Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í London vegna ómíkron-afbrigðisins sem hefur náð mikilli útbreiðslu þar í landi. Tíu þúsund ný ómíkron-tilfelli greindust í borginni í dag, til viðbótar við þau 15 þúsund tilfelli sem greindust í gær. Dagleg smit eru um 90 þúsund í Bretlandi þessa dagana og er met í fjölda daglegra smita slegið á hverjum degi.
Sadiq Khan, borgarstjóri London, segist vera gríðarlega áhyggjufullur vegna stöðunnar og hafi neyðarástandi verið lýst yfir til að undirstrika alvarleika faraldursins á þessum tímapunkti. 1.534 liggja inni á spítölum í London vegna veirunnar og eru það 28,6 prósent fleiri en fyrir viku. Hópur fólks kom saman í Westminster í dag til að mótmæla frekari takmörkunum og slösuðust nokkrir lögreglumenn minni háttar í mótmælunum.
Jean Castex, forsætisráðherra Frakklands, tilkynnti um hertar sóttvarnareglur í Frakklandi í gærkvöldi og sagði hann ómíkron-afbrigðið „breiðast út á ljóshraða“ og varaði við því að veiran verði líklega orðin ráðandi í Frakklandi í byrjun í upphafi næsta árs. Fleiri eru þeirrar skoðunar, meðal annars Kári Stefánsson, forstjóri íslenskrar erfðagreiningar, sem sagði í samtali við RÚV í dag að gera megi ráð fyrir ómíkron-bylgju hér á landi í janúar. Samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni hefur ómíkron-afbrigðið greinst í að minnsta kosti 89 löndum.
Yfirvöld víða í Evrópu hafa gripið til aukinna takmarkana í þeim tilgangi að hemja útbreiðslu veirunnar. Auknar takmarkanir hafa til dæmis tekið gildi í Þýskalandi, Hollandi og á Írlandi. Yfirvöld í Frakklandi lokuðu landamærum sínum að Bretlandi í gærkvöldi fyrir ferðamönnum og þeim sem ferðast vegna vinnu. Langar raðir mynduðust við Dover-höfnina og við lestarstöðvar í gærkvöldi vegna þessa. Castex tilkynnti jafnframt um átak í bólusetningum sem mun hefjast á nýju ári. Nokkrar milljónir Frakka eru óbólusettir og segir Castex það óásættanlegt þar sem það stofni lífi heillar þjóðar í hættu.
Í Hollandi hefur það komið til tals að setja á strangt útgöngubann. Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, tekur í sama streng og Castex þar sem hann telur að ómíkron-afbrigðið gæti orðið ráðandi í janúar. Barir, veitingastaðir og flestar verslanir hafa þurft að loka klukkan 17 en stefnt var að því að rýmka afgreiðslutíma fyrir jól. Nú hefur verið horfið frá því og munu gildandi takmarkanir verða að minnsta kosti til 14. janúar.
Ómíkron eykur vanda sýnatöku í Bandaríkjunum
Ómíkron-afbrigðið hefur einnig sett svip sinn á þróun faraldursins í Bandaríkjunum, einna helst með auknu álagi í sýnatökum. Eitt af kosningaloforðum Joes Biden Bandaríkjaforseta var að gera sýnatökur ódýrar og aðgengilegar öllum. Sýnatökustaðir ná hins vegar ekki að sinna eftirspurn í aðdraganda jóla, þegar margir fara í hraðpróf í kj og nýs afbrigðis.
Sýnataka hefur gengið brösuglega frá upphafi faraldursins í Bandaríkjunum og hefur ríkisstjórn Biden ekki tekist sem skyldi að mæta eftirspurn. Á sama tíma hefur tilfellum fjölgað með tilkomu ómíkron-afbrigðisins en dagleg smit hafa verið á bilinu 140-170 þúsund síðustu daga.
Bandaríkjamenn geta valið milli þess að fara í sýnatöku á viðurkenndum stöðum eða með því að kaupa hraðpróf sem einstaklingar geta framkvæmt sjálfir, en á annan tug tegunda eru til í þeim flokki. Mun fleiri tegundir af slíkum prófum eru aðgengileg í Evrópu, eða nærri 50. Hraðprófin eru sömuleiðis mun ódýrari í Evrópu þar sem þau kosta um einn til tvo dollara, eða um 130-160 krónur, en í Bandaríkjunum kostar prófið um 12 dollara, eða um 1.500 krónur.
Munurinn á stöðunni í Evrópu og Bandaríkjunum liggur fyrst og fremst í muninum á rekstri heilbrigðiskerfanna en má einnig rekja til umdeildrar ákvörðunar sem bandarísk yfirvöld tóku fyrir nokkrum mánuðum þegar ákveðið var að niðurgreiða ekki sýnatöku, til að mynda hraðpróf, líkt og bólusetningu.