Samtök ferðaþjónustunnar segja „áhugavert“ að við umhverfismat áformaðrar námuvinnslu á Mýrdalssandi virðist eingöngu miðað við að gestir sjái sem minnst af námunni sjálfri en lítið tillit tekið til þess að eitt helsta aðdráttarafl ferðamanna sem velja Ísland sem áfangastað er ósnortin náttúra, fámenni og víðátta. „Óhætt er að segja að ryk og stöðug umferð vörubíla sé algjör andstæða við þá upplifun.“
Þetta er meðal þess sem fram kemur í harðorðri umsögn samtakanna við umhverfismatsskýrslu EP Power Minerals, þýska fyrirtækisins sem vill vinna Kötluvikur undir Hafursey á Mýrdalssandinn næstu öldina eða svo.
Miðað við áætlanir um efnistöku, sem fram eru settar í skýrslunni sem verkfræðistofan EFLA vann, er ætlunin að 30 flutningabílar, hver um sig um 30-35 tonn að þyngd, keyri milli Mýrdalssands og Þorlákshafnar 280 daga á ári. Um 170 kílómetrar eru milli þessara staða.
Ætlunin er að keyra efni allan sólarhringinn á korters fresti, en ein ferð er skilgreind sem fullur bíll til Þorlákshafnar og tómur til baka. Því munu stórir flutningabílar fara um veginn á 7-8 mínútna fresti og bætast við þann fjölda flutningabíla sem fer um þjóðveginn í að flytja fisk og aðrar vörur.
„Ef horft er til áætlaðar efniskeyrslu, fjölda og þyngd bíla, ástand vegakerfisins og fjárfestingu ríkisins í viðhaldi á vegakerfinu er augljóst að áhrif efnistökunnar á vegakerfið eiga eftir að verða verulega neikvæð,“ skrifar Ágúst Elvar Bjarnason, verkefnisstjóri hjá Samtökum ferðaþjónustunnar, í umsögninni. „Vegakerfi sem nú þegar er í döpru ástandi og fjármagnað töluvert undir áætlaðri fjármögnunarþörf.“
Samkvæmt umhverfismatsskýrslu Eflu mun efnisflutningur hafa „nokkuð neikvæð“ áhrif á umferð. SAF bendir á að flutningnum fylgi aukið álag á vegi, aukinn umferðarþungi og neikvæð áhrif á umferðaröryggi sem nú þegar sé ekki nægilega gott á þessari leið. „Leiðin er nú þegar einn vinsælasti ferðamannavegur landsins enda nokkrir af vinsælustu áfangastöðum landsins á leiðinni. Í dag annar vegakerfið milli Selfoss og Mýrdalshrepps varla þeirri umferð sem um hann fer.“
Akstursleið flutningabílanna mun liggja í gegnum sjö sveitarfélög og fjóra þéttbýliskjarna. Í öllum þessum þéttbýliskjörnum, líkt og í dreifbýlinu við akstursleiðina, hefur öflug ferðaþjónusta byggst upp síðasta áratuginn, segir í umsögn SAF: Meðal annars sé fjöldi gististaða þétt við þjóðveginn. „Óvíst er hver áhrif efnisflutninga munu verða á þessa uppbyggingu, önnur en neikvæð.“
Þá segja samtökin ljóst að íbúar og gestir við flutningsleiðina alla, frá gatnamótum á Mýrdalssandi að Þorlákshöfn, geti búist við truflun í hvert sinn sem vörubíll fer hjá. „Jafnvel þó að keyrt verði hægt í gegnum þéttbýli eru vörubílar af þessari stærð fyrirferðarmiklir í umferðinni og valda bílstjórum minni bíla óöryggi.“
Í dag fara nokkur hundruð gestir á dag í skipulagðar ferðir í íshella við Kötlujökul. Samkvæmt umhverfismatsskýrslu EPPM er „ólíklegt“ að þessir gestir muni verða fyrir áhrifum af efnistökunni enda yrði námusvæðið ekki sýnilegt frá jöklinum.
„Þá er augljóst að höfundar umhverfismatsskýrslunnar þekkja lítið til staðhátta á svæðinu,“ segir SAF. Þegar gengið er upp á Kötlujökul við Moldheiði blasi fyrirhugað námusvæði við. Svæðið mun einnig sjást vel frá Þjóðvegi 1, frá ánni Skálm, ofan af Höfðabrekkuheiðum á leið inn í Þakgil og ofan af Hjörleifshöfða. Hluti landeigenda hyggi einmitt á uppbyggingu ferðaþjónustu, m.a. við og á Hjörleifshöfða og allar líkur á að gestir þeirra horfi beint yfir efnisvinnsluna. „Að þessu sögðu draga samtökin í efa þau orð [framkvæmdaaðila] að áhrif efnistökunnar á ferðaþjónustu á svæðinu yrðu óveruleg.“
Samtök ferðaþjónustunnar eru svo allt annað en ánægð með það hvernig fjallað er um atvinnugreinina í umhverfismatsskýrslunni. Í henni er því haldið fram að ferðaþjónusta á svæðinu sé ekki heilsársatvinnugrein. „Samtökin vilja biðja skýrsluhöfunda um að kynna sér málin betur áður en slíku er haldið fram enda er hún fyrir margt löngu orðin að heilsársatvinnugrein“ og sé stærsta atvinnugreinin í Mýrdalshreppi.
„Ferðaþjónusta í Vík mun sannarlega finna fyrir áhrifum af flutningunum enda flutningsleiðin í gegnum bæinn,“ benda samtökin ná. Tvö hótel séu þétt við veginn og það þriðja í einungis 150 metra fjarlægð. Svipaða sögu sé að segja af öðrum þéttbýlisstöðum sem flutningsleiðin liggur um.
Ljóst er að mati SAF að efnistakan sjálf muni hafa neikvæð áhrif á landnámsjörðina Hjörleifshöfða og þá ferðaþjónustu sem þar er stunduð. „Neikvæðust verða þó áhrif af flutningum en þeir fara í gegnum sjö sveitarfélög og 4 þéttbýliskjarna, framhjá fjölda gisti- og veitingastaða með tilheyrandi truflun, sliti á vegakerfi og neikvæðum áhrifum á umferðaröryggi.“
Erum við tilbúin í veðmál?
Suðurland er eitt mest heimsótta svæði landsins meðal ferðamanna og hefur ferðaþjónusta vaxið gríðarlega á svæðinu síðasta áratuginn. Heildarskatttekjur þessara sjö sveitarfélaga sem akstursleiðin liggur í gegnum af ferðaþjónustu árið 2019 voru um einn og hálfur milljarður.
Áætlað er að 20 störf skapist við efnistöku á Mýrdalssandi, 10 störf í Þorlákshöfn og 105 störf tengd akstri og flutningum. „Erum við sem áfangastaður tilbúin að veðja þeim góða árangri í ferðaþjónustu á svæðinu á að neikvæð áhrif efnistökunnar verði svo lítil að þau komi ekki niður á öðrum atvinnugreinum?“ spyr Ágúst Elvar í lok umsagnar SAF. „Erum við tilbúin að veðja óverulegum tekjum tveggja sveitarfélaga fyrir atvinnuuppbyggingu síðustu ára í öllum sjö sveitarfélögunum?“