Yfirkjörstjórnarfólk í Norðvesturkjördæmi tjáði sig um talningu í kjördæminu við yfirheyrslu hjá lögreglu eftir kosningarnar en málið hefur valdið miklum titringi hjá stjórnmálamönnum og almenningi. Alþingi hefur nú birt svarbréf lögreglustjórans á Vesturlandi til undirbúningskjörbréfanefndar en það hefur verið birt á vef Alþingis.
Nefndarmenn eru ekki nafngreindir í bréfinu en í nefndinni sitja Ingi Tryggvason, sem er formaður, Bragi Rúnar Axelsson, Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir, Katrín Pálsdóttir og Kristján Jóhannsson.
Fram kemur í bréfinu að einn yfirkjörstjórnarmaðurinn hafi sagt að flokkun atkvæða hefði verið skoðuð og fundist hefðu nokkur atkvæði ranglega flokkuð og þá haft á orði að það væri ekki spurning um að það þyrfti að telja aftur.
Annar sagði að ekkert sérstaklega hefði verið rætt um það innan yfirkjörstjórnar hvort þyrfti að endurtelja. Sá þriðji sagði að skilaboð og ábending frá landskjörstjórn hefði verið rædd og að eftir skoðun á atkvæðabunka eins framboðsins, þar sem fundust ranglega flokkuð atkvæði, hefði þeim fundist sem ekki kæmi annað til greina en að telja aftur.
Sá fjórði sagði enga umræðu hafa verið um endurtalningu innan yfirkjörstjórnar en að þetta hefði verið ákvörðun formanns, líklega með landskjörstjórn. Hinn fimmti sagði að tilmæli hefðu komið frá landskjörstjórn um hvort rétt væri að skoða endurtalningu og þegar skoðað hefði verið í atkvæði eins framboðsins þá hefði ekki verið annað hægt en að endurtelja.
„Nei, engin tilmæli og ekki neitt“
Kjarninn greindi frá því 27. september að landskjörstjórn hefði látið yfirkjörstjórnir í Norðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi vita af því að fá atkvæði gætu breytt þingmannaskipan. Kristín Edwald formaður landskjörstjórnar sagði í samtali við Kjarnann að í þeim ábendingum hefði ekki falist nein tilmæli um að rýna sérstaklega í talninguna að nýju.
„Nei, engin tilmæli og ekki neitt, enda höfum við ekkert um það að segja. Hins vegar sáum við á þeim niðurstöðum sem yfirkjörstjórnir höfðu gefið fjölmiðlum upp að það munaði mjög litlu, það munaði tveimur atkvæðum,“ sagði Kristín.
Hún bætti því við að yfirkjörstjórnirnar hefðu verið látnar vita, meðal annars til að hægt væri að upplýsa umboðsmenn stjórnmálaflokkanna um stöðuna, svo þeir gætu tekið ákvarðanir með fullnægjandi upplýsingar undir höndum. Umboðsmenn gætu til dæmis viljað óska eftir endurtalningu í ljósi þess hve fá atkvæði þyrftu að hnikast til svo úrslit breyttust.