Listaverk þeirra Libiu Castro og Ólafs Ólafssonar sem fjarlægt var af gafli Hafnarborgar í byrjun mánaðarins er komið aftur á sinn stað á gafli hússins. Í samtali við Kjarnann segir tvíeykið að ef til vill hafi þrýstingur á bæjaryfirvöld orðið þess valdandi að leyfi fyrir uppsetningu verksins að nýju hafi verið veitt.
Að sögn tvíeykisins liggur ekki ljóst fyrir hvað gerði útslagið í baráttu þeirra fyrir því að fá verkið aftur upp en yfirlýsingar frá Bandalagi íslenskra listamanna (BÍL) og ICOM, alþjóðaráði safna hafa ef til vill haft eitthvað að segja. „Það var komin yfirlýsing frá ICOM og frá BÍL þar sem SÍM (Samband íslenskra myndlistarmanna) er náttúrlega með og Myndstef var á leiðinni og svo kom yfirlýsing frá listráði Hafnarborgar sem var mjög mikilvæg. Þau voru bara algjörlega á sömu línu og BÍL og ICOM. Ég veit ekki hvað, þau hafa fundið fyrir þrýstingnum held ég og orðið að sjá að sér,“ segir Ólafur.
Listaverk þeirra Libiu og Ólafs, uppstækkun af miða sem fylltur var út af þátttakenda þjóðfundarins 2010, var sett upp föstudaginn 30. mars. Aðdragandinn að því hafði verið langur. Forstöðumaður Hafnarborgar hafði sótt um formlegt leyfi haustið 2020 en lítið gekk. Libia og Ólafur ákváðu því að sækja leyfið sjálf og það fengu þau frá sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs og umsjónarmanni fasteigna.
Tveimur dögum eftir að verkinu var komið fyrir á gafli hússins var það svo tekið niður að fyrirskipan Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra Hafnarfjarðar. Skortur á viðeigandi leyfum var skýringin sem Rósa og bæjaryfirvöld gáfu fyrir niðurtöku verksins.
Stóð alltaf til að setja upp verk
Listamennirnir segja að frá upphafi hafi verk eftir þau átt að fara á gafl hússins, það sé venjan á sýningum þeirra víða um heim auk þess sem þau höfðu skilað inn tillögum að uppsetningu áður en sýningin opnaði.
„Þetta snerist alltaf bara um að það færi ekki verk út á gafl hússins frá þessu verkefni. Enda voru það fyrstu viðbrögð forstöðumanns Hafnarborgar, hún sagði: „Bæjarstjórnin verður ekki hrifin af þessu,“ þegar við kynntum að við ætluðum að setja verk út á gafl hússins,“ segir Ólafur.
Málið var tekið fyrir bæði á bæjarráðsfundi sem og á bæjarstjórnarfundi. Á bæjarráðsfundinum var tillaga samþykkt um að verkinu yrði fundinn nýr staður og því komið upp frístandandi í grennd safnsins. Það er nokkuð á skjön við hefðbundnar vinnuaðferðir Libiu og Ólafs en á sýningum þeirra teygja verkin sig iðulega út fyrir veggi listasafna og utan á þau.
Í liðinni viku fékkst aftur á móti leyfi frá byggingarfulltrúa fyrir því að verkið yrði sett aftur upp á gafl hússins. Það er því komið upp á nýjan leik.
Málinu ekki lokið
Málinu er þó enn ekki lokið en Ólafur segir listráð Hafnarborgar eiga eftir að koma saman og fara yfir niðurstöðurnar. Að hans sögn ríkir óánægja innan listráðsins með nýja ferla sem innleiddir hafa verið í kjölfar málsins, ferla sem hafa með uppsetningu listaverka í almannarými.
„Nú á að setja þetta í einhver skýrari ferli og það hljómar eins og það eigi að setja hömlur á list í almenningsrými á og í kringum hafnarborg. Jafnvel bara almennt. Það hljómar ekki eins og það eigi að vinna fyrir listina og setja skýrar reglur svo að yfirvöld fari ekki að skipta sér af,“ segir Ólafur.