Ég vaknaði uppgefinn í morgun - augun blóðhlaupin, maginn eins og hann væri að éta sjálfan sig. Ég er þunnur. Þunnur eins og ég hafi drukkið heilan líter af tindavodka og ælt bak við rúmið mitt. Hvað gerðist eiginlega í gær?
Spólum aðeins til baka. Á Austurvelli komu saman 22.000 einstaklingar að hrópa, syngja og kasta nokkrum eggjum. Heildarupplifunin var ekki sorg og reiði - heldur spenna; eins og fólk upplifði að það væri vor í loftinu. Öll saman, til þess að staðfesta hið óumflýjanlega; tilvist þessarar ríkisstjórnar var lokið. Við vorum bara þarna til þess að kveðja hana.
Í auga stormsins óskuðum við nefnilega og trúðum að við værum að fara að upplifa réttu frásögnina. Forsætisráðherra, sem hafði verið opinberaður og niðurlægður fyrir augum alþjóðar deginum fyrr, yrði neyddur til þess að auðmýkja sig, stíga niður og láta sig hverfa út í mistrið. Hann mundi kannski ekki segja af sér sjálfur, en pólitískt klókari aflandsbróðir hans Bjarni Benediktsson mundi hinsvegar gera það eina sem hann gæti gert til þess að bjarga eigin pólitískri æru sem væri að annaðhvort neyða Sigmund til að slíta þingi eða samþykkja vantraust á eigin ríkisstjórn - senda okkur í kosningar og koma sjálfur út eins og smá alþýðuhetja eftir að hafa sjálfur verið með hausinn í snörunni. Sjálfstæðismenn hefðu þá afsökun til að fylkjast á bak við formanninn sinn og flokkurinn í fínni stöðu til þess að endurnýja umboð sitt sem spilltur auðvaldsflokkur í næstu ríkisstjórn.
Þetta var tímalínan sem við sáum öll fyrir okkur. Nema þetta er ekki það sem gerðist.
Í skammtafræði er kenning sem segir að allar mögulegar niðurstöður úr öllum mögulegum aðstæðum séu raunverulegar í hliðstæðum veruleika; allt sem mögulega getur hafa gerst gerðist á annari tímalínu. Í bestu tímalínunni erum við öll með stöðuga raðfullnægingu á úrslitaleik EM þar sem við erum að vinna Dani 5-0 rétt eftir að við unnum öll saman í Víkingalottóinu, sem skipti okkur samt ekki það miklu máli því við erum öll búin að ná spiritúalískri uppljómun og þurfum ekki veraldlegar eignir lengur.
En við erum að upplifa myrkustu, verstu tímalínuna.
Í staðinn fyrir að Sigmundur Davíð mundi finna í sér smá reisn eða auðmýkt gagnvart eigin þjóð ákvað hann að betri kostur væri að missa vitið. Hann ákvað að gerast eins manns her, hefndarengill með þann eina tilgang að brenna pólitíska tilveru sína til grunna. Hann byrjar á þvi að sparka upp hurðinni hjá Bjarna Benediktssyni og tilkynna honum að annaðhvort verði hann forsætisráðherra áfram eða hann kveiki í sjálfum sér. Þegar það gengur ekki sparkar hann upp hurðinni á Bessastöðum og tilkynnir forseta að hann verði að slíta þinginu ellegar kveiki hann í sjálfum sér. Það gengur ekki heldur. Eftir þetta endar hann á þingflokksfundi Framsóknarflokksins, reynir að kveikja í sjálfum sér, en mistekst það líka. Situr bara kjökrandi á gólfinu, löðrandi í bensíni þegar svartur kæfandi skuggi færist yfir hann, það er Sigurður Ingi, rauður og þrútinn eins og kofareykt bjúga, standandi yfir honum glottandi.
Það sem að Sigmundur Davíð gerði með þessu sóðalega pólitíska sjálfsmorði sínu var að setja af stað skelfilega atburðarás. Hann gaf Bjarna Benediktssyni og Ólöfu Nordal skjól frá því að vera tekin pólitískt af lífi með honum. Í öllum maníska hasarnum stökk hann alveg óvart fyrir kúluna sem var ætluð þeim. Hann gaf Ólafi Ragnari tækifæri til þess að eiga hetjulega heimkomu til landsins, láta andartakið snúast um eigin persónu og líklega hætta við að hætta sem forseti. Hann gaf hinum fullkomlega samseka Framsóknarflokki líka tækifæri til þess að afneita sér, aftengja sig formanninum og þvo hendur sínar af honum. Ekki aðeins endaði hann vinalaus einn eftir í gólfinu, heldur opnaði hann glufu fyrir stjórnarsamstarf, sem í öllum eðlilegum samfélögum væri dautt, en fann sér í staðinn minnstu mögulegu syllu til að hanga á.
Nú þegar rykið fellur til jarðar er niðurstaða eins stærsta skandals íslenskra stjórnmálasögu og fjölmennustu mótmæla lýðveldissögunnar því eftirfarandi:
● Sigurður Ingi Jóhannesson, einn helsti stuðningsmaður Sigmundar Davíðs og mannlegt bjúga er að verða forsætisráðherra.
● Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, óvinsælasti stjórnmálamaður Íslands, er enn þingmaður og formaður stjórnarflokks.
● Bjarni Benediktsson er enn ráðherra og formaður stjórnarflokks.
● Ríkisstjórn sem 22.000 manns mótmæltu er enn ríkisstjórn.
● Ólafur Ragnar Grímsson, sem við héldum að við værum loksins búin að losna við, er alveg pottþétt að fara að bjóða sig fram.
Þetta hefði getað farið öðruvísi. Eina sem Sigmundur Davíð hefði þurft að gera var að sýna smá auðmýkt. Eina sem Bjarni Benediktsson hefði þurft að gera væri að sýna smá kjark. Gefa okkur þann söguþráð sem við vildum öll - ekki þennan ömurlega, ótrúverðuga reyfara.
Ok, þetta er
kannski ekki myrkasta tímalínan. Í myrkustu tímalínunni komumst við aldrei á
EM, höfum aldrei fengið fullnægingu - hvað þá raðfullnægingu. Þegar við lítum í
spegil erum við öll Sigurður Ingi. Mamma okkar er Sigurður Ingi, makar okkar
eru Sigurður Ingi. Samstarfsfólk, vinir, frænkur, frændur, leiðinlegi gaurinn
sem var með þér í menntaskóla - allt Sigurður Ingi. Allir rýtandi eins og
svínið Napóleon í Dýrabæ, reynandi að láta hvort annað skrifa undir ömurlega
búvörusamninga.
Það er myrkasta tímalínan. Tímalínan sem við erum að upplifa núna er bara svona
fjórða verst. Hjúkket.