„Þessi mikla umferð vikurflutningabíla um vegi og þéttbýli allt frá Mýrdalssandi að Þorlákshöfn mun hafa í för með sér aukna slysahættu, verri loftgæði auk óþæginda vegna hávaða. Hér er ekki verið að tjalda til einnar nætur heldur væri hér um að ræða flutninga sem mögulega gætu staðið yfir áratugum saman.“
Þetta er meðal þess sem fram kemur í umsögn Umhverfisstofnunar um áformað vikurnám fyrirtækisins EP Power Minerals við Hafursey á Mýrdalssandi. Vikurinn á að nota sem íblöndunarefni í sementsframleiðslu, aðallega í Evrópu.
Umhverfisáhrif sjálfrar efnistökunnar yrðu allnokkur en framkvæmdin er að mati Umhverfisstofnunar nokkuð óvenjuleg að því leyti að áhrifin yrðu langmest og að sumu leyti óafturkræf vegna efnisflutninganna til Þorlákshafnar. Þeir miklu efnisflutningar sem eru fyrirhugaðir myndu kalla á nauðsynlegar framkvæmdir á hringveginum.
Framkvæmdin felst í því að á næstu 100 árum verði unnt að taka 146 milljónir rúmmetra af vikri við Hafursey. Teknir yrðu 286 þúsund rúmmetrar fyrsta árið en aukið á fimm árum í 1,43 milljónir m3 á ári sem eftir það yrði árlegur útflutningur. Ekið yrði með efnið á stórum flutningabílum til Þorlákshafnar og til að koma svo miklu efni þangað þyrftu bílarnir að aka fullfermdir á korters fresti allan sólarhringinn frá Mýrdalssandi og svo tómir til baka.
Í umsögn sinni um umhverfismatsskýrslu framkvæmdaaðila beinir Umhverfisstofnun sjónum sínum m.a. að þessum miklu og fordæmalausu þungaflutningum. Í henni kemur fram að lengi hafi verið ljóst að áhrif ýmissa framkvæmda sem hafa í för með sér aukna umferð flutningabíla hafi verið gróflega vanmetin þegar komi að vegakerfi landsins. „Þungir bílar eru ráðandi þegar kemur að niðurbroti á burðarlagi vega,“ bendir stofnunin á. „Fullhlaðinn sex öxla vörubíll slítur burðarlagi á við 20-30 þúsund fólksbíla.“ Að mati Umhverfisstofnunar eru löngu tímabært að þessi áhrif verði metin og á það sérstaklega við þá framkvæmd sem hér um ræðir þar sem áhrif verða að mestu leyti utan skilgreinds áhrifasvæðis námunnar á Mýrdalssandi og verður í raun á Hringvegi 1 frá Mýrdalssandi að hringtorgi við Hveragerði og þaðan um Ölfus suður að Þorlákshöfn.
Víða eru þjóðvegir á Íslandi að stofni til burðarlitlir vegir sem hafa verið endurbættir ítrekað sem í raun eru aðgerðir sem voru nægjanlegar á sínum tíma. Síðan strandsiglingar svo gott sem lögðust af hefur álag á vegina aukist ár frá ári og tekið stökk þegar nýjar greinar bætast við eins og t.d. laxeldi þar sem nauðsynlegt er að koma vörunni á markað sem fyrst.
Vegir víða stórskemmdir eftir þungaflutninga
Í dag má víða sjá vegi sem eru stórskemmdir eftir þungaumferð sem þeim vegum var engan veginn ætlað að bera, segir í umsögn Umhverfisstofnunar. Vegna aukinna fiskflutninga megi t.d. segja að hluti Snæfellsvegar á Mýrum sé stórskemmdur og að líkindum nánast ónýtur þar sem ástandið er verst. Sama megi segja um Vestfjarðarveg um Saurbæ og Dali. „Vegir eru víða það aflagðir að djúp hvörf myndast og vegurinn afvatnar sig sig ekki. Þetta eykur verulega slysahættu á vegaköflum sem eru hvað verstir.“ Stofnunin telur ekki hægt að ráða bót á þessum vegum heldur þurfi nýframkvæmdir til.
„Umhverfisstofnun telur að fjalla þurfi um þessi áhrif sem fela í sér verulegan kostnað fyrir samfélagið auk þeirra umhverfisáhrifa sem felast í efnistöku mikið stærri í sniðum og öðruvísi en gert hefur verið.“
Ekki kemur til greina að mati stofnunarinnar að hægt verði að aka með vikurinn um þéttbýlið í Vík á núverandi vegi. Því má telja ljóst, segir í umsögninni, að forsenda þessara flutninga er að lagður verði nýr vegur um Mýrdal. Því telur Umhverfisstofnun að fjalla eigi um umhverfisáhrif nýs vegar um Mýrdal og vegagerð um Hringveg undir Eyjafjöllum sem teljast vera hluti og forsenda umhverfisáhrifa efnistöku á Mýrdalssandi. „Ef einungis er ætlunin að skoða námuna sem slíka án afleiddra áhrifa á jarðmyndanir, landslag, samfélög og umferðaröryggi þá er að mati Umhverfisstofnunar verið að líta framhjá þeim miklu og óafturkræfu áhrifum sem fylgja munu efnistöku á Mýrdalssandi.“
Vegur um Dyrhólaós hefði neikvæð áhrif á verndargildi
Í umhverfismatsskýrslunni er bent á að stefnt sé að því að gera göng í gegnum Reynisfjall og ef það verði að veruleika yrði efnisflutningurinn í gegnum þau. Umhverfisstofnun bendir hins vegar á að ef göngin verði að veruleika muni vegurinn að öllum líkindum liggja um Dyrhólaós. Að mati stofnunarinnar mun sú veglagning hafa neikvæð áhrif á verndargildi óssins, Loftsalahellis, Reynisdranga og Reynisfjalls sem eru svæði á náttúruminjaskrá.
Umhverfisstofnun gerir athugasemdir við framsetningu nokkurra þátta í umhverfismatsskýrslunni. Í henni er t.d. tekið fram að loftgæði framkvæmdarinnar séu metin „óverulega neikvæð“ m.a. vegna þess að ábreiða verði sett yfir farminn á hverjum vörubíl. Hér er ekki ætlunin að ganga lengra en lög og reglur segja til um, líkt og ætla má, og bendir stofnunin á að nú þegar séu í umferðarlögum ákvæði um að hefta skuli fok jarðefna af vörubílum með yfirbreiðslu.
Mestu áhrif af þessum flutningum á loftgæði yrðu hins vegar frá vörubílunum sjálfum, útblæstri þeirra, t.d. á sóti og nituroxíð samböndum en einnig efnisögnum frá sliti á bremsuborðum og dekkjum. Einnig myndu flutningar auka uppþyrlun vegryks og stuðla þannig að aukinni svifryksmengun, að mati stofnunarinnar.
„Stórir bílar eru mun mikilvirkari í að þyrla upp vegryki heldur en litlir,“ segir í umsögninni. „Þessir miklu efnisflutningar fara í gegnum nokkra þéttbýlisstaði og því viðbúið að loftmengun á þeim stöðum muni aukast.“ Það er því mat stofnunarinnar að áhrif efnisflutninga á loftgæði í íbúðabyggð á flutningsleiðinni verði ekki óverulega neikvæð, líkt og framkvæmdaaðili metur það, heldur nokkuð neikvæð til talsvert neikvæð.
Í umhverfismatsskýrslunni kemur fram að árlega muni kolefnislosun minnka um 800 milljón kg CO2 ígilda vegna steypuframleiðslu þegar búið sé að taka losun vegna flutninga með í reikninginn, þar sem vikur af Mýrdalssandi mun koma í stað sementsgjalls,
Umhverfisstofnun telur þetta misvísandi þar sem í skýrslunni kemur fram að nú þegar sé notuð kolaaska sem íblöndunarefni í stað sementsgjalls og því þegar búið að ná þessum loftslagsávinningi. Framboð af kolaösku muni hins vegar dragast saman á næstu árum eða áratugum þar sem stefnt sé að því að loka kolaorkuverum m.a. í Þýskalandi. „Vikurinn frá Mýrdalssandi er þó ekki eina hugsanlega hráefni sem gæti leyst kolaöskuna af hólmi,“ segir í umsögn Umhverfisstofnunar.
Vinnsla á nýju efni er ekki í anda hringrásarhagkerfisins, þegar hægt er að nýta efni sem nú þegar fellur til í annarri framleiðslu. „Með notkun efnis sem fellur til nær framleiðslustað lokavörunnar má þannig bæði nýta úrgang og draga verulega úr efnisflutningum,“ stendur í umsögninni. „Þar sem forsenda efnistökunnar er að vikurinn verði nýttur í stað kolaflugösku er rétt að benda á að nýting þess efnis sem nú þegar fellur til í Evrópu en er ef til vill ekki endurnýtt í dag heldur urðað, fellur betur að stefnu stjórnvalda hérlendis sem og innan Evrópusambandsins um hringrásarhagkerfi og auðlindanýtingu.“ Nefnir stofnunin í þessu sambandi efni sem falla til við brennslu heimilissorps í Evrópu og timburs sem í dag er urðað en væri mögulega hægt að nota.
Ekki minnkuð kolefnislosun
Námuvinnslan á Mýrdalssandi miðar að því að vinna staðgönguefni fyrir flugösku. Efnið getur virkað sem heppilegt óbrennt íblöndunarefni í sementsgjall en „nokkuð vel er í lagt að fullyrða að verkefnið snúist um að „minnka kolefnislosun“ eins og það er orðað í skýrslunni þar sem það snýr ekki að því að minnka losun heldur fremur að viðhalda núverandi losun frá sementsframleiðslu sem á sama tíma eykur losun á Íslandi,“ segir Umhverfisstofnun.
Í matsskýrslunni eru einungis metin áhrif á losun á heimsvísu en ekki metin neikvæð áhrif hvað varðar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum. „Engin vafi er á því að þeir efnisflutningar sem rætt er um í skýrslunni muni hafa áhrif til aukningar losunar hér á landi,“ segir Umhverfisstofnun því losun gróðurhúsalofttegunda vegna vikurflutninga með vörubílum frá Mýrdalssandi til Þorlákshafnar kæmi fram í losunarbókhaldi Íslands.
Stofnunin telur að loftslagsávinningur sem er ætlað að koma fram í öðru landi gæti ekki talist sem rökstuðningur fyrir umtalsverðum umhverfisáhrifum á Íslandi nema þá að fyrir liggi alþjóðlegir samningar um slíkt.
Taka verði svo með í reikninginn þau umhverfisáhrif sem óhjákvæmilega munu fylgja efnistöku og raski vegna vegagerðar sem þessir flutningar munu kalla á. „Svona miklir efnisflutningar eiga að mati Umhverfisstofnunar einungis að fara fram á skilgreindum námuvegum þar sem ekki er blandað saman efnisflutningum og almennri umferð.“