„Það liggur fyrir, samkvæmt Grænbókinni og bestu upplýsingum sem við höfum, að það þarf hið minnsta að tvöfalda orkuframleiðsluna til að ná fram orkuskiptum,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í viðtali við Morgunblaðið í dag.
Til að standa undir skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum þurfi 650 MW á næstu átta árum eða til ársins 2030. Til samanburðar má benda á að Kárahnjúkavirkjun, langstærsta virkjun landsins, er 690 MW að afli. Nú eru 300 MW þegar „í pípunum“ segir ráðherrann, „þannig að meira þarf að koma til.“
„Í pípunum“ er m.a. Hvammsvirkjun í Þjórsá, sem yrði um 95 MW. Orkustofnun hefur sent Landsvirkjun drög að ákvörðun sinni um virkjanaleyfi framkvæmdarinnar og samkvæmt því sem Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, hefur sagt í fréttum er leyfið svo gott sem komið í hús þótt væntanlega fylgi því einhver skilyrði.
Hvammsvirkjun er ein af þremur virkjunum sem fyrirtækið áformar í neðri hluta Þjórsá. Hún yrði í byggð og neðsta virkjunin í umfangsmiklu kerfi virkjana ofar á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu. Virkjunarkosturinn hefur frá upphafi verið undeildur, íbúar í nágrenninu hafa mótmælt harðlega og sagt að nóg sé komið af virkjunum í þeirra heimbyggð. Hinir tveir virkjunarkostir Landsvirkjunar neðar í ánni, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun, voru einnig í nýtingarflokki þingsályktunartillögu þriðja áfanga rammaáætlunar, en færðust í meðförum þingsins í biðflokk.
„Óhætt er að segja að tillögur um flokkun Holtavirkjunar og Urriðafossvirkjunar í nýtingarflokk hafa vakið reiði í nærsamfélaginu“ enda um að ræða „stórar virkjunarhugmyndir í byggð,“ sagði í meirihlutaáliti umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis sem fjallaði um þingsályktunartillöguna í vor. Í álitinu sagði einnig að mikilvægt væri að horfa til neðri hluta Þjórsár „sem eina heild“ og því beint til ráðherra og verkefnisstjórnar 5. áfanga rammaáætlunar að horfa til „allra þriggja virkjanakosta“ í neðri hluta Þjórsár við það mat. Hvaða þýðingu þau orð hafa er algjörlega óljóst á þessum tímapunkti.
Landsvirkjun segist eiga von á, þrátt fyrir að virkjanaleyfi Hvammsvirkjunar og framkvæmdaleyfi séu ekki staðfest, að hafist verði handa við byggingu virkjunarinnar á næsta ári.
Í viðtali við Morgunblaðið í dag er Guðlaugur Þór spurður út í vindorkuáform þau sem uppi eru víðs vegar um landið, á að minnsta kosti þrjátíu stöðum. Um yrði að ræða í kringum 1.000 vindmyllur, ef þeir yrðu allir að veruleika, líkt og Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, rakti nýlega. „Verði þessi sýn að veruleika ættum við engu umhverfisslysi til að jafna úr Íslandssögunni. Hér væri reyndar ekki um slys að ræða, því myllurnar yrðu reistar af ásetningi, með fullri vitneskju um hin víðtæku umhverfisáhrif,“ sagði Bjarni.
Gagnrýni úr vissum ranni
Blaðamaður Morgunblaðsins orðar spurningu sína til ráðherrans með þeim hætti að „úr vissum ranni“ sé töluverð andstaða við vindorku. Þar hlýtur hann að vera að vísa til heimamanna, sem hafa verið helstu andstæðingar slíkra áforma m.a. í Norðurárdal, í Hvalfjarðarsveit og víðar.
„Allir þessir orkukostir eru umdeildir,“ svarar Guðlaugur. „Svo verður alltaf og ég tek ekki afstöðu til þess hvaða leiðir menn fara. Menn þurfa aðeins að sjá til þess að græna orkan sé fyrir hendi. Þeir sem töluðu mest með vindorku fyrir ári eru mest á móti henni núna. Og ég ætla ekki að spá um hvernig þessi mál þróast. Það er eðlilegt að málin séu umdeild. Við þurfum að velja þá kosti sem okkur finnst bestir og það gerist ekki án umræðu. Það er harla ólíklegt að við sjáum enga vindorku hér á Íslandi og ég er sammála því að sumir staðir koma alls ekki til greina. Held við getum verið sammála um það. Það væri svolítið skrítið að komast að þeirri niðurstöðu að enginn staður á Íslandi kæmi til greina fyrir vindorku.
Tveir virkjunarkostir Landsvirkjunar, Búrfellslundur og Blöndulundur eru langt komnir í undirbúningi og í svörum Landsvirkjunar við fyrirspurn Kjarnans nýverið, um hvort að Búrfellslundur verði m.a. settur fram fyrir Hvammsvirkjun, sagði að unnið væri að báðum þessum virkjanakostum samhliða. Báðir vindorkukostir Landsvirkjunar eru í nýtingarflokki þriðja áfanga rammaáætlunar sem samþykktur var á Alþingi í vor.
„Svo höfum við verið langt á eftir öðrum þegar kemur að vindorkunni,“ segir Guðlaugur Þór við Morgunblaðið. „Þar hefur ekki verið nein sérstök löggjöf fyrir utan rammaáætlun. Nú eru starfandi þrír vinnuhópar; einn er að bera saman laga- og reglugerðarumhverfið í Noregi, Danmörku, Skotlandi og á Nýja-Sjálandi, annar að kanna hvar hægt er að reisa vindorkuver á hafi og sá þriðji mun leggja fram tillögur um hvernig laga-og reglugerðarumhverfi við eigum að hafa utan um vindorkuna. Þannig að svona var staðan þegar við tókum við fyrir ári. Það hefur náðst mikill árangur á skömmum tíma, en betur má ef duga skal.“