Namibísk stjórnvöld hafa sett í gang formlegt ferli til að reyna að fá þrjá núverandi og fyrrverandi starfsmenn Samherja framselda til landsins vegna málaferla á hendur þeim. Kröfunni hefur verið hafnað þar sem engin heimild er í lögum til að framselja íslenska ríkisborgara til annarra landa. Frá þessu er greint á vef The Namibian.
Helgi Magnús Gunnarssonar vararíkissaksóknari staðfestir við RÚV í dag að beiðni hafi borist frá namibískum stjórnvöldum en að ekki sé heimild í lögum til að verða við henni.
Um er að ræða þá Aðalstein Helgason, Egil Helga Árnason og Ingvar Júlíusson. Ingvar er fjármálastjóri Samherja á Kýpur, en þeir Egill Helgi og Aðalsteinn voru framkvæmdastjórar á vegum Samherja í Namibíu. Kjarninn greindi frá því í febrúar að saksóknari í Namibíu hefði tilkynnt að hann vildi leggja fram ákæru á hendur þeim og fimm félögum á vegum Samherja. Ekki er hægt að ákæra mennina nema að þeir mæti fyrir dómara og það hafa þeir ekki gert sjálfviljugir.
Tveir fyrrverandi ráðherrar í haldi
Allir þrír eru þeir í hópi þeirra sex einstaklinga sem greint hefur verið frá að hafi réttarstöðu sakborninga í rannsókn embættis héraðssaksóknara hér á landi í Samherjamálinu svokallaða.
Auk Íslendinganna þriggja og fimm félaga með tengsl við Samherja sem ekki hefur tekist að ákæra beinist ákæra namibískra yfirvalda að sakborningum sem flestir verið hafa í varðhaldi frá því skömmu eftir að Samherjaskjölin komu upp á yfirborðið í lok árs 2019.
Þeirra á meðal eru tveir fyrrverandi ráðherrar, Bernhardt Esau fyrrverandi sjávarútvegsráðherra og Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra.
Kallar málareksturinn aðför
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja og einn þeirra sem er með réttarstöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara á málefnum Samherja, tjáði sig um málið við sjávarútvegsvef mbl.is í gær.
Þar sagði hann að Samherji hefði ætíð byggt á því að þegar félög tengd Samherja og starfsmenn þeirra myndu fá tækifæri til að greina frá sinni hlið mála myndi málareksturinn í Namibíu taka á sig aðra mynd. Hann kallaði málareksturinn aðför að einstaklingum og fyrirtækjum tengdum Samherja sem þau hefði þurft að sæta á opinberum vettvangi án þess að njóta viðeigandi málsmeðferðar.
Þorsteinn fjallaði ekki um það að þeim starfsmönnum sem undir eru í málinu stendur öllum til boða að mæta fyrir dómstóla til að gera grein fyrir máli sínu. Namibísk stjórnvöld hafa beinlínis leitað aðstoðar íslenskra stjórnvalda við að fá þá til að gera það.