Samtökin No Borders birtu í dag frásögn sjónarvotts af því þegar tveir menn voru handteknir í húsnæði Útlendingastofnunar í Hafnarfirði. Sjónarvotturinn sem vitnað er til segir mennina hafa verið boðaða til Útlendingastofnunar til að taka við bólusetningarvottorðum vegna COVID-19. Þar hafi hins vegar lögreglumenn beðið þeirra og tjáð þeim að það ætti að vísa þeim úr landi í dag og til Grikklands. Þeir hafi neitað og lögreglumennirnir því handtekið þá og beitt til þess valdi. „Þeir börðu þá og hentu þeim á jörðina,“ segir m.a. í færslu No Borders. Þá hafi rafbyssum einnig verið beitt. Fleiri lögreglubílar sem og sjúkrabílar hafi komið á vettvang. Einnig er haft eftir sjónarvottinum að lögreglan hafi ýtt við öðru vitni á vettvangi og tekið síma þess og eytt myndböndum og myndum sem viðkomandi hafði tekið af atvikinu.
Lögfræðingur Rauða kross Íslands (RKÍ) var staddur í húsnæði Útlendingastofnunar í dag vegna ótengds máls og varð að hluta til vitni að því sem gerðist. Þetta staðfestir Gunnlaugur Bragi Björnsson, upplýsingafulltrúi Rauða krossins, í samtali við Kjarnann. Hann segir starfsmenn RKÍ ekki þekkja forsögu þessa tiltekna máls en verið sé að spyrjast fyrir og reynt verði að fá frekari upplýsingar, m.a. hjá Útlendingastofnun. Það sé gert í ljósi þess að þarna kunna að eiga hlut að máli einstaklingar sem Rauði krossinn hefur gegnt talsmannaþjónustu fyrir.
Hópur Palestínumanna, sem flúði hingað til lands með viðkomu á Grikklandi, neitaði í vor að fara í sýnatöku vegna COVID-19 sem er forsenda þess að mega ferðast óbólusettur milli landa. Því var ekki hægt að vísa þeim úr landi. Í kjölfarið ákvað Útlendingastofnun að svipta þá allri þjónustu, s.s. húsnæði og matarpeningum. Kærunefnd útlendingamála komst að þeirri niðurstöðu að stofnunin hefði ekki haft heimildir til þess. Bauð stofnunin mönnunum í kjölfarið aftur þjónustu.
Í færslu á Facebook-síðunni Refugees in Iceland, segir að mennirnir sem voru handteknir í dag séu úr þessum hópi.
Starfsmenn Útlendingastofnunar sögðu í viðtali við Kjarnann, eftir að þjónusta við mennina var felld niður, að lokaákvörðun væri komin í þeirra hælisumsóknir og niðurstaða stjórnvalda sú að þeim ætti að vísa úr landi. Mennirnir sögðu í viðtölum við Kjarnann að þeir gætu ekki hugsað sér að fara aftur til Grikklands, því þar biði þeirra ekkert annað en gatan.
Lögmenn þeirra gagnrýndu í viðtölum vegna málsins að Grikkland væri enn talið öruggt land fyrir hælisleitendur þegar reynslan sýndi og skýrslur staðfestu að aðbúnaður flóttafólks þar væri skelfilegur.
Útlendingastofnun ætlar ekki að tjá sig um atvikið, að því er fram kemur í svari stofnunarinnar við fyrirspurn Kjarnans og vísar á lögreglu í staðinn. Í skriflegu svari lögreglunnar við fyrirspurn Kjarnans segir að um sé að ræða atvik þar sem stoðdeild embættis ríkislögreglustjóra hafi verið að framkvæma beiðni Útlendingastofnunar um frávísun frá Íslandi. „Að öðru leyti getur embætti ríkislögreglustjóra ekki tjáð sig um einstök mál sem eru til meðferðar,“ segir í svarinu.