Þeim er hampað og njóta mikilla vinsælda meðal þjóðarinnar. Þöggunin er alger, og KSÍ ber vitaskuld ábyrgð á henni,“ sagði meðal annars í grein Hönnu Bjargar.
Guðni Bergsson sagði í samtali við fjölmiðla dagana 25. og 26. ágúst að sambandið hefði ekki fengið inn á sitt borð tilkynningar um að leikmenn landsliða Íslands hefðu undanfarin ár beitt einhvers konar ofbeldi. „Við höfum ekki fengið neinar tilkynningar né ábendingar um slíkt inn á okkar borð síðan ég tók við formennsku en hins vegar erum við meðvituð um frásagnir á samfélagsmiðlum,“ sagði hann við Fréttablaðið.
Lagði sjálfur til að hann myndi stíga tímabundið til hliðar – stjórnin hafnaði þeirri tillögu
Í Kastljósviðtali á RÚV endurtók Guðni þá staðhæfingu að engar kvartanir eða tilkynningar um kynferðisbrot hefðu komið inn á borð KSÍ. „Okkur er mjög umhugað um öryggi okkar iðkenda og almennings og hegðun okkar iðkenda gagnvart umhverfinu. Við höfum vissulega ekkert farið varhluta af þeirri umræðu sem hefur verið upp á síðkastið og undanfarin ár, við tökum mið af því, en við verðum að fá einhvers konar tilkynningu eða eitthvað slíkt, frá vitnum eða þolendum, og ef það gerist gætum við þess að þolandinn fái ákveðna aðstoð og hjálp og við tökum á því af ábyrgð og festu, og við stöndum svo sannarlega gegn öllu ofbeldi, ekki síst kynbundnu og kynferðisofbeldi, við gerum það.“
Guðni sagði enn fremur að gagnrýni á KSÍ vegna þessa væri ómakleg. Eftir krísufund stjórnar KSÍ vegna málsins í lok ágúst sagði Guðni af sér formennsku eftir að hafa gegnt embættinu síðan árið 2017.
Við birtingu fundargerða KSÍ síðastliðið þriðjudagskvöld kom í ljós að Guðni hafði lagði fram á fyrrnefndum krísufundi þá tillögu að hann myndi stíga tímabundið til hliðar sem formaður á meðan úttekt væri gerð á viðbrögðum sambandsins við þeim málum sem upp hefðu komið í tengslum við þær upplýsingar sem fram komu í fjölmiðlum um kynferðisbrot.
Stjórnin hafnaði þeirri tillögu. „Fram kom að tillaga formanns næði ekki fram að ganga og tók hann í kjölfarið þá ákvörðun að segja af sér embætti formanns þegar í stað vegna meðhöndlunar og stöðu þeirra mála sem um ræðir og kvaðst munu ganga frá yfirlýsingu þess efnis,“ segir í fundargerð stjórnar KSÍ frá 29. ágúst síðastliðnum.
Hafa ekki upplýsingar um hvort vitneskja um ásakanir hafi verið til staðar innan KSÍ
Kjarninn sendi fyrstu fyrirspurnina á KSÍ varðandi málið þann 18. ágúst og velktist hún á milli aðila innan sambandsins í fimm vikur. Ómar Smárason, deildarstjóri samskiptadeildar KSÍ, svaraði fyrirspurnum Kjarnans í vikunni en sjá má svörin hér fyrir neðan:
Hefur KSÍ einhvern tímann haft vitneskju um ásakanir um kynferðisbrot eða ofbeldi á hendur landsliðsmanna í fótbolta, sér í lagi áður en verkferlar voru endurbættir?
Við höfum a.m.k. ekki upplýsingar um það.
Hefur KSÍ einhvern tímann haft afskipti af málum sem tengjast slíkum ásökunum gegn landsliðsmanni, sér í lagi áður en verkferlar voru endurbættir?
(Hvað er átt við með „haft afskipti“?) Það hefur verið fjallað um mál Kolbeins Sigþórssonar sem barst KSÍ í mars 2018. Formaðurinn var með það mál á sínu borði frá KSÍ séð og við í sjálfu sér vitum lítið um hvaða samskipti áttu sér stað þar. Því máli lauk með sátt milli aðila, eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum, og við vitum í raun ekki meira. Við höfum a.m.k. ekki upplýsingar um mál fyrir þann tíma.
Hefur KSÍ hvatt til aðkomu lögregluyfirvalda eða leitað aðstoðar hjá Samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsmála ef og þegar grunur hefur verið um lögbrot?
KSÍ hefur a.m.k. nú sent mál til samskiptaráðgjafans, þ.e. þau sem KSÍ hefur fengið upplýsingar um.
Hefur KSÍ eða starfsmenn KSÍ haft vitneskju um mál eða beitt sér/haft afskipti í málum án þess að kvörtun hafi borist á borð KSÍ?
(Í siðareglum KSÍ er m.a. fjallað um tilkynningarskyldu fulltrúa KSÍ). Ég get ekki svarað fyrir alla fulltrúa KSÍ, en það er a.m.k. þannig að ef starfsfólk KSÍ fær ábendingu, eða vitneskju með einhverjum hætti um slík mál, þá kemur starfsmaðurinn þeim upplýsingum auðvitað áfram til viðeigandi aðila hér innanhúss, til framkvæmdastjóra eða formanns.