„Við höfum gefið út að við ráðleggjum óbólusettum ekki að ferðast og gildir það í raun einnig um börn,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir spurður hvort að óhætt sé að ferðast til útlanda með börn um þessar mundir. Hann segir þessar ráðleggingar gilda um ferðalög til allra landa nema Grænlands.
Ráðleggingarnar sem Þórólfur vísar í er að finna á vefnum COVID.is og eru eftirfarandi: „Íbúum Íslands er eindregið ráðið frá ónauðsynlegum ferðalögum til áhættusvæða vegna COVID-19 nema vera full bólusett.“ Þar sem ekki er almennt farið að bólusetja börn yngri en sextán ára á Íslandi eiga þessi varúðarorð einnig við um þau – ekki aðeins fullorðna einstaklinga.
Börn fædd árið 2005 eða síðar þurfa að fara í sýnatöku á landamærum við komuna til landsins en eru, ólíkt því sem almennt á við fullorðna óbólusetta einstaklinga, undanþegin skyldu til að framvísa neikvæðu PCR-vottorði (COVID-prófi) við komu. Misjafnt er hvernig þessu fyrirkomulagi er háttað í öðrum löndum.
„Fólk sem ferðast þarf að gæta að sýkingavörnum fyrir sig, hvort sem það er bólusett eða óbólusett, og sín börn,“ segir Þórólfur við Kjarnann. „Það eiga allir að vita hvaða sýkingavarnir þetta eru.“
Öllum sextán ára og eldri sem búsettir eru á Íslandi býðst að fara í bólusetningu gegn COVID-19. Mikil umræða er nú víða um lönd um hvort og þá hvenær eigi að hefja bólusetningu barna. Dönsk stjórnvöld hafa til að mynda ákveðið að bólusetning meðal 12-15 ára hefjist síðar á þessu ári. „Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um almenna bólusetningu barna,“ svarar Þórólfur aðspurður um stöðu þessa máls á Íslandi.
Bólusetning barna með undirliggjandi sjúkdóma á aldrinum 12-15 ára er hafin og hafa 322 einstaklingar í aldurshópnum fengið fyrri skammt bóluefnis.