„Það má hverjum sem fylgst hafa með vera ljóst að hafin er mikil herferð vindorkufyrirtækja á náttúru og víðerni Íslands,“ segir Andrés Skúlason, verkefnisstjóri hjá Landvernd og fyrrverandi oddviti í Djúpavogshreppi og formaður Náttúruverndarsamtaka Austurlands. Andrés hefur aflað sér viðamikillar þekkingar á vindorkuverum, m.a. frá Noregi, og fylgst vel með framkomnum áformum hér á landi.
„Brekkukambur er einmitt dæmi um staðarval sem mun hafa gríðarleg ásýndaráhrif auk annarra mengunarþátta,“ skrifar Andrés í ítarlegri umsögn sinni um áformað 50 MW vindorkuver með 8-12 vindmyllum á Brekkukambi, hæsta fjallinu á Hvalfjarðarströnd. „Svo mikill er þrýstingurinn frá vindorkugeiranum orðinn að hvorki fulltrúar sveitarfélaga og eða stjórnvöld virðast geta staðið með eðlilegum hætti að málum heldur láta undan þrýstingi sérhagsmuna á kostnað íslenskrar náttúru og almennings í þessu landi.“
Tugir íbúa og sumarhúsaeigenda gera alvarlegar athugasemdir við byggingu vindorkuversins í landi jarðarinnar Brekku í Hvalfjarðarsveit. Þá hafa stofnanir ýmsar athugasemdir um fyrirætlanirnar, líkt og Kjarninn hefur rakið síðustu daga. Umhverfismatsferli framkvæmdarinnar er hafið.
„Ísland er í einstakri stöðu er varðar orkuöflun og það er enginn að brenna út á tíma hér á landi í þeim efnum,“ segir Andrés um þann æðibunugang sem einkenna virðist áform í uppbyggingu vindorkuvera hér á landi. Að mati Andrésar gildir nú aldrei sem áður að vanda sérstaklega til verka „og það gera menn ekki á spretthlaupi sem nú þó stefnir í“.
34 virkjunarkostir í vindorku fóru til umfjöllunar 4. áfanga rammaáætlunar á árunum 2020-2021. Verin eru áformuð um allt land, jafnt í nágrenni byggðar sem á fáfarnari slóðum á hálendi eða í nágrenni þess. Áhuginn á því að virkja vindinn hafði því verið bersýnilegur í nokkur ár áður en ríkisstjórnin ákvað að setja á laggirnar starfshóp til að skapa ramma um slíka orkunýtingu. Hópurinn á að skila af sér tillögum í febrúar á næsta ári.
„Það er kunnugra en frá þurfi að segja að nú um stundir hagnýtir orkugeirinn sér upplýsingaóreiðuna um orkumálin og sækir fram sem aldrei fyrr í nafni orkuskipta,“ segir Andrés. Fámennur hópur sveitarstjórnarfulltrúa ásamt fulltrúum vindorkufyrirtækja með stórar verkfræðistofur að baki sér hafi þegar valdið „sundrung og deilum“ innan samfélaga út um landið. Íbúum smærri samfélaga sé gjarnan stillt upp að vegg og „valtað yfir þá með ósanngjörnum og ólýðræðislegum þrýstingi“. Andrés segir það rannsóknarefni að „misbjóða íbúum um land allt með þessum hætti“.
Í huga Andrésar sætir það furðu hversu skipulagsvaldið virðist veigalítið og lítt áberandi meðal margra sveitarfélaga þegar orkugeirinn mæti í hlað, þá virðist öllum prinsippum vikið til hliðar. Sífellt auknum þrýstingi hafi verið beitt og hafi hann margfaldast þegar sýnt var loks að setja ætti lög og reglur um vindorkugeirann. „Þá stekkur orkugeirinn fram á sviðið og setur mál í skipulagsferli og rekur á eftir og telja þannig að þeir séu að styrkja stöðu sína.“ Segir hann þetta svipað og þegar erlend fiskeldisfyrirtæki byrjuðu að hamstra leyfi til fiskeldis áður en lög og reglur voru settar um þá starfsemi.
Andrés segir alla umræðu og áætlanir í kringum vindorkuver hér á landi ekki hafa verið í neinum samhljómi við þær staðreyndir sem í ljós eru komnar erlendis um neikvæð áhrif vindorkuvera. „Þessi upplýsingaóreiða eða öllu heldur skortur á réttum upplýsingum hefur leitt til þess að orkugeirinn hefur hagnýtt sér stöðuna hérlendis og ríkjandi stefnuleysi og þess vegna hafa þeir einfaldlega gert eigin áætlanir með ráðnum verkfræðistofum og fullkomlega vanmáttugum sveitarfélögum sem trúa því að því er virðist að vindorkuver séu góð lausn í orkumálum sem þau eru alls ekki.“
Það er fyrirtækið Zephyr Iceland sem áformar að reisa verið á Brekkukambi. Fjallið er í 647 metra hæð og vindmyllurnar yrðu um 250 metrar á hæð. Þær munu því sjást mjög víða að.
Gagnrýnir harðlega vinnubrögð móðurfélagsins
Zephyr Iceland er í eigu norska móðurfélagsins Zephyr AS. Andrés segir að það hafi „farið offari“ í samskiptum við samfélög erlendis og brotið á þeim með „alvarlegum afleiðingum“ fyrir íbúa á viðkomandi svæðum. Í Noregi hafi tilraunir þeirra með risavindorkuver valdið margvíslegum og alvarlegum mengunaráhrifum og sundrungu meðal íbúa. „Þau vinnubrögð sem þar hafa verið viðhöfð eru ekki til þess fallin að stuðla að sátt í nokkru samfélagi. Er þetta það sem Ísland þarf á að halda? Svarið er nei.“
Andrés leggur í umsögn sinni sérstaka áherslu á að íslenskir sérhagsmunaaðilar með erlenda orkurisa í farteskinu verði ekki látnir komast upp með að leita viðmiða um staðsetningar og ásýndaráhrif erlendis frá. „Við getum ekki borið okkur saman við aðrar þjóðir og heimatilbúin viðmið í öðrum löndum í ljósi sérstæðu íslenskrar náttúru og landslagsheilda,“ skrifar hann. Brekkukambur í Hvalfjarðarsveit sé gott dæmi um „fyrirséða hrikalega ásýndarmengun“.
Losunarbókhald nái yfir allt framleiðsluferlið – líka framleiðslu spaða
Í ljósi „meints áhuga viðkomandi orkufyrirtækja á svokallaðri grænni orku“ og með sjálfbærri virðiskeðju á öllum stigum máls að best verður skilið þá sé mjög mikilvægt að Skipulagstofnun kalli almennt eftir nákvæmu losunarbókhaldi frá framkvæmdaaðila og það allt frá fyrstu stigum framleiðslu mannvirkis og spöðum ásamt meðfylgjandi framleiðslu á margskonar íhlutum vindorkuversins.
Andrés bendir á nýjar rannsóknir sem sýni að gríðarleg örplastsmengun sé frá spöðum vindmyllanna. Um sé að ræða „stórfellda mengun sem vindorkufyrirtækin hafa reynt að halda frá allri umræðu með því að kaupa sérfræðinga til að skila beinlínis röngum upplýsingum“. Um bæði risastórt náttúruverndarmál sé að ræða sem og stórt heilbrigðisvandamál. Eitt þeirra efna sem t.d. er notað í spaða í dag er Bisphenol A sem talið er geta valdið þroskafrávikum hjá börnum og hafi, ef það komist inn í líkama fólks jafnvel áhrif á blóðþrýsting þess og þar af leiðandi ýmsa sjúkdóma.
Mikil veðrun í íslensku veðurfari
„Ef magn Bisphenol A er eitthvað nálægt þeirri stærðargráðu sem kemur fram í skýrslunni að sé í vindmylluspöðum er ljóst að vindorkuframleiðendur eru að halda gríðarlega mikilvægum og alvarlegum upplýsingum leyndum fyrir eftirlitsaðilum,“ skrifar Andrés í umsögn sinni. Skipulagsstofnun verði einfaldlega að fá út úr þessum þáttum skorið. „Ýmislegt bendir til þess að Ísland henti einmitt mjög illa vegna vindorkuörplastsmengunar vegna úrkomu í formi bæði rigningar og éljagangs, ísingar og fleiri veðrabrigða sem auka slit á spöðum. Brekkukambur í Hvalfjarðarsveit er sérstaklega illa í sveit settur vegna þessara áhrifa.“
Talið er að vindorkuspaðar þurfi yfirhalningu á um það bil 5 ára fresti vegna slits, skrifar Andrés. Heildarlíftími spaðanna er um 10-15 ár og þá þarf að skipta þeim út og farga – oftast urða – með tilheyrandi neikvæðum umhverfisáhrifum. „Öllum þessum neikvæðu áhrifum og upplýsingum hafa þau vindorkufyrirtæki sem haldið hafa kynningarfundi hér á landi hreinlega sleppt að upplýsa íbúa um.“ Hann segir ekki ganga að fyrirtæki í mengandi iðnaði komist upp með að villa svo mjög fyrir almenningi og stjórnsýslunni einnig.
„Ísland á að sýna meiri metnað en svo að gera meiri kröfur en svo að láta draga sig niður á lægsta plan er varðar umhverfisviðmið með því að horfa í gegnum fingur sér í trausti þess að vindorkufyrirtækin hafi eftirlit með sjálfum sér og leggi allt um kring mat á eigið ágæti. Vindorkugeirinn er ekkert öðruvísi en annar orkugeiri – arðsemisútreikningar og sérhagsmunagæsla vigta þar meira en umhverfi og náttúra.“
Andrés segir að „undir engum kringumstæðum“ megi gefa afslátt af kröfum er varðar mengunarþætti. Því verði Skipulagsstofnun að gera ítrustu kröfur í því „áhlaupi sem hin erlendu vindorkufyrirtæki“ séu að gera á auðlindir Íslendinga. „Ef áform um vindorkuver við Brekkukamb í Hvalfjarðarsveit verða að veruleika er einsýnt að verið er að fórna hagsmunum samfélagsins alls fyrir sérhagsmuni.“
Og ef Skipulagsstofnun og stjórnvöldum tekst ekki að koma böndum á þessa tegund orkuframleiðslu „mun Ísland standa með þverklofna þjóð ef gefið verður eftir“.
Ávísun á ófullnægjandi vinnubrögð
Í umsögn Landverndar á matsáætlun Zephyr Iceland vegna áformanna í Hvalfjarðarsveit segir að ljóst sé að margir fjársterkir aðilar séu með áform um vindorkuver og það skapi bæði þrýsting og hættu á að aðilar sem ekki hafa sama fjárhagslega bolmagn njóti jafnræðis við að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Hlutverk Skipulagsstofnunar og annarra yfirvalda sé að tryggja réttláta meðferð og koma í veg fyrir að þrýstingi sé beitt frá einkaaðilum eins og orkugeiranum.
„Í mörgum tilfellum er um erlend stórfyrirtæki að ræða og reynslan sýnir að það er mikil hætta á að eðlilegur hluti arðsins skili sér hvorki til nær samfélagsins né til þjóðarinnar. Þeir sem verða fyrir mestu ónæði og tjóni njóta ekki góðs af ávinningi,“ skrifar Ágústa Þ. Jónsdóttir, varaformaður Landverndar.
Starfshópi um vindorku sem nýlega var skipaður sé „því miður“ ætlað að vinna flókið viðfangsefni á óraunhæfum hraða. „Landvernd óttast mjög að þetta sé ávísun á ófullnægjandi vinnubrögð með alvarlegum afleiðingum á kostnað náttúru landsins og tilheyrandi klofningi meðal samfélaga vítt og breytt um landið af áður óþekktri stærðargráðu.“
Stjórn Landverndar telur skynsamlegt að leggja öll áform um vindorkuver á ís þar til niðurstaða starfshópsins liggur fyrir og afstaða hefur verið tekin til hennar.