Dómari við dómstólinn í Windhoek, höfuðborg Namibíu, ákvað fyrr í þessum mánuði að sakamálin tvö, sem rekin hafa verið gegn einstaklingum og fyrirtækjum þar í landi vegna meintra mútugreiðslna, svika, spillingar, peningaþvættis og skattaundanskota í tengslum við kvótaviðskipti Samherja í landinu, verði rekin saman sem eitt mál fyrir dómstólum.
Málin tvö sem nú hafa verið sameinuð snúa að mestu að sömu einstaklingunum, namibískum áhrifamönnum sem hafa flestir setið í gæsluvarðhaldi allt frá því málið kom upp á yfirborðið í umfjöllunum Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og fleiri miðla í nóvember 2019, sem unnar voru með aðkomu WikiLeaks, sem birti frumgögn málsins.
Þau hafa verið kölluð Fischor-málið og Fishrot-málið, í umfjöllunum namibískra fjölmiðla. Fishcor-málið snýr að þeim þætti málsins er varðar meinta misnotkun namibískra stjórnmálamanna og annarra ákærðra á aðstöðu sinni, til þess að hagnast sjálfir á úthlutun aflaheimilda namibíska ríkisins.
Í Fishrot-málinu, sem einnig hefur verið kallað Namgomar-málið, hefur hins vegar verið undir milliríkjasamningur sem gerður var á milli Namibíu og Angóla um hrossamakrílkvóta. Ríkissaksóknari Namibíu hefur sagt samninginn svikamyllu sem setta hafi verið upp með virkri þátttöku Samherja.
Engir Íslendingar né Samherjafélög á meðal sakborninga
Í frétt á vef namibíska blaðsins Namibian sem birtist fyrir helgi segir að þeir tíu einstaklingar auk alls 18 lögaðila sem bornir eru sökum í málinu, standi frammi fyrir 42 ákæruliðum.
Í ákæruskjali sem Kjarninn hefur undir höndum má sjá að á meðal ákærðra einstaklinga og félaga í málinu eru ekki Íslendingarnir þrír sem Martha Imalwa, ríkissaksóknari Namibíu, hefur sagt að hún ætli sér að ákæra, né heldur namibísku félögin sem þeir stýrðu fyrir hönd Samherja.
Ríkissaksóknarinn hefur nýlega fullyrt að ekki sé loku fyrir það skotið að þáttur íslensku ríkisborgaranna verði tekinn upp í öðrum réttarhöldum síðar, en ekki hefur tekist að birta þeim ákæru vegna málsins.
Fram kemur í frétt Namibian að dómari í málinu hafi veitt sakborningum frest til 20. janúar 2022 til þess að undirbúa svör við löngum spurningalista sem saksóknari hefur lagt fyrir sakborningana og því virðist ljóst að málið mun lítið hreyfast það sem eftir lifir árs.
Þriðju áramótin í gæsluvarðhaldi
Í umfjöllun Namibian um málið segir einnig frá því að búist sé við því að sakborningarnir í málinu, sem flestir hafa verið í gæsluvarðhaldi í hátt í tvö ár og eru að óbreyttu að fara að sitja sín þriðju áramót í röð á bak við lás og slá án þess að hafa verið fundnir sekir um glæpina sem þeim er gefið að sök að hafa framið, muni margir hverjir reyna að fá lausn gegn tryggingu.
Það mun eiga við um alls sjö af þeim tíu sem sitja í varðhaldi. Umsóknir þeirra um lausn gegn tryggingu verða teknar fyrir í nóvembermánuði.