Sósíalistaflokkurinn rekur framboðsbaráttu sína í Reykjavík undir slagorðinu „Sanna Reykjavík“ og snýr þannig upp á nafn oddvitans Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, sem verið hefur eini borgarfulltrúi flokksins undanfarin fjögur ár og raunar eini kjörni fulltrúi Sósíalistaflokksins á landsvísu.
Flokkurinn fékk 6,4 prósent atkvæða í Reykjavík í síðustu sveitarstjórnarkosningum og er á svipuðu reki í skoðanakönnunum nú. Samkvæmt nýjustu kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar frá 3. maí er flokkurinn með 6,7 prósent fylgi og fengi einn borgarfulltrúa kjörinn, en þó þyrfti fylgið ekki að verða mikið hærra til þess að annar maður á lista flokksins næði kjöri, ásamt oddvitanum Sönnu.
Á vefsíðu flokksins má sjá ýmsar áætlanir og stefnur sem flokkurinn vill hrinda í framkvæmd í Reykjavík í komandi kosninga og tók Kjarninn það helsta sem þar má finna saman.
Vilja byggja 3.000 félagslegar íbúðir um alla borg
Sósíalistaflokkurinn vill að borgin sjálf ráðist í stórátak í því að byggja húsnæði fyrir lágtekjufólk og vilja að borgin byggi 3.000 félagslegar íbúðir, einkum á þeim svæðum þar sem lítið er af félagslegu húsnæði í dag. Í því samhengi nefnir flokkurinn Melana og Hagana í Vesturbænum, Fossvoginn og Laugarásinn.
Sósíalistaflokkurinn vill að sveitarfélögum verði tryggðir sterkari tekjustofnar og vilja beita sér fyrir því að samstaða náist á milli sveitarfélaga landsins um að stórauka tekjur sveitarfélaga með því að leggja útsvar ofan á fjármagnstekjur. Flokkurinn segir að með þessu móti hefðu útsvarstekjur Reykjavíkurborgar verið um 7 milljörðum meiri árið 2020.
Einnig vill flokkurinn endurvekja aðstöðugjald á fyrirtæki, veltutengdan fyrirtækjaskatt sem rann til sveitarfélaga, en hann var aflagður í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar. Þessu máli vill Sósíalistaflokkurinn að sveitarfélög landsins beiti sér sameiginlega fyrir gegn ríkisvaldinu. Þá vill flokkurinn sömuleiðis að sveitarfélög hefji viðræður við ríkið um að 10 prósent af áfengisgjaldi renni til sveitarfélaga, fyrir nauðsynlega þjónustu við þau sem glíma við áfengis- og vímuefnavanda.
Í mennta- og barnamálum segir Sósíalistaflokkurinn að þar sem börn hafi engar tekjur eigi þau ekki að greiða nein gjöld og vill flokkurinn að menntun á öllum skólastigum verði gjaldfrjáls og skólamáltíðir verði ókeypis. Flokkurinn vill einnig að börnum af erlendum uppruna verði tryggð bæði íslenskukennsla og móðurmálskennsla.
Allri útvistun verði hætt
Sósíalistaflokkurinn er með það í stefnuskrá sinni að „láglaunastefna verði lögð af í rekstri sveitarfélaga“ og allri útvistun verkefna til einkaaðila hætt, „starfsfólk vinni beint fyrir sveitarfélagið“. „Útvistanir leiða eingöngu til lægri launa, verra starfsumhverfis og verri þjónustu við íbúana,“ segir um þetta í málefnaskrá flokksins.
Sósíalistalistaflokkurinn vill bæta kjör og starfsaðstæður starfsfólks í skólum og við umönnun, auk þess sem flokkurinn vill hækka fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, þannig að fjárhagsaðstoðin „dugi til að lifa mannsæmandi lífi“.
Flokkurinn vill einnig að öll þjónusta á vegum sveitarfélaga sem snýr að heilsu og velferð fólks skuli vera „gjaldfrjáls og rekin af opinberum aðilum eða af óhagnaðardrifinum félagslegum samtökum ef það á við“.
Almenningssamgöngur eiga einnig að vera gjaldfrjálsar að mati flokksins, auk þess sem ekki ætti að innheimta vegatolla á þjóðvegum. Sósíalistaflokkurinn vill líka að aðgangur að opinberum söfnum verði gjaldfrjáls og að bókasöfn, menningarstofnanir og almenningsgarðar verði „efld sem opin rými þar sem allir mega koma saman óháð efnahagslegri stöðu“.
Þriðja stjórnsýslustigið?
Í stefnuáherslum Sósíalistaflokksins segir einnig að flokkurinn vilji kanna möguleikann á því að koma á þriðja stjórnsýslustiginu, „til þess að sameina kosti stærðarinnar og nærsamfélagsins“ og því lýst að slíkt stjórnsýslustig myndi taka yfir verkefni sem nú eru á höndum ríkisins og í sumum tilfellum sveitarfélaga.
Notendur þjónustu fái að hafa meiri áhrif
Sósíalistar segjast einnig vilja auka lýðræði með því að „notendur þjónustu sveitarfélaganna og starfsmenn í almannaþjónustu fái meira vald til ákvarðanatöku innan kerfisins“.
Dæmi um þetta eru væru að starfsmenn og íbúar á hjúkrunarheimilum fengju að taka þátt í stefnumótun í þeim málaflokki, notendur almenningssamgangna að þeirra málum og starfsfólk líkt og kennarar og skólaliðar, nemendur og foreldrar kæmu að ákvarðanatöku í skólamálum – og svo mætti áfram telja.
Kjarninn mun halda áfram að fjalla um framlögð stefnumál framboða í Reykjavík á næstu dögum.