Ég hef alltaf valið mér lítið og ólíklegt land á stórmótum í fótbolta og haldið með því. Muniði eftir Kamerún krakkar? Eftir stórkostlega innkomu þeirra á HM 1990 lærði ég þjóðsöng landsins og nöfn allra leikmanna liðsins utanbókar og saumaði á mig þjóðbúning landsins og mætti í honum á ættarmót. Þegar Grikkland vann EM árið 2004 bjó ég til fetaost í baðkarinu og bætti Onassis við Björnsdóttir með bandstriki. Og englarnir frá Leicester City? Ég laug að fólki í allan vetur að langa-langafi minn hefði fæðst þar og að stytta af honum stæði á torgi bæjarins. Þið getið því rétt svo ímyndað ykkur mína tvöföldu gleði þegar Ísland er skyndilega komið í þetta mjög svo hressa hlutverk óvænta og óútreiknanlega spútník liðsins.
Og ég er ekki ein í þessu. Við Íslendingar erum ekki einir. Allur heimurinn er að tjúllast með okkur. En hvers vegna í ósköpunum höfðar þetta til svona margra? Að halda með Íslandi, the underdog? Það er ekki vegna norðurljósanna eða björtu sumarnóttanna og hreina vatnsins, svo mikið er víst. Ástæðan er einföld: Sú hreina og tæra gleði í andliti þeirra sem ekki búast endilega við neinu snertir við okkur.
Sálfræðin í þessu er svo dásamleg. Að fylgjast með einhverjum ólíklegum ná árangri eftir mikla og erfiða vinnu lætur okkur trúa því að allt sé hægt. Við sem verðum vitni að þessum sigrum fáum innblástur, þetta vekur hjá okkur bjartsýni og von.
Annað gott og hresst á svona persónulegu leveli fyrir týpur eins og mig er eftirfarandi: Ekkert pirrar mig þessa dagana. Ég er rosa hress. Meira að segja málfarsklisja eins og „veisla“ lætur mig ekki lengur lippast niður af bjánahrolli. Ég læka hverja einustu mynd af andlitsmáluðu krakkasmetti á samfélagsmiðlunum og horfi í gegnum korters löng MyStory á Snaptjöttum þar sem ekkert sést nema plastbjórglös og kámug borð í bland við undirleik hrópa og öskra. Ég sé eftir því að hafa ekki látið tattúera íslenska búninginn á ennið á mér og látið mála andlitsmynd af Birki utan á húsið mitt. Mig langar að horfa á EM stofuna allan sólarhringinn (ég skil reyndar ekki hví hún er ekki í gangi alltaf) og er búin að teipa bláan þvottapoka við prik sem ég nota þegar ég þykist taka viðtöl við vini og fjölskyldu. Með sólgleraugu á nefinu auðvitað. Ég sendi hjörtu á tuðarana sem eru bara „hvernig nennir fólk að horfa á þennan fótbolta“ og lykla „Áfram Ísland“ á bíla sem leggja í stæði fyrir fatlaða. Herópið: „Áfram Ísla-aaaaa-nd” með þessu furðulega lækkaða tónbili í lokin er það sem ég syng barnið mitt í svefn með þessa dagana í staðinn fyrir „Sofðu unga ástin mín“.
Spáiði svo í því að vera dæmd til að halda með einhverju landi sem hefur unnið þetta milljón sinnum. Wú-fokking-hú. Klappa fyrir einhverjum sem kann ekki lengur að meta hálfan hlut. Leikmanni sem labbar hægt inn á völlinn eins og honum leiðist, með hálfopinn augun, gelskúlptúr í stað hárs og glott. Og talandi um Ronaldo (þetta gæti reyndar átt við margar aðrar sveittar týpur) þá eigum við honum miklar þakkir skildar því kæri vinur Cristiano hefði allt eins getað rétt okkur spútnik hásætið á gullslegnu demantseyrnalokka silfurfati með skapvonskulegu rausi sínu út í okkur. Við erum eftirlæti allrar heimsbyggðarinnar eftir að hann endanlega skrifaði sögu þessa leiks í Biblíu fótboltasögunnar. Við erum elegant og kúl og hann sárt og svekkt dekurbarn.
Við getum alveg orðið Leicester þessa EM krakkar mínir. Við þurfum bara að trúa því að við getum þetta. Og vinna nokkra leiki. Og vera elegant. Við erum þokkalega komin heim krakkar. Áfram Ísland.