Mikil áhersla er lögð á lýðræðið og eflingu þess í stefnu Pírata fyrir komandi kosningar. Nú á dögunum var kosningastefna flokksins kynnt undir yfirskriftinni „Lýðræði – ekkert kjaftæði“ og í tilkynningu frá flokknum segir að hann hafi frá upphafi lagt áherslu á eflingu lýðræðis á Íslandi og „að koma hreint til dyranna.“
Á rafrænum kynningarfundi Pírata sem haldinn var á þriðjudag sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður flokksins, að lýðræði væri ekki bara kosningar, prófkjör og þjóðaratkvæðagreiðslur heldur snerist það einnig um nálgun á stjórnmál, þar sem áhersla ætti að vera lögð á fólk, hugmyndir þess, velferð og valdeflingu. Á fundinum var kosningastefna flokksins, sem samþykkt var fyrr í sumar, kynnt. Kosningastefnan er í 24 köflum.
Kjarninn kynnti sér það helsta sem finna má í kosningastefnuskrá Pírata.
Stefna að „sjálfbæru velsældarhagkerfi“
Fyrsti kafli í kosningastefnunni snýr að efnahagsmálum en þar tala Píratar fyrir nýrri hugmyndafræði í efnahagsmálum „sem vefur saman samfélag og náttúru þannig að hagkerfið taki tillit til fleiri þátta en eingöngu þeirra sem eru með verðmiða,“ eins og það er orðað í stefnunni. Því vilja Píratar innleiða fleiri mælikvarða á gæði samfélagsins, „í stað þess að láta allt snúast um hagvöxt í efnahagsmálum þjóðarinnar.“
Píratar setja stefnuna á sjálfbært velsældarhagkerfi þar sem barátta gegn spillingu, fákeppni, einokun og peningaþvætti mun leika lykilhlutverk. Að mati flokksins þarf grænvæðing efnahagslífsins og uppbygging hringrásarsamfélags að vera grundvöllur efnahagsstefnu komandi ríkisstjórnar.
Píratar vilja skilgreina samræmda lágmarksframfærslu, hækka persónuafslátt og gera hann útgreiðanlegan. Hvað skatta varðar vilja Píratar að byrðin aukist með hækkandi tekjum. „Þannig verða skattar á lág laun, örorku- og ellilífeyrisþega og græn sprotafyrirtæki lækkaðir, en skattar á ofurauð, arð- og fjármagnstekjur og mengandi stórfyrirtæki hækkaðir.“
Skilyrðislaus grunnframfærsla og endurskoðun lífeyriskerfisins
Þá er í stefnu flokksins lögð áhersla á eflingu ýmissa eftirlitsstofnanna. Píratar vilja til að mynda færa embætti skattrannsóknarstjóra í upprunalegt horf en embættið var sameinað Skattinum á kjörtímabilinu. Flokkurinn vill auk þess veita Samkeppniseftirlitinu og Fiskistofu fjármagn til að sinna eftirlit, tryggja framtíð Neytendastofu og gera umboðsmanni Alþingis kleift að hefja frumkvæðisrannsóknir.
Í kosningastefnu sinni segjast Píratar vilja endurskoða lífeyriskerfið þannig að það verði blanda gegnumstreymiskerfis og séreignasparnaðar en það segir flokkurinn geta tryggt sjálfbærni kerfisins.
Þá vill flokkurinn til framtíðar að stuðningskerfum ríkisins verði umbreytt þannig að hver og einn geti gengið að skilyrðislausri grunnframfærslu vísri. „Fyrsta skrefið verður að greiða út persónuafslátt til hvers einstaklings, og draga úr skilyrðingum og skerðingum frá barnabótum til lífeyris. Arðurinn af auðlindum og skattlagning hagnaðar, hálauna og ofurauðs er grunnforsenda þess kerfis.“
Vilja ná fram kolefnishlutleysi árið 2035
Í umhverfis- og loftslagsstefnu Pírata er stefnan sett á kolefnishlutleysi árið 2035 en að mati flokksins liggur meginábyrgð þess að draga úr mengun og losun gróðurhúsalofttegunda hjá stjórnvöldum og fyrirtækjum. Í kosningastefnu flokksins segir að núverandi valdhafar hafi ekki brugðist við með fullnægjandi hætti. Því vill flokkurinn að umhverfisráðuneytið hafi sterkari stöðu innan stjórnarráðsins, að skrifstofa loftslagsmála starfi þvert á ráðuneyti, hann vill öfluga Veðurstofu og loftslagsráð sem veitir stjórnvöldum virkt aðhald.
Þegar horft er sérstaklega til náttúruverndar vilja Píratar tryggja vernd miðhálendisins í þágu komandi kynslóða. Flokkurinn vill að rammaáætlun þróist í samræmi við aukna áherslu á náttúruvernd og að raforka verði í auknum mæli nýtt í grænni nýsköpun og innviði „frekar en í þágu mengandi stóriðju.“ Flokkurinn vill setja skýra stefnu um hringrásarhagkerfi til að draga úr vistspori og sporna gegn ofneyslu og sóun. Þar að auki segir í stefnu flokksins að mengandi starfsemi eigi að greiða sérstök gjöld og axla ábyrgð á myndun úrgangs.
Þá vill flokkurinn vernda og endurheimta landvistkerfi, efla skógrækt og landgræðslu bæði á landbúnaðarlandi sem og örfoka landi, auk þess sem flokkurinn vill endurskoða lög um villt dýr til að tryggja vernd þeirra. Píratar vilja auk þess undirbúa samfélagið undir óhjákvæmilegar afleiðingar loftslagsbreytinga sem felur meðal annars í sér að auka fæðuöryggi hér á landi og hvetja til fjölbreyttrar og sjálfbærrar matvælaframleiðslu.
Ný stjórnarskrá forsenda fyrir ríkisstjórnarsamstarfi
Stjórnarskrármálið hefur verið ofarlega á baugi hjá Pírötum á undanförnum misserum. Í kosningastefnu þeirra segir að Píratar vilji á næsta kjörtímabili innleiða nýja stjórnarskrá sem grundvallast á tillögum stjórnlagaráðs. Tekið er fram í kosningastefnunni að flokkurinn muni einungis taka þátt í myndun ríkisstjórnar sem skuldbindur sig til þess að kjósa um nýja stjórnarskrá á kjörtímabilinu.
Meðal þess sem áhersla var lögð á á kynningarfundinum voru varnir gegn spillingu. Píratar vilja til að mynda endurskoða siðareglur ráðherra og starfsfólks stjórnarráðsins, koma á eftirliti með þeim og innleiða viðurlög við alvarlegum brotum. Þar að auki vilja Píratar að viðurlög verði sett við rangri hagsmunaskráningu en í stefnu sinni segist flokkurinn ætla að tryggja að hagsmunaskrár valdhafa séu réttar, tæmandi og aðgengilegar.
Líkt og áður segir vilja Píratar efla eftirlitsstofnanir. „Við viljum auka fjárveitingar til héraðssaksóknara og efla einnig stofnanir á borð við Samkeppniseftirlitið, Ríkisendurskoðanda, Fiskistofu, umboðsmann Alþingis, Persónuvernd, Skattinn, Neytendastofu og endurreisa Rannsóknarstofu byggingariðnaðarins og sjálfstæðan skattrannsóknarstjóra,“ segir í kosningastefnu flokksins en þar segir einnig að flokkurinn vilji efla vernd uppljóstrara með endurskoðun á núgildandi lögum. Þá geti rannsóknir á fjárfestingaleið Seðlabankans annars vegar og spillingu í íslenskum sjávartúvegi hins vegar geti ekki beðið lengur að mati flokksins.
Vilja uppboð á aflaheimildum og allan afla á markað
„Píratar telja að sjávarauðlindin sé sameiginleg og ævarandi eign íslensku þjóðarinnar,“ eru upphafsorð þess hluta kosningastefnu Pírata sem snýr að sjávarútvegsmálum. Því vill flokkurinn að kveðið sé á um það með skýrum hætti í stjórnarskrá að íslenska þjóðin sé réttmætur eigandi sjávarauðlindarinnar.
Píratar vilja að aflaheimildir verði boðnar upp á markað til leigu og að leigugjaldið renni „að fullu til réttmæts eiganda auðlindarinnar í samræmi við. 34. gr. í tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá.“ Þar að auki vill flokkurinn gera handfæraveiðar frjálsar öllum sem stunda þær til atvinnu.
Í stefnu flokksins segir að allur afli eigi að fara í gegnum innlendan fiskmarkað. „Útgerðir með eigin vinnslu og/eða sölufyrirtæki hérlendis eða erlendis, útgerðum með vinnslu um borð o.fl. verði gert skylt að tryggja fyrstu viðkomu afla á innlendum markaði. Þannig fæst eðlilegt markaðsverð á öllu sjávarfangi.“
Styrkir í stað námslána
Halda skal áfram að færa námslánakerfið yfir í styrkjakerfi, að mati Pírata sem vilja tryggja öllum möguleika á að stunda nám án tillits til efnahags, búsetu og aldurs. „Tryggjum stúdentum viðeigandi framfærslu sem tekur mið af raunverulegum aðstæðum námsfólks þannig að þau þurfi ekki að hafa áhyggjur af framfærslu sinni,“ segir í stefnu flokksins.
Þar segir einnig að fólk af erlendum uppruna eigi að fá menntun sína og starfsréttindi viðurkennd hér á landi og að það eigi að sjá til þess að þekking nemenda af erlendum uppruna komi fram í hæfnismati, óháð móðurmáli þeirra.
Þá vilja Píratar að ríki og sveitarfélög vinni saman að því að pláss á leikskóla standi til boða strax eftir að fæðingarorlofi lýkur.
2000 nýjar íbúðar að lágmarki á ári til 2040
Að mati Pírata þarf að vinna upp íbúðaþörf með því að tryggja stofnframlög til byggingu í það minnsta 5000 íbúða. Til viðbótar við það vill flokkurinn að 2000 íbúðir að lágmarki séu byggðar á hverju ári til ársins 2040.
Píratar vilja einnig efla leigumarkaðinn. „Húsaleigulög þarf að endurskoða frá grunni með það að markmiði að tryggja réttindi leigjenda og stuðla að heilbrigðari og sanngjarnari leigumarkaði,“ segir í stefnu flokksins sem vill búa til efnahagslega hvata fyrir langtímaleigusamninga og banna tengingu verðtryggingar í leigusamningum.
Þar að auki vilja píratar skilyrða lágmarkshlutfall félagsíbúða í sveitarfélögum yfir tiltekinni lágmarksstærð.
Vilja leggja útlendingastofnun niður
„Píratar vilja nýja nálgun í málefnum innflytjenda á Íslandi. Í stað hindrana, tortryggni og andúðar þarf nálgun sem byggir á mannúð, virðingu og einlægum vilja til að taka vel á móti fólki sem vill setjast hér að,“ segir meðal annars í þeim kafla kosningastefnuskrár Pírata sem snýr að málefnum innflytjenda.
Flokkurinn vill leggja niður Útlendingastofnun og færa verkefni hennar til annarra embætta, svo sem Þjóðskrár og til sýslumanna. Að mati Pírata verður Ísland að axla ríkari ábyrgð þegar kemur að fólki á flótta, bæði með því að taka á móti fleira flóttafólki og með því að bæta móttökuferlið. Í stefnu þeirra segir að brottvísanir til Grikklands og Ungverjalands séu ólíðandi og beri að stöðva sem og brottvísanir þeirra sem hafa aðlagast hér á landi, þá sérstaklega barna.
Lífeyrisþegar verði ekki fyrir skerðingum vegna eigna
Í almannatryggingakerfinu vilja Píratar vinna að því að fjarlægja skilyrði og skerðingar og að fjárhæð örorku- og endurhæfingarlífeyris fylgi almennri launaþróun. Flokkurinn vill einnig lögfesta varanlegt frítekjumark vegna atvinnutekna öryrkja og auka þar með möguleika öryrkja til tekjuöflunar. Þar að auki vilja Píratar tryggja að eignir lífeyrisþega valdi ekki skerðingum á lífeyrisgreiðslum.
Fjölgun NPA samninga er að finna í stefnuskrá Pírata en flokkurinn vill afnema kvóta ríkisins gagnvart fjármögnun slíkra samninga og tryggja að öll sem þurfi á notendastýrðri persónulegri aðstoð að halda hafi völ á aðstoðinni. Flokkurinn telur það einnig mikilvægt að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur í heild sinni og hljóti formlegt gildi hér á landi.
Vilja koma í veg fyrir einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu
Í heilbrigðismálum vilja Píratar sterkt opinbert kerfi þar sem „[e]inkarekstur í fjölbreyttum rekstrarformum á rétt á sér en þó með þeim skilyrðum að aðgengi allra sé tryggt og að efnahagur ákvarði ekki umfang og gæði þeirrar þjónustu sem hver einstaklingur á rétt á.“ Flokkurinn segist samt sem áður ætla að „koma í veg fyrir einkavæðingu sem setur ofurgróða einkaaðila ofar heilsu landsmanna og veldur óskilvirkni í kerfinu.“ Áhersla Pírata er lögð á að opinber heilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls.
Sérstaklega skal hugað að geðheilbrigðismálum vegna COVID, að mati Pírata sem vilja tryggja fulla fjármögnun geðheilbrigðiskerfisins. Flokkurinn vill niðurgreiða sálfræðiþjónustu og viðurkenndar samtalsmeðferðir og tryggja aðgengi nemenda á öllum skólastigum að slíkri þjónustu.
Í stað núverandi refsistefnu vilja Píratar afglæpavæða neysluskammta og endurskoða refsingar vegna vímuefnabrota. Með forvörnum, fræðslu, viðhalds- og meðferðarúrræðum vilja Píratar draga úr eftirspurn eftir vímuefnum.
Kostnaður verði minni hindrun í réttarkerfinu
Sérstakur kafli í kosningastefnuskrá Pírata snýr að aðgengi að réttarkerfinu. Píratar vilja „gera einstaklingum kleift á að sækja rétt sinn og verja sig án þess að kostnaður eða flækjustig séu veruleg hindrun.“
Þessu vilja Píratar ná fram með því að endurskoða reglur um gjafsókn, koma á ráðgjafarstofu almennings, stytta málsmeðferð meiðyrðamála, einfalda ferli lögskilnaðar og setja á fót smákröfudómstól, svo dæmi séu tekin. Þá vill flokkurinn að ríkið tryggi bætur til þolenda ofbeldisglæpa óháð fjárhæð.
RÚV fari af auglýsingamarkaði
„Óháðir fjölmiðlar gegna lykilhlutverki í því að veita stjórnvöldum aðhald, miðla upplýsingum til almennings og veita vettvang fyrir upplýsta þjóðmálaumræðu. Við viljum tryggja fjölmiðlafrelsi með því að bæta réttarvernd blaðamanna, tryggja rekstrarlegt og lagalegt umhverfi fjölmiðla og auka möguleika þeirra til tekjuöflunar, meðal annars með því að taka RÚV af auglýsingamarkaði,“ segir meðal annars um málefni fjölmiðla í stefnu Pírata. Flokkurinn vill því framkvæma heildarstefnumótun til að styrkja fjölmiðla á Íslandi.
Hvað varðar Ríkisútvarpið þá vill flokkurinn að fjárframlög til stofnunarinnar séu tryggð til þess að hún geti enn sinnt innlendri dagskrárgerð, öryggishlutverki og menningar- og menntahlutverki sem og rekið fréttastofu. Að mati Pírata ætti að fjármagna starfsemi RÚV með hefðbundnum sköttum í stað nefskatts sem flokkurinn segir leggjast þyngst á þau sem minnst hafa.
Íslendingar eigi að beita sér gegn hernaðaruppbyggingu
Ekki er tekin afstaða til Evrópusambandsins og aðildarviðræðna í kosningastefnuskrá Pírata. Þar segir að flokkurinn vilji „hvorki hefja aðildarviðræður, né ljúka þeim, án þjóðaratkvæðagreiðslna þar sem fram fari hlutlaus og heildstæð kynning á kostum og göllum aðildar.“
Þar segir einnig að Íslendingar eigi að beita sér gegn hvers kyns hernaðaruppbyggingu í Norður-Atlantshafi og á norðurslóðum og að Ísland eigi að tala fyrir friði á virkan hátt innan NATO.