Fyrirtækið Zephyr Iceland áformar að reisa í áföngum vindorkuver í landi Klaustursels í Jökuldal og mun 1. áfangi verða 40-50 MW en lokastærð versins gæti orðið allt að 250 MW. Þá yrðu 40-50 vindmyllur reistar á svæðinu, hver um 200 metrar á hæð. Stuðlagil, einn vinsælasti ferðamannastaður Íslands síðustu árin, er næsta nágrenni hins fyrirhugaða framkvæmdasvæðis.
Í lok janúar var haldinn forsamráðsfundur fulltrúa Zephyr, Múlaþings og Skipulagsstofnunar um áformin. Á þeim fundi vakti Sigurður Jónsson, skipulagsfulltrúi Múlaþings, athygli á nálægðinni við Stuðlagil sem ekki var getið í skýrslu þeirri um Klausturselsvirkjun sem Zephyr lét útbúa fyrir Orkustofnun er sóst var eftir að kostinum yrði skilað inn til meðferðar hjá verkefnisstjórn 4. áfanga rammaáætlunar. Sagði Sigurður mikilvægt að athuga með sýnileika vindmyllanna frá hinum geysivinsæla ferðamannastað.
Allir geta komið að athugasemdum um framkvæmdir í forsamráði og skal framkvæmdaaðili gera grein fyrir slíkum athugasemdum í matsáætlun um framkvæmdina sem er eitt fyrsta skefið í átt að mati á umhverfisáhrifum.
Zephyr Iceland vinnur að undirbúningi, rannsóknum og þróun nokkurra vindorkuverkefna á Íslandi. Fyrirtækið er að meirihluta í eigu norska Zephyr, sem er umfangsmikið vindorkufyrirtæki þar í landi. Alls er Zephyr nú með rúmlega 500 MW af vindafli í rekstri í Noregi og er að auki að reisa um 200 MW í viðbót.
Meðal verkefna Zephyr til þessa eru t.a.m. vindorkuverið Tellenes (um 160 MW) sem reis sumarið 2017 og selur raforkuna til Google og vindorkuver á Guleslettene (um 200 MW) sem reis sumarið 2020 og selur raforkuna til Alcoa.
Íslenska fyrirtækið Hreyfiafl er einnig hluthafi í Zephyr Iceland. Hreyfiafl er í eigu Ketils Sigurjónssonar, sem jafnframt er framkvæmdastjóri Zephyr Iceland.
Svæðið þar sem Klausturselsvirkjun er fyrirhuguð liggur innan jarðarinnar Klaustursels í sveitarfélaginu Fljótsdalshéraði. Framkvæmdasvæðið yrði á Fljótsdalsheiði vestanverðri.
Um svæðið liggur háspennulína Landsnets en auk þess er nú verið að reisa öflugri háspennulínu, Kröflulínu 3, samhliða hinni eldri. Báðar línurnar tengjast tengivirki við Kárahnjúkavirkjun.
Helstu stórnotendur raforku í nágrenni Fljótsdals eru álverið á Reyðarfirði og fiskimjölsverksmiðjur, en einnig er t.a.m. Eyjafjarðarsvæðið og kísilverksmiðjan á Bakka tengd flutningskerfinu. Vegna nálægðar við Kárahnjúkavirkjun og hafnarinnar á Reyðarfirði eru góðir innviðir til undirbúnings og uppbyggingu vindorkuversins til staðar að mati framkvæmdaaðila. „Á undirbúningstíma virkjunarinnar verður afar lítið rask á heiðinni því unnt er að nýta fyrirliggjandi vegslóða sem þar eru,“ sagði m.a. í gögnum sem skilað var inn vegna virkjanakostsins til mats í rammaáætlun. Þegar kæmi að því að reisa vindmyllurnar yrði sá vegslóði styrktur eða byggður nýr vegur á heiðinni.
Fljótsdalsheiði er víðfeðmt heiðarland milli Jökuldals og Fljótsdals. Jörðin Klaustursel liggur í og upp af Jökuldal og jörðinni tilheyrir víðáttumikið land uppi á heiðinni. Sá hluti Fljótsdalsheiðar þar sem virkjunin er fyrirhuguð er nokkuð innarlega á heiðinni. „Með því eru sjónræn áhrif virkjunarinnar frá byggð lágmörkuð og um leið má gera ráð fyrir að dragi úr ísingu eftir því sem kemur innar á heiðina, en þar er víðáttumikið fremur flatlent svæði,“ segir í gögnum Zephyr Iceland.
Virkjunarsvæðið er í einkaeigu hlutafélags sem er í endanlegri eigu ábúanda jarðarinnar Klaustursels. „Engin friðlýst svæði, náttúruverndarsvæði né vatnsverndarsvæði munu vera innan virkjunarsvæðisins,“ segir ennfremur í gögnunum en hvergi er þar getið um nálægðina við Stuðlagil.
Til norðurs nokkuð fjarri framkvæmdasvæðinu liggur Hálslón og önnur miðlunarlón Kárahnjúkavirkjunar og því eru til upplýsingar um náttúrufar á hluta af nágrannasvæðum Klaustursels. Við mat á umhverfisáhrifum verkefnisins verður skoðað hvort einhverjar jarðmyndanir eða vistgerðir þar njóti sérstakrar verndar samkvæmt lögum og þá hvernig unnt verði að lágmarka rask á þeim, ásamt því sem þá munu eiga sér stað aðrar viðeigandi rannsóknir á lífríki svæðisins.
Unnið að heildargreiningu á vindorkukostum
Stefán Bogi Sveinsson, oddviti Framsóknarflokksins í Múlaþingi og varaforseti sveitarstjórnar, sagði á forsamráðsfundinum með framkvæmdaaðila og Skipulagsstofnun í lok janúar að heildargreining á vindorkukostum í Múlaþingi stæði yfir. Vonast sé til að þeirri vinnu ljúki fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor. Í kjölfarið muni sveitarfélagið taka afstöðu til kosta og þá m.a. hvort gert verði ráð fyrir fyrirhuguðum áformum að Klausturseli í aðalskipulagi Múlaþings.
Vinna við nýtt aðalskipulag hins nýja sveitarfélags hefjist að öllum líkindum ekki fyrr en eftir kosningarnar en eðli málsins samkvæmt taki það langan tíma að ljúka slíkri vinnu.
Sigurður skipulagsfulltrúi benti á að ljóst væri að greining á vindorkukostum væri umfangsmikil þar sem um mjög stórt sveitarfélag væri að ræða. Þá væri líka ljóst að það gæti tekið 3-4 ár að vinna nýtt aðalskipulag fyrir Múlaþing en sagði ennfremur að það væri kostur að breyta núgildandi aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs ef niðurstaða greiningar væri sú að vindorkuver að Klausturseli væri kostur
Haukur Einarsson, fulltrúi verkfræðistofunnar Mannvits, sem vinnur að undirbúningi umhverfismats framkvæmdarinnar fyrir Zephyr Iceland sagðist á fundinum telja þá leið æskilegri en að bíða eftir nýju aðalskipulagi.
Ketill Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Zephyr Ísland, sagði í viðtali við RÚV vegna Klausturselsvirkjunar um mitt árið 2020 að jörðin Klaustursel væri mjög landmikil og því væri þar „fræðilega séð“ pláss fyrir „geysilega stóran vindmyllugarð. Í rauninni enn þá stærri en þann sem við höfum tilkynnt inn“.
Ætla að setja sérstök lög um nýtingu vindorku
Verkefnisstjórn fjórða áfanga rammaáætlunar lauk störfum í apríl í fyrra. Hún fékk 34 vindorkukosti til umfjöllunar en tók aðeins örfáa þeirra til mats þar sem hún taldi fyrirliggjandi gögn þeirra flestra ekki nægjanleg. Klausturselsvirkjun var ekki tekin til mats. Virkjanakostir sem eru 10 MW að afli eða meira fara til mats í rammaáætlun þar sem tekið er tillit til ýmissa sjónarmiða, s.s. umhverfislegra. Fyrrverandi orkumálastjóri var ósammála þeirri afstöðu umhverfisráðuneytisins að vindorkuver þyrftu öll sem eitt að fara í gegnum tímafrekt ferli rammaáætlunar væru þau 10 MW eða stærri.
Ríkisstjórnin áformar að setja sérstök lög um nýtingu vindorku með það að markmiði að einfalda uppbyggingu vindorkuvera. Áhersla verði lögð á að vindorkuver byggist upp á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum þar sem unnt verði að tryggja afhendingaröryggi og lágmarka umhverfisáhrif.