Umhverfismatsskýrsla EP Power Minerals um áformaða námuvinnslu á Mýrdalssandi „uppfyllir að mínu mati ekki eðlilega kröfu um valkostagreiningu,“ segir Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, við Kjarnann. Í umsögn við skýrsluna sagði að sveitarstjórnin setti sig ekki upp á móti efnistöku á Mýrdalssandi, en eigi hún að verða að veruleika „er þó ljóst að skipulag hennar getur ekki orðið eins og því er lýst í umhverfismatsskýrslunni“.
Sveitarstjórnin sagðist mælast til þess að fyrirkomulag starfseminnar yrði endurskoðað og ráð gert fyrir því að vikrinum verði skipað af ströndinni sunnan við námusvæðið. Sveitarfélagið lýsti sig ennfremur reiðubúið til viðræðna um hafnargerð sem gæti, að því er fram kom í umsögninni, opnað á möguleika fyrir annars konar atvinnustarfsemi.
Einar Freyr segir við Kjarnann að sveitarfélagið hafi nú fundað með fulltrúum EP Power Minerals vegna málsins og komið því á framfæri sem fram kom í umsögn sveitarfélagsins. „Í því felst ekki að óformlegar eða formlegar viðræður um höfn í Vík séu hafnar,“ tekur hann fram.
Það sé því ekki tímabært að ræða mögulega kostnaðarskiptingu vegna hafnargerðar „en það sem sveitarfélagið mun þrýsta á um er að raunveruleg valkostagreining fari fram í umhverfismati“.
Í umhverfisskýrslu framkvæmdaaðila, sem kynnt var á vef Skipulagsstofnunar í haust, kom fram að til stæði að vinna vikur við Hafursey á Mýrdalssandi, jafnvel til næstu hundrað ára. Efnið yrði flutt um 170 kílómetra leið til Þorlákshafnar þar sem það yrði sett um borð í skip og flutt til Evrópu og notað sem íblöndunarefni í sement.
Svo mikil yrði vinnslan að gert er ráð fyrir því að fullfermdir flutningabílar þyrftu að aka frá námunni og til Þorlákshafnar á fimmtán mínútna fresti allan sólarhringinn. Og svo tómir sömu leið til baka.
Sveitarstjórn Mýrdalshrepps var meðal þeirra fjölmörgu sem lýstu áhyggjum af þessum miklu flutningum sem þyrftu að fara um þorpið á vík og nokkra aðra þéttbýliskjarna til viðbótar áður en að skipshlið í Þorlákshöfn yrði komið.
Rangar ályktanir dregnar
„Sú ályktun að starfsemin hafi óverulega áhrif á útivist og ferðamennsku eins og hún er skipulögð er röng,“ benti Einar Freyr á í umsögn Mýrdalshrepps. „Þjóðvegurinn er lífæð ferðamennsku á Íslandi og því er ljóst að sú umferð sem starfsemin gerir ráð fyrir mun hafa veruleg neikvæð áhrif á ferðamennsku og almenna umferð á þjóðveginum.“
Eins væri það mat sveitarstjórnar að áhrif á umferð væru verulega neikvæð og „að þær ályktanir sem dregnar séu í skýrslunni lýsi miklu skilningsleysi á aðstæðum á þjóðveginum á Suðurlandi“. Áhrif svo umfangsmikilla landflutninga á hljóðvist í þéttbýli væru enn fremur verulega neikvæð.
Sveitarstjórn Mýrdalshrepps telur eðlilegt að horft sé til mögulegra áhrifa starfseminnar á atvinnulíf og nærsamfélagið í ljósi þess rasks sem verður á umhverfi. „Skipulag starfseminnar sem umhverfismatsskýrslan gerir ráð fyrir býður upp á að fá, ef nokkur, störf verði raunverulega staðsett á svæðinu.“
Með því að skipa vikrinum upp af ströndinni við Vík mætti styðja við atvinnulífið á svæðinu en einnig koma í veg fyrir veruleg neikvæð áhrif á umferð, hljóðvist og ferðamennsku með því að flytja vikurinn stystu leið með undirgöngum þar sem þvera þyrfti þjóðveginn. „Með slíku fyrirkomulagi væri tryggt að starfsemin skilaði sér í atvinnuuppbyggingu í heimabyggð og verðmætasköpun á efnistökusvæðinu,“ sagði í umsögn Mýrdalshrepps. Enn fremur væri slíkt fyrirkomulag mun frekar í samræmi við tilgang starfseminnar um að gera ferlið sem umhverfisvænast.
Spurður um hvers konar höfn kæmi til greina á þessum slóðum segir Einar Freyr að ekki hafi verið aflað upplýsinga um hvernig höfn þyrfti að gera eða hver kostnaðurinn yrði. „Það eru atriði sem eðlilegt væri að kafa dýpra í við valkostagreiningu,“ segir hann við Kjarnann.
Er það skýr afstaða sveitarstjórnar að ef efninu verður ekki skipað af ströndinni sunnan námusvæðisins þá verði ekkert framkvæmdaleyfi gefið út?
„Hvað varðar afstöðu sveitarstjórnar um mögulega útgáfu framkvæmdaleyfis þá er í mínum huga ekki tímabært að ræða það fyrr en álit Skipulagsstofnunar á umhverfismatsskýrslunni liggur fyrir,“ svarar Einar Freyr.
Nú þegar allar umsagnir um skýrsluna eru komnar til Skipulagsstofnunar þarf framkvæmdaaðili, EP Power Minerals, að svara þeim og bregðast við þeim í endanlegri matsskýrslu. Síðan mun Skipulagsstofnun gefa út álit sitt á framkvæmdinni.