Fyrirtækið Eden Mining ehf. vill fara í stórtækan námugröft í Litla-Sandfelli í Þrengslum og flytja mikinn meiri hluta jarðefnanna, um 80 prósent alls fjallsins, um fjórtán kílómetra leið til Þorlákshafnar og þaðan með skipum til Rotterdam í Hollandi. Nýjar þrívíddarrannsóknir fyrirtækisins benda til að vinna megi úr fjallinu átján milljón rúmmetra af efni. Það stendur til að gera á þremur áratugum og að þeim tíma liðnum yrði Litla-Sandfell, eitt kennileitanna við Þrengslaveg, horfið.
Til að flytja um 80 prósent af þessu efni til Þorlákshafnar líkt og ráðgert er, þyrftu stórir vöruflutningabílar að aka 33.350 ferðir á ári – og svo aftur til baka að námunni. Samanlagt 66.600 ferðir á 300 dögum. Þetta gerir 222 vörubílaferðir fram og til baka á dag. Séu flutningar frá kl. 7-21 eru þetta um sextán ferðir á klukkustund.
Mikil námuvinnsla er einnig fyrirhuguð af þýsku fyrirtæki á Mýrdalssandi, líkt og Kjarninn greindi frá í röð frétta á síðasta ári. Vörubílar myndu aka til og frá þeirri námu og til Þorlákshafnar, um 180 kílómetra leið, á 7-8 mínútna fresti allan sólarhringinn, ef sú framkvæmd yrði að veruleika. Allir þessir flutningabílar, úr vikurnámunni á Mýrdalssandi og námunni úr Litla-Sandfelli sem og fleiri námum sem eru á svæðinu, myndu aka saman um 2,5 kafla af leiðinni.
Eden Mining ehf. er í eigu Kristins Ólafssonar og Eiríks Ingvars Ingvarssonar. Fyrirtækið starfrækir einnig námu í Lambafelli og á Hraunsandi. Litla-Sandfell er á jörðinni Breiðabólstað sem er í eigu Kirkju sjöunda dags aðventista og hefur fyrirtækið gert langtímasamning við trúfélagið um námuna.
Heidelberg Cement Pozzolanic ehf. hefur skuldbundið sig til að kaupa efnið úr námunni og vinna það frekar í verksmiðju sem fyrirtækið hyggst reisa á lóð sem það hefur fengið vilyrði fyrir við norðanvert hafnarsvæðið í Þorlákshöfn. Þaðan yrði það svo flutt með skipum til Hollands. Skipin sem notuð yrðu til útflutnings eru annars vegar sementsskip, 18-20 þúsund tonn að stærð, og hins vegar „bulk“-skip, 30-50 þúsund tonn að stærð.
Eden Mining ehf. hefur nú gefið út umhverfismatsskýrslu á fyrirhugaðri námuvinnslu í Litla-Sandfelli. Í matsskýrslu, sem Kjarninn fjallaði ítarlega um fyrr á árinu, kom fram að til stæði að nema 15 milljónir rúmmetra af jarðefnum en nú hljóðar áætlunin upp á þrjár milljónir rúmmetra til viðbótar. Unnir yrðu því allt að 625 þúsund rúmmetrar á ári í stað 500, á þrjátíu ára tímabili eða þar til fjallið er horfið.
Í matsáætlun var jafnframt gert ráð fyrir því að 60 prósent efnisins yrði sent erlendis og 40 prósent nýtt hér á landi. Í apríl fór hins vegar fram prufugröftur og rannsókn var gerð á efninu erlendis. „Niðurstöður þeirra rannsóknar eru að gæði efnisins eru betri en áður var talið og má áætla að allt að 80 prósent efnisins verði flutt út til notkunar í sement,“ segir í umhverfismatsskýrslunni.
Litla-Sandfell stendur um 95 metra upp úr Leitahrauni í Þrengslum, í um 0,5 kílómetra fjarlægð frá Þrengslavegi. Það er talið hafa myndast í gosi undir jökli fyrir um 5.200 árum. Það er því að mestu úr móbergi, bergtegund sem er fágæt á heimsvísu en algeng á Íslandi. Móberg þykir, að því er fram kemur í skýrslunni, heppilegur staðgengill flugösku sem íblöndunarefni í sement. Flugaska verður til við brennslu kola en stefnt er á að loka kolaverum í Evrópu á næstu árum.
Stöðugir þungaflutningar um Þrengslaveg
Árið 2017 hóf Smyril Line Cargo vöruflutninga til Þorlákshafnar með fraktflutningaskipum og í dag gerir fyrirtækið út þrjú flutningaskip. Þessum vöruflutningum fylgja stöðugir þungaflutningar um Þrengslaveg alla vikuna þar sem langmest af vörunum sem berast til landsins fara á höfuðborgarsvæðið. Einnig er flutt til Þorlákshafnar jarðefni frá vikurnámum við Heklu og mögulega verður í framtíðinni fluttur þangað Kötluvikur frá Mýrdalssandi.
Ef námuvinnsla Eden Mining í Litla-Sandfelli yrðu að veruleika myndi umferð um Þrengslaveg aukast um 9,7-13,4 prósent á þeirri leið sem efnisflutningarnir færu um. Mestir yrðu þungaflutningar á vegkafla norðan við Þorlákshöfn, skammt frá höfninni. „Það er mjög stuttur vegkafli, og á þeim hluta leiðarinnar þar sem umferðin er hvað hægust, sem samlegðaráhrifa gætir,“ segir í umhverfismatsskýrslu Eden Mining sem metur því samlegðaráhrif með öðrum jarðefnaflutningum óverulega neikvæð.
Hvað áhrif á jarðmyndanir varðar telur fyrirtækið að þau yrðu nokkuð neikvæð þótt bent sé á að vissulega myndi Litla-Sandfell hverfa og að „ekki sé hægt að horfa fram hjá því“ að móberg sé ekki algengt á heimsvísu.
„Við að fjarlægja Litla-Sandfell hverfur áberandi kennileiti við Þrengslaveg,“ segir i í skýrslunni en þar segir einnig að landslagið „sem heild“ muni þó ekki breytast mikið því móbergsfjöllin Geitafell, Krossfjöll, Litlimeitill og Lambafell muni „áfram ramma inn mosavaxið Leitahraun. En það mun vanta minnsta fellið“. Litla-Sandfell er í miðjunni og umkringt fyrrnefndum fjöllum, „svo sjóndeildarhringurinn og umhverfið allt í kring verður áfram óbreytt“.
Vegfarendur munu „vonandi aðlagast breytingunni“
Að efnistöku lokinni mun sárið í hrauninu sjást að einhverju leyti þó það yrði niðurgrafið til að lágmarka ásýndaráhrifin. Fyrir þá sem þekkja til yrði mikil breyting þegar Litla-Sandfell hyrfi, „það mun þó gerast hægt yfir nokkra áratugi svo vegfarendur vonandi aðlagast breytingunni“. Fyrir þá sem koma nýir á svæðið, t.d. erlendir ferðamenn, „verður erfitt að sjá fyrir sér að heilt fell hafi áður verið þar sem Litla-Sandfell stóð, þeir munu áfram sjá mun stærri móbergsfjöll allt í kring sem standa upp úr hraunbreiðunni og ætti það ekki að hafa mikil áhrif á upplifun af landslaginu þó að Litla-Sandfell sé ekki á sínum stað“.
Eden Mining viðurkennir þó í umhverfismatsskýrslu sinni að það að fjarlægja Litla-Sandfell muni hafa „töluverð áhrif á ásýnd frá Þrengslavegi og næsta nágrenni“. Fellið sé þó ekki sýnilegt langt að og landslagsheildin yrði áfram sú sama, „bara einu móbergsfelli færra“. Það sé þó ekki hægt að horfa fram hjá því að „þetta er mikið inngrip við fjölfarinn þjóðveg“ og metur fyrirtækið áhrif á ásýnd og landslag talsvert neikvæð.
„Það er ekki að ástæðulausu að Litla-Sandfell var valið í fyrirhugaða efnistöku,“ stendur í skýrslu Eden Mining. „Fyrir utan að hafa efni af ásættanlegum gæðum, þá er það gróður- og líflaust og áhrif á náttúruna eru afar takmörkuð. Það er auk þess fjarri allri byggð og lítið er um fólk á ferli í nágrenninu. Akstursleiðin til næstu hafnar fer jafnframt um óbyggt svæði svo flutningarnir hafa óveruleg áhrif. Af þessum sökum eru áhrif á flesta umhverfisþætti metin óveruleg.“
Allir geta kynnt sér umhverfismatsskýrslu Eden Mining ehf. og veitt umsögn um framkvæmdina og umhverfismat hennar. Umsagnir skulu vera skriflegar og berast eigi síðar en 3. október 2022 til Skipulagsstofnunar eða með tölvupósti á skipulag@skipulag.is.