Ég ætla ekkert að ljúga hérna (no pun intended) þegar ég ímynda mér hversu djöfullega hresst líf mitt væri ef ég væri umkringd eintómu já-fólki. Ég færi út á morgnanna og það fyrsta sem ég fengi að heyra á leikskóla krakkans væri hvað allt væri nú pottþétt hjá mér eins og alltaf og að það væri nánast eins og pollagallinn væri straujaður með ilmkjarnaolíuessens svo fagurlega vel með farið væri allt sem kæmi frá mínu vandaða heimili flottust og sætust mín. Næsta stopp væri svo latte-to-go á Tárinu í Bankastræti. Þar fengi ég að heyra frá körlunum í horninu hvað ég væri með fallega liðað hár og að það virkaði bara alls ekkert þurrt þrátt fyrir kuldatíð síðustu vikna. Færi svo í vinnuna og þar biðu mín aðeins tölvupóstar frá fólki sem segðu mér hvað ég sé frábær ráðgjafi og ég þurfi í raun ekkert að gera nema halda bara áfram að vera meðidda blikkbroskall með vængi.
Svo kíki ég inn í heimabankann en þar eru rauðar tölur. Hmm...ekkert svo mikið mál samt, eitt símtal á þjónustufulltrúann þar sem ég útskýri hvað ég sé í raun búin að græða mikið á góðum útsölum, að ekki megi gleyma heildarmyndinni. Hann skilur þetta allt auðvitað, biður mig að refresha og púff, allar tölur grænar eins og vel þroskað síprustré í Toscana.
Ég fer í Bónus og stel eins og mér sýnist. Fólkið á kassanum brosir þegar ég sting skinkupakka undir kápuna og tylli lambalæri á höfuðið á mér. Enda er mér sagt að ég sé sólargeisli verslunarinnar, svo kurteis og tryggur kúnni.
Samfélagsmiðlarnir elska mig, en ekki hvað. Bon Jovi myndböndin sem ég pósta fá yfir 500 læk og ekki nóg með það heldur kommentar Jónas Sen ítarlega um hversu vanmetin og margslungin tónlistin hans Bon Jovi míns sé og þakkar mér fyrir að vekja athygli sína á þessum óslípaða demanti.
Og ef svo óheppilega vildi til að ég mundi rekast á einhvern sem væri óþægilegur, ekki kannski alveg sammala mér um ágæti Kim Kardashian og Doritos, þá hefði ég úrræði til að gera gott betur en að bara hundsa þetta lið. Ég væri með hóp fólks í kringum mig sem mundi banna þeim að nálgast mig á mannamótum eða yrða á mig. Ef hróp yrðu gerð að mér væri það lítið mál, ég væri með svona tæki á mér sem ruglar töluðu máli og breytti orðum fólksins í eitthvað óskiljanlegt. Eins og er notað til að afbaka raddir fólks í viðtölum. Ég mundi bara hreinlega ekki skilja hvað fólk væri að segja. Ég yrði aldrei spurð óþægilegra spurninga. Ég mundi bara líða áfram í já-draumi.
Auðvitað yrði þetta kannski ekki þægilegt til lengdar. Raunveruleikinn yrði sennilega eftirfarandi: Krakkinn í götóttum pollagalla. Hárið í rúst og vinnan djók. Sennilega væri ég að auki á bannlista í annarri hverri verslun á Íslandi og á hide hjá flestum á facebook út af þessum árans myndböndum með þessum miðaldra söngvara frá New Jersey.
Íslenska þjóðin fékk öll bjánalömun á sama sekúndubrotinu þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson málaði sig út í horn í Kastljósþættinum í gærkvöldi. Og hví? Hérna kemur það: Hann hefur búið sér til tilveru þar sem hann er aldrei í sama herbergi og einhver sem er ósammála honum. Hann sagði það sjálfur berum orðum við sænska fréttamanninn: „Íslenskir stjórnmálamenn eru ekki vanir að fá svona spurningar.”
Viðmótið breyttist svo fullkomlega þegar Jóhannes Kr. Kristjánsson gekk inn í settið og spurði hann áfram. Þá breyttist forsætisráðherra úr persónunni sem hann var að leika fyrir alþjóðasamfélagið, úr huggulega landsföðurnum, hvessti augun á þjóð sína og sagði á hennar tungumáli að Jóhannes gæti bara tekið það viðtal síðar (lesist: aldrei) um óþægilega málefnið sem hann vildi ekki tala um.
Vandamál Sigmundar Davíðs er þetta: Já-heimur hans hefur verið afhjúpaður enda nær hann ekki út fyrir íslenska landhelgi. Hann skilur ekki hvers vegna hann getur ekki lengur bara keypt sér útskriftarmynd og sent hana á The Daily Mail. Eða tekið viðtal við sjálfan sig í völdum fjölmiðlum. Raðað í kringum sig dansandi ráðherrum í grænum leddurum sem kalla hann leiðtoga þjóðarinnar á ögurstundu til að reyna að redda málum. Nei hann skilur ekki neitt í neinu.
En nú er það okkar að ákveða hvort við viljum sætta okkur við að búa við króníska bjánalömun.