Eins og mál standa þá er reiknað með að skýrsla Ríkisendurskoðunar um niðurstöðu stjórnsýsluúttektar stofnunarinnar á sölu á 22,5 prósent hlut ríkisins í Íslandsbanka til 207 fjárfesta í lokuðu útboði fyrir 52,65 milljarða króna í mars síðastliðnum verði skilað til Alþingis „fljótlega upp úr komandi mánaðarmótum.“
Þetta kemur fram í skriflegu svari Guðmundar Björgvins Helgasonar ríkisendurskoðanda við fyrirspurn Kjarnans um málið. Þar segir enn fremur að þegar skýrslan verður tilbúin muni hún verða send til forseta Alþingis. „Ég geri ráð fyrir að við taki hefðbundin málsmeðferð af hálfu þingsins, þ.e. að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fái skýrsluna til kynningar og umfjöllunar.“
Miðað við þessa stöðu er nær útilokað að þing verði kallað sérstaklega saman til að ræða skýrsluna, líkt og boðað hafði verið. Þingstörf hefjast að nýju eftir sumarfrí 13. september næstkomandi.
Bjarni rólegur
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, ræddi stórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar í viðtali við Dagmál á mbl.is fyrr í þessum mánuði. Þar sagðist hann bíða rólegur eftir skýrslunni. „Það skiptir mig í sjálfu sér engu máli hvort hún komi um miðjan mánuðinn, í lok mánaðar eða í byrjun september. Umræðan fer bara fram þegar það gerist.“
Hann hafi hugsað mikið um framkvæmdina á bankasölunni frá því að þingið lauk störfum og ekki séð margt í henni sem ráðuneyti hans bar ábyrgð á sem þau hefðu viljað gera öðruvísi. „„Við höfum bent á nokkra framkvæmdarlega þætti sem eflaust koma fram í skýrslunni. En við verðum að sjá hver megin niðurstaðan verður þar.“
Helst myndi hann ekki ekki bara vilja losa ríkið úr eignarhluta í Íslandsbanka heldur líka selja hlut í Landsbankanum þegar fram í sækir, þótt hann væri þeirrar skoðunar að ríkið geti vel farið þar með ráðandi hlut. „Þó ekki væri nema að tryggja höfuðstöðvar kerfislega mikilvægs banka á Íslandi.“
Ríkið á sem stendur 98,2 prósent hlut í Landsbankanum.
Niðurstaða átti að liggja fyrir í júní
Skýrslan er gerð að beiðni Bjarna, en hann bað formlega um gerð hennar 7, apríl síðastliðinn og Ríkisendurskoðun samþykkti að taka að sér verkið í kjölfarið. Það gerðist í kjölfar þess að söluferlið var harðlega gagnrýnt víða í samfélaginu. Í bréfi ráðuneytisins kom fram að umræða hafi skapast um hvort framkvæmd sölunnar hafi verið í samræmi við áskilnað laga og upplegg stjórnvalda sem borið var undir fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis til umsagnar.
Ríkisendurskoðun ákvað daginn eftir, þann 8. apríl, að verða við beiðninni.
Í bréfi sem hún sendi til Bjarna vegna þess sagði að „áætlun um afmörkun og framkvæmd úttektarinnar hefur ekki farið fram en hún mun verða endurskoðuð eftir því sem úttektinni vindur fram. Í því sambandi er ítrekað að skv. 3. mgr. 1. gr. framangreindra laga er ríkisendurskoðandi sjálfstæður og engum háður í störfum sínum og ákveður sjálfur hvernig hann sinnir hlutverki sínu samkvæmt lögunum. Stefnt er að því að niðurstaða úttektarinnar verði birt í opinberri skýrslu til Alþingis í júnímánuði 2022.“
Alls 83 prósent óánægð með framkvæmdina
Það flækti málin að Alþingi átti eftir að kjósa nýjan ríkisendurskoðanda í stað Skúla Eggerts Þórðarsonar, sem ákvað að hætta sem slíkur og verða ráðuneytisstjóri í nýju viðskipta- og menningarráðuneyti. Til stóð að kjósa nýjan ríkisendurskoðanda á þingi fyrir maílok.
Því var sú staða uppi að Ríkisendurskoðun var falið að ráðast í úttekt á einu umdeildasta þjóðfélagsmáli síðari ára, þar sem 88,4 prósent þjóðarinnar telja samkvæmt könnun Gallup að óeðlilegir viðskiptahættir hafi átt sér stað og 83 prósent þjóðarinnar er óánægt með framkvæmdina, án þess að búið væri að skipa nýjan ríkisendurskoðanda.
Guðmundur Björgvin var starfandi ríkisendurskoðandi á þessum tíma og einn þeirra tólf sem sóttist eftir embættinu.
Það frestaðist að ganga frá kosningu ríkisendurskoðanda og þann 8. júní hafði Kjarninn eftir Guðmundi Björgvini að til stæði að skila skýrslunni um Íslandsbankasöluna til Alþingis í síðustu viku júnímánaðar. Daginn eftir, þann 9. júní, var Guðmundur Björgvin kosinn nýr ríkisendurskoðandi.
Þegar þingfundum var frestað 16. júní síðastliðinn var það gert til að þingmenn gætu verið í sumarfríi til 13. september, eða í þrjá mánuði. Forseti Alþingis, Birgir Ármannsson, bað þingmenn hins vegar um að vera undir það búna að Alþingi yrði kallað saman til framhaldsfunda þegar þinginu hefur borist skýrsla ríkisendurskoðanda um sölu á hlutabréfum ríkisins í Íslandsbanka.
Skýrsluskilin frestuðust þó fljótt. Þegar fjölmiðlar spurðust fyrir um stöðu mála seinni hluta júnímánaðar fengust þau svör að búist væri við því að skýrslan yrði tilbúin fyrir lok júlímánaðar, fyrir verslunarmannahelgi.
Þegar leið að verslunarmannahelgi spurðist Kjarninn fyrir um afdrif skýrslunnar og fékk þá þau svör að hún yrði tilbúin fyrri hluta ágústmánaðar.
Fyrir um viku sagði Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, svo við RÚV að hann byggist við skýrsluna um komandi mánaðarmót. Nú er búist við henni upp úr þeim.
Nær allir landsmenn vildu rannsóknarnefnd
Sú ákvörðun Bjarna Benediktssonar að fela Ríkisendurskoðun að gera úttekt á bankasölunni var harðlega gagnrýnd af sumum stjórnarandstöðuþingmönnum, sem vildu láta skipa rannsóknarnefnd Alþingis með mun víðtækari heimildir til að fara ofan í saumana á sölunni. Spilaði þar meðal annars inn í að faðir Bjarna, Benedikt Sveinsson, var á meðal þeirra 207 fjárfesta sem fengu að kaupa í Íslandsbanka.
Í grein sem Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, birti á Kjarnanum í apríl sagði meðal annars: „Það má vel vera að Ríkisendurskoðun sé ágætlega til þess fallin að yfirfara ákveðna þætti er varða söluna á Íslandsbanka. En ef ætlunin er að rannsaka atburðina frá mörgum hliðum, lagalegum, siðferðilegum, pólitískum og stjórnsýslulegum, og „velta við öllum steinum“ eins og jafnvel stjórnarliðar kalla eftir er hins vegar ljóst að rannsóknarheimildir Ríkisendurskoðunar duga skammt og verkefnið fellur beinlínis illa að starfssviði stofnunarinnar.
Þá er óheppilegt að úttektin fari fram samkvæmt sérstakri beiðni frá fjármála- og efnahagsráðherra, sama manni og hefur forgöngu um bankasöluna sem er til athugunar.“
Í könnun sem Gallup birti seint í apríl kom fram að 73,6 prósent landsmanna taldi að það ætti að skipa rannsóknarnefnd en 26,4 prósent taldi nægjanlegt að Ríkisendurskoðun gerði úttekt á sölunni. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins skáru sig úr þegar kom að þessu, en 74 prósent þeirra voru á því að úttekt Ríkisendurskoðunar nægði til. Tæplega þriðjungur kjósenda hinna stjórnarflokkanna var á þeirri skoðun en um tveir þriðju á því að skipa þyrfti rannsóknarnefnd. Ekki þarf að koma á óvart að kjósendur stjórnarandstöðuflokka voru nær allir á því að rannsóknarnefnd sé nauðsynleg.
Hluturinn hefur hækkað um sjö milljarða
Sá hópur fjárfesta sem var valinn til að taka þátt í lokaða útboðinu á 22,5 prósent hlut íslenska ríkisins í Íslandsbanka borgaði 117 krónur fyrir hvern hlut. Heildarupphæðin var, líkt og áður sagði, 52,65 milljarðar króna. Það var rúmlega fjögur prósent undir skráðu gengi bankans á þeim tíma og afslátturinn rökstuddur með því að það væri alvanalegt alþjóðlega þegar stór hlutur í skráðu félagi væri seldur með tilboðsfyrirkomulagi að gefa afslátt.
Við lokun markaða í gær var gengi bréfa í Íslandsbanka 132,6 krónur, eða 13,3 prósent yfir því verði sem hópurinn fékk að kaupa á í mars. Virði þess hlutar sem var seldur er nú því 59,7 milljarðar króna, eða um sjö milljörðum krónum meiri en það var í mars.
Ljóst er að hluti þeirra sem tóku þátt í útboðinu hafa þegar selt hlutina sína með hagnaði. Nokkrum vikum eftir útboðið lá fyrir að að minnsta kosti 34 fjárfestar hefði selt og að nöfn 60 fjárfesta birtust ekki á hluthafaskrá af ýmsum ástæðum.
Hluthöfum hefur fækkað um 40 prósent
Ríkið hóf að selja hluti í Íslandsbanka í fyrra, þegar 35 prósent hlutur var seldur, og bankinn var skráður á markað í júní 2021. Þá voru hluthafar í bankanum 24 þúsund talsins. Í almennu útboði sem fór fram í aðdraganda skráningar var þátttaka almennings mikil enda þótti útboðsgengið, 79 krónur á hlut, vera afar lágt miðað við efnahagsreikning bankans og stöðu mála á hlutabréfamarkaði á þeim tíma. Á fyrsta degi viðskipta hækkaði verðið enda um 20 prósent og í dag er það 68 prósent hærra en það var í útboðinu.
Þegar Íslandsbanki birti uppgjör sitt fyrir fyrri hluta ársins 2022 í lok síðasta mánaðar kom fram að hluthafar í bankanum séu nú 14.300 talsins. Þeim hefur því fækkað um 9.700 frá því í júní í fyrra, eða um 40 prósent. Kaupendur af þorra þeirra bréfa sem seld hafa verið eru íslenskir lífeyrissjóðir, í eigu íslensks almennings, sem eiga að minnsta kosti samanlagt um 28 prósent hlut í bankanum.