Leggja þarf Útlendingastofnun niður og endurskoða löggjöf í kringum útlendingamál til þess að hægt sé að byggja nýjan grunn í málaflokknum að mati Semu Erlu Serdar formanns Solaris - hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi. Þetta er meðal þess sem kom fram í máli Semu í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni fyrr í dag.
„Því hefur verið haldið fram lengi af fólki að það sé hreinlega best að leggja niður Útlendingastofnun. Ég held að hún sé orðin háværari núna, þessi krafa, og við sem höfum barist fyrir þessu upplifum kannski að það sé verið að hlusta loksins á þessa kröfu,“ sagði Sema í þættinum.
Framferði stofnunarinnar hafi valdið því að krafan um að stofnunin sé lögð niður sé háværari nú en áður að mati Semu og nefndi hún tvö nýleg dæmi þessu til stuðnings. Annars vegar þegar hátt í tuttugu umsækjendur um alþjóðlega vernd voru sviptir allri þjónustu af Útlendingastofnun, þeir reknir úr húsnæði stofnunarinnar og matarpeningar teknir af þeim. Kærunefnd útlendingamála komst síðar að þeirri niðurstöðu að þetta hafi verið ólögmætar aðgerðir og fólkinu var veitt þjónusta á nýjan leik.
„Við skulum ekki gleyma því að fólk á flótta er skjólstæðingar Útlendingastofnunar. Útlendingastofnun á að þjónusta flóttafólk að hluta til á meðan það er á Íslandi og bíður úrlausnar sinna mála,“ sagði Sema.
Vill sérstakt ráðuneyti
Hitt dæmið sem Sema nefndi er handtaka umsækjenda um alþjóðlega vernd í húsnæði Útlendingastofnunar. „Örstuttu seinna verðum við vitni að því að tveir umsækjendur um alþjóðlega vernd eru lokkaðir á fölskum forsendum í húsnæði Útlendingastofnunar þar sem þeim er sagt að koma til þess að sækja bólusetningarvottorðin, sín sem að við setjum mikið spurningarmerki við, hvers vegna þeir sækja það til Útlendingastofnunar en ekki heilbrigðisyfirvalda. Þegar þeir koma þangað er þeim tilkynnt fyrirvaralaust að það eigi að brottvísa þeim núna þar sem þeir eru orðnir bólusettir. Það kemur til átaka, þeir eru beittir ofbeldi af lögregluyfirvöldum, af starfsfólki Útlendingastofnunar. Þeir eru frelsissviptir meðal annars og síðan sendir úr landi, handteknir og sendi úr landi án nokkurs fyrirvara, einn eftir að hafa farið á bráðadeild landspítalans eftir meðferðina.“
Spurð að því hvernig hún myndi vilja að innflytjendamálum yrði háttað sagði Sema að byggja þyrfti upp nýjan grunn. „Fyrsta skrefið er að leggja niður Útlendingastofnun. Annað skrefið er að skoða alla löggjöf í kringum þetta. Ég persónulega myndi vilja sjá sérstakt ráðuneyti. Það er það sem hefur verið tekið upp víða í kringum okkur. Þá erum við með ráðuneyti, jafnvel einhverjar stofnanir þarna undir,“ sagði Sema. „Við þurfum að byrja upp á nýtt á nýjum grunni. Það er ekkert mál að fara í slíka vegferð.“
Flóttafólki muni fjölga á næstu árum
Að hennar mati er almenningur ósáttur við þá stefnu sem stjórnvöld hafa rekið í málaflokknum. „Við erum í raun lítið samfélag. Við erum og við reynum að vera opið samfélag og við sjáum það til dæmis að almenningur er yfirleitt mjög ósammála þeirri stefnu sem að stjórnvöld eru að reka. Það eru ítrekuð mótmæli, það eru afhentar hátt í 50 þúsund undirskriftir til stuðnings einstaklings sem fékk ekki vernd á íslandi. Við erum að leggja okkar af mörkum til þess að við gerum betur,“ sagði Sema.
Hún benti á að aldrei hafa fleiri verið á flótta en nú og að flóttafólki muni fjölga á næstu árum. Því beri Íslandi, líkt og öðrum þjóðum, siðferðisleg skylda til þess að leggja sitt af mörkum, að mati Semu Erlu Serdar formanns Solaris - hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi.